Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Búnaðarþing sett
Fréttir 1. mars 2014

Búnaðarþing sett

Búnaðarþing 2014 var sett við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Setningarathöfnin markar upphafið að þriggja daga búnaðarþingi þar sem fulltrúar bænda koma saman og ræða hagsmunamál stéttarinnar, marka stefnu og ráða ráðum sínum. Fjöldi mála liggur fyrir þinginu en formleg störf þess hefjast á morgun. Þar ber helst að nefna tillögur um endurskoðun félagskerfis bænda en tillögur þess efnis eru um margt mjög róttækar.

Setning þingsins fór nú í fyrsta skipti fram í Hörpu en venjan hefur verið sú að setja búnaðarþing í Súlnasal Hótel Sögu. Mikið var um að vera í Hörpu í dag í tengslum við setninguna. Matarmarkaður ljúfmetisverlunarinnar Búrsins var haldinn á jarðhæð, voru mættir með dráttarvélar og tæki til sýnis og vakti það mikla athygli og gleði yngstu kynslóðarinnar sem fengu að setjast í vélarnar og skoða í krók og kring. Sauðfjárbændur buðu gestum og gangandi upp á grillað lambakjöt úr grillvagni Landssamtaka sauðfjárbænda og fleira var hægt að smakka. Þá stóð kokkakeppni Food & Fun hátíðarinnar yfir í Norðurljósasal Hörpu á sama tíma og setning Búnaðarþings fór fram.

Ár fjölskyldubúsins

Dagskrá setningarathafnarinnar var öll hin glæsilegasta. Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands flutti setningarræðu þar sem hann lagði út af mikilvægi fjölskyldubúsins í íslenskum landbúnaði enda árið 2014 ár fjölskyldubúsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Sindri vakti jafnframt máls á mikilvægi íslensks landbúnaðar í stóru og smáu, ekki síst í samhengi við þann aukna ferðamannafjölda sem til Íslands streymir. Íslenskur landbúnaður, búseta á landsbyggðinni og þjónusta við ferðamenn sem sækja landið heim hlyti alltaf að fara saman. Erlendir ferðamenn sæktust eftir matarupplifun, menningu sveitanna og ferðamennsku um land allt. Þar væru bændur, sumir hverjir sem rekstraraðilar í ferðaþjónustu, lykilleikendur.

Tekur undir með neytendum

Sindri minnti jafnframt á mikilvægi fjölbreytni í búskaparháttu, framleiðslu og úrvinnslu. Mikilvægt væri að hlúa að litlum afurðafyrirtækjum og framleiðslu beint frá býli. Á sama tíma væri gríðarlega mikilvægt að eiga stór og öflug afurðafyrirtæki sem gætu afsett afurðir bænda með hagkvæmum hætti og hefðu styrk til að takast á við sveiflur á markaði. Þá væri rétt og eðlilegt að taka undir með kröfu neytenda um rekjanleika matvæla, innihaldslýsingar og vöruval. Bændasamtökin hefðu í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og Neytendasamtökin gert sáttmála um að bæta upprunamerkingar og væri það mikilvægt skref í átt til þess að uppfylla þessar kröfur.

Landbúnaðarverðlaunin veitt

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs –og landbúnaðarráðherra ávarpaði einnig samkomuna í stuttu máli og óskaði búnaðarþingi heilla í sínu starfi. Þá veitti ráðherra jafnframt landbúnaðarverðlaunin 2014 sem í þetta sinn komu í hlut ábúenda í Fossárdal í Berufirði, ábúenda í Friðheimum í Bláskógabyggð og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Reykjavík. Í Fossárdal reka þau Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson sauðfjárbú með á sjötta hundrað vetrarfóðraðar kindur, ferðaþjónustu og skógrækt auk annarra starfa. Fengu þau verðlaunin fyrir fyrirmyndarbúskap í Fossárdal.

Í Friðheimum reka þau Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann stórfellda tómatarækt og einnig rækta þau þar gúrkur. Þá hafa þau tvinnað sama ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við þúsundum ferðamanna sem sjá hrossasýningar, skoða garðyrkjuframleiðslu og njóta veitinga í gestastofu. Ábúendur í Friðheimum fengu verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og fyrirmyndarbúskap.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn sem opnaði 1990 hefur frá upphafi gert höfuðborgarbúum kleyft að sjá flest helstu húsdýr á Íslandi innan borgarmarkanna. Gríðarleg ásókn er í garðinn og á síðasta ári sóttu um 200 þúsund manns hann heim. Fyrir fræðslu og kynningarstarf hlýtur Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn Landbúnaðarverðlaunin 2014.

Á setningunni var Landbúnaðarklasinn einnig kynntur en það er samstarfsverkefni bænda og annarra þeirra sem koma að landbúnaði á einn eða annan hátt. Sá klasi er í mótun en ljóst að mikilvægt er fyrir þessa aðila að koma saman að borðinu. Þá var sýnt myndband sem Samtök ungra bænda létu gera um mikilvægi landbúnaðar.

Skemmtiatriði voru ekki skorin við nögl og vöktu mikla hrifningu gesta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð gladdi gesti með söng, Sirkus Íslands sýndi glæfraleg sirkusatriði og Magni Ásgeirsson leiddi gesti í söng.

Búnaðarþing stendur næstu þrjá daga og lýkur því seinnipart þriðjudags, ef allt gengur eftir. Fluttar verða fréttir af þinginu hér á vefnum og einnig verður hægt að nálgast dagskrá og fylgjast með framvindu þingsins á vef Bændasamtakanna, bondi.is.

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...

Varnarlínur breytast
Fréttir 21. september 2023

Varnarlínur breytast

Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í bará...

Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll slá...

Nýr landnemi úr svepparíkinu
Fréttir 20. september 2023

Nýr landnemi úr svepparíkinu

Sveppur af ættkvíslinni Rhizopogon fannst nýlega á Íslandi en hann hefur ekki ve...