Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Árni Bragason, landgræðslustjóri, og Trausti Hjálmarsson, formaður sauðfjárbænda.
Árni Bragason, landgræðslustjóri, og Trausti Hjálmarsson, formaður sauðfjárbænda.
Fréttir 28. júní 2022

Bændur og Landgræðslan

Höfundur: Árni Bragason, landgræðslustjóri, & Trausti Hjálmarsson, formaður sauðfjárbænda.

Umræður um beitarmál og landgræðslu eru oft og tíðum harðvítugar og sitt sýnist hverjum um ágæti þess sem verið er að gera.

Samstarf bænda og Land­ græðslunnar á sér langa og farsæla sögu og margþættur ávinningur náðst við landgræðslu. Það má segja að kannski það mikilvægasta sem hefur komið út úr þessu áratuga samstarfi er þekking, þekking bænda og Landgræðslunnar hefur stóraukist á síðustu áratugum og landgræðsluaðgerðir eru vítt og breitt um landið orðnar að sjálfsögðum bústörfum hjá bændum. Víða eru bændur og Landgræðslan að vinna saman að því að bæta heimalönd bænda í gegnum verkefnið Bændur græða landið.

Eins er það að á mörgum afréttum er unnið að landbótum með stuðningi Landbótasjóðs Landgræðslunnar og eru þau verkefni mörg unnin til að uppfylla gildandi landbótaáætlanir.

Margt hefur áunnist á síðustu áratugum. Bændur hafa friðað 8.500 ferkílómetra af hnignuðu landi í gegnum landbótaáætlanir í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt. Frá árinu 1990 hafa bændur unnið að uppgræðslu 900 ferkílómetra landsvæðis í samstarfi við Landgræðsluna. Beitartími fjár á afréttum hefur verið styttur til muna og beit stýrt með mun markvissari hætti nú en á árum áður. Þá hefur fé fækkað nokkuð síðustu ár og er því ljóst að beitarálag hefur minnkað umtalsvert. Samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar, GróLind, eykur þekkingu á ástandi landsins og verkefnið mun auðvelda sjálfbæra landnýtingu í framtíðinni.

Bændur hafa sýnt það að þeir hafa vilja og getu til þess að auka verulega landbótastarf. Í könnun sem var gerð árið 2021 af Maskínu fyrir atvinnuvegaráðuneytið meðal sauðfjárbænda kom fram að þriðjungur sauðfjárbænda hafi mjög mikinn og fremur mikinn áhuga á því að vinna að verkefnum sem tengjast loftslags­ og umhverfismálum. Einnig kom fram í þessari könnun að 90% svarenda höfðu mestan áhuga á landgræðslu sem verkefni tengt aðgerðum í loftslags­ og umhverfismálum.

Við getum séð fyrir okkur að nýta enn betur verkefni eins og Bændur græða landið, Endurheimt votlendis, Landbótasjóð, endurheimt birkiskóga og aukna nýtingu lífræns áburðar til að vinna að loftslagsmarkmiðum Íslands. Árlega taka yfir fjögur þúsund manns þátt í þessum verkefnum og þau skila margþættum ávinningi eins og auknum nýtingarmöguleikum, bættri vatnsmiðlun, vernd líffræðilegs fjölbreytileika, auk loftslagsávinn­ingsins. Þau lönd sem bændur græða í samstarfi við Landgræðsluna teljast nefnilega þjóðinni allri til tekna þegar þau eru sett inn í loftslagsbókhald landsins. Með samstilltu átaki bænda og Landgræðslunnar er hægt að auka enn frekar endurheimt landgæða á Íslandi.

Samstarf bænda og Land­græðslunnar hefur gefist vel og þar sameinast allt sem þarf, þekking, mannafli, tæki og vilji.

Skylt efni: Landgræðsla