Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Í fjarska má sjá bílastæðin, þar næst innganginn og loks bróðurpart smábásasvæðisins.
Í fjarska má sjá bílastæðin, þar næst innganginn og loks bróðurpart smábásasvæðisins.
Fréttir 30. júní 2022

Alltaf stuð í skóginum

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson

Skógtæknisýningin Elmia Wood, er haldin fjórða hvert ár í sveitahéraðinu Vaggeryd í Svíþjóð. Hlynur Gauti Sigurðsson, sérfræðingur hjá Bændasamtökum, var á staðnum og gerir hér hátíðinni skil.

Á rólegheitadegi tekur um hálfa klukkustund að keyra þangað frá borginni Jönköping. Í þeirri borg er gata sem heitir Elmia-vegur en betra er að rugla þeirri götu ekki saman við sýninguna, þó svo að hún eigi gatnamót við Húskvarna- veg (Íslendingar þekkja Husqvarna vörumerkið vegna keðjusaga og saumavéla).

Sýningartími Elmia Wood er venjulega í byrjun júní og stendur yfir í þrjá daga frá fimmtudegi fram á laugardag. Í ár var hún 2.–4. júní.

Þessa vikuna hafði hópur íslenskra, danskra og sænskra nema í viðarvinnslu í verkefninu TreProX verið í Smálöndum Svíþjóðar. Hópurinn mætti á föstudeginum og tvístraðist í allar áttir yfir 200 hektara sýningarsvæði og blönduðust við hina 30.000 gestina þann daginn.

Skipta mátti svæðinu gróflega upp í þrjú svæði. Sýningarsvæðið við innganginn er ævinlega erilsamt enda sýningarbásar þar smáir og margir. Stór hringur er um skóginn þar sem stóru græjurnar er að sjá. Á síðasta sértæka svæðinu voru skógarhöggsvélar að grisja skóga.

Það er kúnstugt að gera risastórri alþjóðlegri sýningu sem Elmia Wood skil. Allt er svo stórt og svo mikið er um að vera. Hér nefni ég það sem mér þótti áhugaverðast, af því sem ég náði að kynna mér, og hef jafnframt til hliðsjónar það sem gagnast gæti lítilli skógarþjóð sem Ísland er.

Tæknilegar lausnir einkennandi

Það sem einkenndi sýninguna í ár voru tæknilegar lausnir til að ná náttúruvænni orkuhagkvæmni, svo sem batterí framtíðarinnar.

Caption

Daniel Källström hjá Cramer sagði frá ofur rafhleðslum sem verkfærin þeirra eru drifin á. Í stuttu máli gengur þeirra tækni út á að hlaða rafhlöður með volt-stundum en ekki amper-stundum. Þannig má ná fram meiri krafti og úthaldi í minni hýsingu, en það er það sem markaðurinn biður um.

Rafmagnsknúin skógarhöggsvél frá Malva.

Nokkur vörumerki lítilla skógarhöggsvéla eru á markaðnum í dag en Malva hefur komið nýrri vél á markað sem gæti hugsanlega verið sniðin fyrir íslenska skóga. Um er að ræða litla skógarhöggsvél sem er alfarið knúin rafmagni. Hún er mjög umhverfisvæn og hljóðlát. Meira að segja glussavökvinn í henni er náttúruvænn.

Rafknúið spil frá Portablewinch.

Í nokkur ár hefur Portablewinch verið með lítil útdráttarspil á markaði. Þau henta t.d. einyrkjum í skógarhöggi vel við að draga út efni í girðingarstaura í einum drætti. Hingað til hafa spilin verið bensínknúin en nú eru rafmótorarnir að koma sterkir inn.

Stubbatætarar verða sífellt vinsælli um heim allan. Eistneska fyrirtækið Dipperfox kynnti afkastamiklar gerðir af stubbatæturum fyrir gröfur. Meðaltæting á venjulegum (stórum á íslenskan mælikvarða) stubbi eru 20 sekúndur.

Flettisagir eru til í ýmsum stærðum og gerðum. Þessi Logosol sög er í stærra lagi.

Tom Fox hjá Logosol er mikill Íslandsvinur. Af mörgum ágætum merkjum stórviðarsaga er Logosol eitt það útbreiddasta um veröld alla með umboðsaðila í 62 löndum og í öllum ríkjum Bandaríkjanna.

BioVarme selur viðarkyndara af ýmsum gerðum. Svona kyndarar henta bæði stórum fyrirtækjum sem smærri heimilum. Þeir hafa selt þúsundir kyndara til bænda í Svíþjóð enda skilvirkar græjur sem nýta orku viðarins mjög vel.
Þegar kom að nýjustu tækni í heimi landmælinga og skógmælinga var fátt nýtt að frétta hvað varðar hugbúnaðarlausnir. Helstu nýjungar í heimi dróna eru endingarbetri batterí og nákvæmari mælingar en það er framvinda sem eiginlega var fyrirséð. Þetta voru örlítil vonbrigði fyrir greinarhöfund en vonandi verður eitthvað nýtt næst.

Arboristar áberandi

Aldrei hafa trjáklifrarar (arboristar) verið eins áberandi og nú en Husqvarna var með mjög tilkomu- mikinn bás þar sem fólk ferðaðist upp og niður tré og virtist ekkert hafa fyrir því. Þarna var á ferðinni þjálfað fólk í trjáklifri en svona iðja er alls ekkert grín. Það má ekkert út af bregða.

Arboristar hjá Husqvarna klifra upp í tré eins og íkornar.

Södra var með stóran og huggulegan bás þar sem fólk staldraði við, fékk sér kaffi og naut augnabliksins. Södra er í eigu skógarbænda í Suður-Svíþjóð og hefur haft veg og vanda af því að aðstoða skógarbændur með allt sem viðkemur skógrækt, svo sem að grisja fyrir þá og koma timbrinu í verð svo allir uni glaðir við sitt.

Þó nokkrir plöntuframleiðendur voru að kynna sitt starf og sínar lausnir. Þeir gera sér algerlega grein fyrir mikilvægi þess að hafa nægt framboð plantna og sagði hinn finnski Timo Salminen hjá FinForelia að plöntueftirspurn væri að aukast allt í kringum Finnland. Á öllum fjórum gróðrarstöðvum þeirra voru þeir að auka framleiðsluna, líka hjá jólasveininum í Lapplandi.

Það má alveg reyna að gera stórri sýningu sem Elmia Wood skil í máli og myndum en það verður seint hægt að segja frá öllu í stuttu máli.
Það er því um að gera fyrir þá sem hafa áhuga á skógrækt, og sér í lagi tækjum tengdum henni, að gefa sér tíma til að mæta á svona sýningu. Elmia Wood er nærtækasta stóra skógræktarsýningin fyrir Íslendinga að fara á.

Á sama sýningarsvæði er haldin önnur sýning sem heitir Skogs-Elmia eftir tvör ár. Hún er haldin á fjögurra ára fresti eins og Elmia Wood. Þarna eru því sýningar á tveggja ára fresti – ein stór og önnur risastór.

Vonandi hafa einhverjir haft gagn og jafnvel gaman af því að lesa þennan útdrátt en það jafnast ekkert á við að kynnast sýningunni af eigin raun.