Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Horft úr norðaustri yfir miðdalinn og afdalina. Til vinstri er Gilsárgil á sveitarmörkum og innan við það Ranaskógur og Gilsáreyri, þar sem Upphéraðsvegur (931) og Leirubrú (byggð 2001) þvera Jökulsá á Leirunum við Fljótsbotninn, fram undan Hengifossárglj
Horft úr norðaustri yfir miðdalinn og afdalina. Til vinstri er Gilsárgil á sveitarmörkum og innan við það Ranaskógur og Gilsáreyri, þar sem Upphéraðsvegur (931) og Leirubrú (byggð 2001) þvera Jökulsá á Leirunum við Fljótsbotninn, fram undan Hengifossárglj
Mynd / Skarphéðinn G. Þórisson
Fréttir 15. júní 2020

Áhugavert verkefni og ný nálgun við val á heppilegum stað

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Þetta er mjög áhugavert verkefni og alveg ný nálgun hjá sveitarfélaginu að fara þessa leið. Þetta sýnir ákveðið hugrekki og er í raun til fyrirmyndar,“ segir Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði og annar eigenda stofunnar TGJ  hönnun – ráðgjöf – rannsóknir. 

Staðarval vegna nýs byggðarkjarna sem ráðgert er að rísi í Fljótsdalshreppi stendur nú yfir, en starfsfólk TGJ hefur undanfarnar vikur unnið að könnuninni fyrir sveitarfélagið og samfélagsnefnd Fljótsdalshrepps. Auk Páls vinna að verkefninu þau Gunnlaugur Halldórsson þjóðhátta- og fornleifafræðingur, Henning Klipper arkitekt og Sigrún Birna Sigurðardóttir, dr. í samgöngusálfræði.

Staðarvalskönnunin er liður í verkefninu „Fögur framtíð í Fljótsdal“ og lýtur hún að því að finna byggðarkjarna stað í Fljótsdal, en enginn slíkur er í sveitarfélaginu. Tilgangurinn er einkum sá, að vegna uppbyggingar innan ferðaþjónustunnar er vaxandi þörf fyrir íbúðarhúsnæði í hreppnum, bæði til leigu og mögulegrar sölu.

Eyðijörðin Hamborg er meðal þeirra staða sem álitlegir eru fyrir staðsetningu byggðarkjarna. Næst túninu eru Bessastaðir í miðjum skógarlundi, en fjær er býlið Eyrarland. Mynd /  Páll J. Líndal

Umhverfissálfræði höfð að leiðarljósi við valið

„Við bendum á þrjá staði sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru nýjum byggðarkjörnum en það er sveitarstjórnar að ákveða endanlega hvar byggðin muni  á endanum rísa,“ segir Páll. 

„Sveitarfélagið vill geta boðið upp á eftirsóknarverðan, einstakan og vistvænan byggðarkjarna sem fellur vel að landslagi, er öruggur frá náttúrunnar hendi, aðgengilegur hvað varðar samgöngur og að hann henti vaxandi starfsemi í Fljótsdal.“   Staðarvalið á að byggja á forsendum umhverfissálfræði á þann hátt að uppbyggingin hámarki vellíðan og jákvæða upplifun íbúa og gesta, en Páll segir að gert sé ráð fyrir að til að byrja með verði íbúar kjarnans 10 til 20 talsins og að hámarki  um 50 manns.

Að mörgu þarf að hyggja

Dr. Páll Jakob Líndal.

Páll segir að vissulega sé nokkuð sérstakt hvernig hér er staðið að vali á heppilegum stað fyrir byggðarkjarna og mjög til fyrirmyndar sú nálgun sem sveitarstjórn hefur á verk­efnið, þ.e. að beina sjónum fyrst og fremst að hagsmunum íbúanna sem búa munu í byggðarkjarnanum. Staðarvalið eigi einkum og sér í lagi að vera á þeirra forsendum.

„Það er heilmargt sem hafa þarf í huga þegar farið er yfir þessi mál og þær forsendur sem þurfa að vera fyrir hendi,“ segir Páll.

Í því felst m.a. greining á staðháttum og í því skyni hafa starfsmenn TGJ farið tvívegis á vettvang og metið sérstaklega 10 staði, sem við upphaf máls þóttu helst koma til greina. Eftir þá athugun og nánara mat hefur þeim valkostum verið fækkað í þrjá, sem álitlegastir þykja og þurfa heimamenn síðar að velja á milli.

Vaxandi ferðaþjónusta

Fljótsdalshreppur hefur alla tíð verið öflug landbúnaðarsveit,  en á síðustu árum hefur sauðfé og sauðfjárbændum fækkað verulega frá því sem áður var. Kúabúskapur heyrir sögunni til í hreppnum. Skógrækt er hins vegar umtalsverð, en hin síðari ár hefur ferðaþjónustu vaxið mjög fiskur um hrygg á svæðinu, enda fjölmargir staðir innan þess sem ferðalanga fýsir að sjá og skoða. Umsvifin eru mest að sumarlagi og þá þarf að leita eftir starfsfólki utan sveitarfélagsins en laust húsnæði er af skornum skammti. Páll segir að fyrir því sé heimild samkvæmt aðalskipulagi að reisa allt að þrjú íbúðarhús á hverri jörð. Í stað þess að fara þá leið og byggja hús hér og hvar á aðskildum jörðum hafi vaknað sú hugmynd að stofna til sérstaks byggðarkjarna í hreppnum.

Öryggi og góð samfélagsupplifun

Við staðarvalið er m.a. unnið með sálfræðilegar aðferðir og forsendur og þar eru nokkrar breytur hafðar til hliðsjónar; öryggi, sjálfræði og stjórn, samfélagsupplifun, félagsauður, sálfræðileg endurheimt og athafnir utan dyra.

„Þessi atriði eru í forgrunni við staðarval byggðarkjarna og fengum við þau tilmæli að hvorki landamerki né eignarhald á jörðum þyrfti að setja leitinni skorður. Við höfum skoðað staðhætti með tilliti til landslags og annarra náttúru- og umhverfisþátta, þar á meðal nálægð við helstu náttúruperlur hreppsins en jafnframt metið svæðið með hliðsjón af náttúruvá og sjónmengun af stórum raflínumöstrum. Eins höfum við tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og lýðheilsumarkmiðum. Allar þessar breytur eru teknar með í reikninginn,“ segir Páll.

Að fólk upplifi góð lífsgæði í umhverfi sínu

Páll bendir á að fólk kjósi að búa á stað sem veiti öryggistilfinningu og þar sem yfirvofandi náttúruvá sé ekki fyrir hendi. Helstu hættur í þeim efnum í Fljótsdal eru aur- og jarðvegsskriður, krapa- og vatnsflóð.

Áhersla er lögð á að hvorki skipulögð íbúða- eða frístundabyggð verði á meintum hættusvæðum. „Það vilja allir hafa stjórn á sínum aðstæðum og það hversu mikil sú stjórn er skiptir miklu máli varðandi það hvernig fólk upplifir sig í samfélaginu. Því meiri stjórn sem fólk telur sig hafa á sínum aðstæðum, því minni streitu upplifir það og býr þá við betri heilsu,“ segir Páll. Félagsauður snýst um á hvern hátt fólk upplifir sig innan samfélagsins og hvort því finnist það vera partur af því.

Sálfræðileg endurheimt snýst um hversu vel fólki tekst að „hlaða batteríin“ í dagsins önn, en um er að ræða lífsnauðsynlegt ferli. Rannsóknir hafa sýnt að umhverfi hefur mikil áhrif á hversu hratt og vel ferlið gengur, og eru áhrif náttúrunnar mjög mikilvæg í þessu samhengi. 

„Nauðsynlegt er því að huga að öllum þessum þáttum svo fólk upplifi góð lífsgæði í umhverfi sínu og sé þannig betur í stakk búið til að takast á við sín verkefni.“

Eins skiptir máli að sögn Páls hvar í sveitarfélaginu byggðarkjarninn sé staðsettur, þ.e. í jaðri þess eða fyrir miðju og hvernig samgöngum til og frá eða um þéttbýlið sjálft er háttað.

„Það er mjög sérstakt hér á landi að til standi að byggja upp nýjan byggðarkjarna frá grunni. Það er því einkar ánægjulegt að þessir sálfræðilegu þættir skuli hafðir að leiðarljósi við staðarvalið. Þeir vilja því miður oft gleymast. Þetta hefur verið skemmtileg vinna,“ segir Páll. Lokaskýrsla TGJ, þar sem bent er á þrjá fýsilega staði fyrir byggðarkjarnann verður lögð fyrir sveitarstjórn innan tíðar.