Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Meira en bara Húsið
Mynd / Lýður Pálsson
Menning 22. mars 2023

Meira en bara Húsið

Höfundur: Lýður Pálsson, safnstjóri á Byggðasafni Árnesinga.

Byggðasafn Árnesinga er með sína starfsemi í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum og Kirkjubæ ásamt því að sjá um Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og Rjómabúið á Baugsstöðum. Margt er því að sjá í söfnum Byggðasafns Árnesinga.

Mynd / Ólafur Hannesson.

Húsið, sem hefur staðið af sér sunnlensku rigninguna frá árinu 1765, er aðaldjásn safnsins þar sem ganga má um alla bygginguna og setja sig í fótspor kaupmannsins, vinnukonunnar eða vikapiltsins. Húsið á Eyrarbakka er í hópi tíu elstu húsa landsins og var um langt skeið frægt fyrir athafnasemi íbúa þess og áhrif á sunnlenskt mannlíf. Þar var engum í kot vísað. Í Húsinu er forvitnileg saga rakin fram til okkar daga en í viðbyggingunni, Assistentahúsinu frá 1881, eru vel valdir þættir úr sögu héraðsins kynntir, þar á meðal verslunarsagan þegar Bakkinn var og hét sem helsti verslunarstaður Sunnlendinga. Í borðstofu Hússins eru sérsýningar safnsins haldnar og er um þessar mundir verið að vinna að athyglisverðri sýningu sem opnar 1. apríl og fjallar um Ásgrím Jónsson listmálara frá Rútsstaða-suðurkoti í Flóa en hann var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka árin 1890 til 1892. En utan Hússins er margt að sjá.

Eggjaskúrinn er tileinkaður minningu Peters Nielsens, faktors Lefolii-verslunar á Eyrarbakka, sem rannsakaði náttúruna og skrifaði greinar um íslenskar fuglategundir. Hann beitti sér fyrir friðun íslenska hafarnarins árið 1913. Fuglar og útblásin egg úr íslenskri náttúru eru í Eggjaskúrnum.

Rétt vestan Hússins er lítið gamalt timburhús, Kirkjubær að nafni. Þar er sagt frá draumum og veruleika alþýðunnar í héraðinu 1920 til 1940 þegar útvarpið, mjólkurbúið og stígvélin komu til sögunnar.

Hinum megin á Kaupmannstúninu er Sjóminjasafnið á Eyrarbakka. Það var stofnað utan um varðveislu síðasta áraskipsins sem smíðað var á Eyrarbakka, Farsæls, tólfróins teinærings sem smíðaður var af Steini Guðmundssyni skipasmið árið 1915. Steinn Guðmundsson í Steinsbæ á Eyrarbakka (1838-1916) var afkastamikill skipasmiður og smíðaði tæplega 400 árabáta og áraskip á sinni löngu starfsæfi. Það vinnulag hafði hann að bölva ekki á meðan kjölurinn var lagður að nýjum bát. En hvað um það þá er Farsæll eini báturinn sem til er smíðaður af Steini skipasmið á Eyrarbakka. Í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka má fræðast um bátinn Farsæl, fiskveiðiaðferðir og sjómannslífið og myndar safnið tengsl við Þuríðarbúð á Stokkseyri sem er reist til minningar um Þuríði Einarsdóttur, sögufræga sjókonu.

Austan Stokkseyrar er Rjómabúið á Baugsstöðum, lifandi minnisvarði um merkan þátt í atvinnusögu landsmanna í upphafi 20. aldar. Til útflutnings voru framleiddir ostar og smjör sem „Danish butter“. Rjómabúið á Baugsstöðum hefur varðveist í upprunalegri gerð og eru vélar þess gangsettar þegar allar aðstæður eru fyrir hendi. Við Byggðasafn Árnesinga starfa þrír starfsmenn í fullu starfi auk sumarstarfsmanna. Héraðsnefnd Árnesinga, byggðasamlag átta sveitarfélaga í Árnessýslu, er eigandi safnsins.

Tekið er á móti gestum á auglýstum opnunartímum og einnig er tekið á móti hópum og skólum allt árið. Nánari upplýsingar á heimasíðu www.byggdasafn.is.

Skylt efni: söfnin í landinu

Fullvinnsla afurða í Heiðmörk
Líf og starf 30. maí 2023

Fullvinnsla afurða í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur starfrækir einu viðarvinnsluna á suðvesturhorninu. S...

Starfshópur um útrýmingu á riðuveiki
Líf og starf 30. maí 2023

Starfshópur um útrýmingu á riðuveiki

Yfirdýralæknir hefur lagt til við matvælaráðherra að myndaður verði hópur sem mu...

Snjór í sauðburði
Líf og starf 29. maí 2023

Snjór í sauðburði

Tíðarfarið í maí hefur ekki verið hagstætt fyrir sauðburð. Kalt var í veðri og v...

Skaði asparglytta myndaður með dróna
Líf og starf 29. maí 2023

Skaði asparglytta myndaður með dróna

Rannsóknarsvið Skógræktarinnar á Mógilsá verður með spennandi verkefni í sumar, ...

Vakta gróður og jarðveg
Líf og starf 26. maí 2023

Vakta gróður og jarðveg

Landgræðslan stóð fyrir opnum kynningar- og samráðsfundi um verkefnið GróLind í ...

Fundarhamar úr peruvið
Líf og starf 25. maí 2023

Fundarhamar úr peruvið

Fallegt íslenskt handverk var í lykilhlutverki á lokaathöfn leiðtogafundar Evróp...

Puttalingar eru snakkpylsur úr ærkjöti
Líf og starf 24. maí 2023

Puttalingar eru snakkpylsur úr ærkjöti

Fyrir rúmu ári var veflæga markaðstorgið Matland (matland. is) opnað matgæðingum...

Fjárfestingarátak fyrir ung og lítt þróuð félög
Líf og starf 24. maí 2023

Fjárfestingarátak fyrir ung og lítt þróuð félög

Nýsköpunarsjóður hefur hafið fjárfestingarátak fyrir félög sem komin eru skammt ...