Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Bernard LaBorie, Jack Sichterman og David Altshu stofnuðu Einstök ölgerð.
Bernard LaBorie, Jack Sichterman og David Altshu stofnuðu Einstök ölgerð.
Líf og starf 26. júní 2023

Upphefðin kemur að utan

Höfundur: Höskuldur og Stefán

Í Bændablaðinu undanfarið hafa birst pistlar um handverksbrugghús á Íslandi og hér halda þeir áfram. Næst í röðinni er Einstök brugghús, lína af bjórum sem framleidd er í brugghúsi Víking á Akureyri.

Upphefðin kemur að utan segir máltækið og það á svo sannanlega við um Einstök bjórgerð.

Eftir að hafa verið framkvæmdastjóri bandaríska freyðivínsframleiðandans Piper-Sonoma og sérfræðingur í lúxus vörumerkjastjórn fór Bernard LaBorie í heimsreisu árið 2006 með það eina markmið að finna besta vatn í heimi.

Íslenskt vatn, best í heimi

Hafði hann áhuga á að markaðssetja lúxus vatnsmerki á borð við t.d. Fiji vatnið, sem selt er dýrum dómum í löndum þar sem sambærileg gæði flæða ekki úr krananum.

Eftir að hafa ferðast að eigin sögn um nánast allan heiminn endaði hann á Íslandi enda vatnið hér best í heimi og óþarft að vísa í rannsóknir þess efnis. Þær fjárhaglegu hamfarir sem fylgdu næstu árin settu þessar hugmyndir á ís en hópurinn sem hann hafði munstrað með sér til að selja íslenska vatnið var þó ekki alveg á því að ævintýrinu væri lokið.

Toasted Porter.
Einstök lítur dagsins ljós

David Altshul, lögfræðingur og fjárfestir annars vegar og Jack Sichterman, auglýsingagúrú sem unnið hafði fyrir alls kyns vörumerki, komu með en þeim hafði hann kynnst í gegnum fyrri störf sín.

Einnig var með þeim kona sem þögull fjárfestir í verkefninu, en sú vildi ekki láta mikið á sér bera og er nafnlaus enn þann dag í dag og kemur ekki frekar við sögu. Þrátt fyrir efnahagsþrengingarnar varð það úr að samstarfið héldi áfram og 2011 leit Einstök bjórinn dagsins ljós. Uppruni nafnsins var þannig að þeir félagar voru á leiðinni til landsins eitt sinn og Jack Sichterman rakst á orðið í fyrirsögn í Atlantica flugritinu. Einstök er nefnilega merkileg nafngift og nokkuð augljóst að íslenskumælandi valdi það ekki en í endursögn á ÍMARK deginum 2015 sagði Jack svo frá að hann hefði spurt samstarfsaðila hér á Íslandi út í nafnið og þegar útskýringin lá fyrir hefði nafnið raunar aldrei verið spurning.

Einstök hafði bæði merkinguna sem þeir vildu, var auðvitað einstakt (meðvituð gamanmál) en líka auðvelt í framburði fyrir hina væntu kaupendur á erlendri grundu og ekki skemmdi fyrir að innihalda staf sem ekki var að finna í enska stafrófinu.

Íslensku samstarfsaðilarnir höfðu smávægilegar efasemdir og sannfærðu þá bandarísku um að taka orðið Ölgerð með. Það varð úr en „Ölgerð“ hlutinn er sjaldnast notaður og áhyggjurnar af orðinu óþarfar.

Íslenskur jólabjór seldur í Disney-garðinun

Framleiðslan fór á fullt og var Baldur, bruggmeistari Víking, þeim innan handar og sá um að uppskriftirnar væru í lagi. Í þessum sama fyrirlestri og áður var minnst á sagði Jack frá því að gæðamálin væru efst í forgangsröðuninni hjá þeim.

Þannig hefði það viljað til t.d. einu sinni að framleiðsla á Einstök White Ale bjórnum hefði ekki mætt þeirra gæðakröfum og því verið fyrirskipað að farga herlegheitunum. Líklega er það algjör tilviljun að skömmu síðar kom Víking sumaröl, jarðarberjabættur White ale á markaðinn.

Einstök bjórinn hlaut sæmilegar viðtökur hér heima, framan af. Það var ekki fyrr en 2015 þegar Einstök bjórar ruddu út mun þekktari tegundum af krana í Epcot hluta Disney-garðsins sem að frægðarsól vörumerkisins fór að skína á Íslandi fyrir alvöru. Einstök var t.d. eini jólabjórinn sem var seldur í Disney-garðinum og það þótti töluvert afrek og var líklega eitt mesta afrekið í bjórútflutningi fram að þessu, að Lava undanskildu.

Sá bjór sem kannski hefur dregið vagninn og bjórgerðin er einna þekktust fyrir, a.m.k. hérlendis, er Einstök White Ale. White ale er umdeildur stíll, þ.e. hvort hann sé yfir höfuð til, en nógu margir bjórar eru framleiddir sem slíkir til að þessi greinarflokkur gangist við honum. Frægasti slíkur á heimsvísu er líklega Allagash White en algengara nafn á þennan stíl eru svokallaðir belgískir wit bjórar. Til einföldunar má segja að þetta séu hveitibjórar bragðbættir með appelsínuberki og kóríander og þó að það sé ekki algilt á þetta við um Einstök White ale bjórinn.

Fyrir utan White ale bjórinn má nefna Toasted Porter bjórinn sem náði nokkurri dreifingu bæði heima og erlendis. Ristað malt og kaffitónar runnu þar ljúflega saman og úr varð bjór sem náði töluverðri dreifingu í Bandaríkjunum.

Velgengni vörumerkisins

Einstök er þannig það vörumerki sem persónugerir flesta útflutningsdrauma Íslendinga þegar kemur að bjór. Enn er töluvert flutt út af Einstök bjórnum, fyrst og fremst til Evrópu í seinni tíð en Covid-faraldurinn fór illa með markaðsstarfið þeirra í Bandaríkjunum auk þess sem flutningsleiðir þangað röskuðust meira en til Evrópu.

Háleit markmið um heimsyfirráð hafa þannig ekki náð að raungerast þó enn leynist glæður í þeim draumi.

Þrátt fyrir að velgengni erlendis hafi skilað sér í upphefð hér heima má segja að eftir því sem færri fréttir berist af sigrunum erlendis, þeim mun verr gengur hér heima. Fókusinn var líka ögn dreifður, t.d. var Víking farið að framleiða Víking White Ale í handverkslínunni sinni í samkeppni við Einstök vörumerkið og fyrir vikið datt salan á Einstök bjórunum niður hérlendis. Svo fór að CCEP, eigandi Víkings Brugghúss, keypti vörumerkið fyrir íslenska markaðinn árið 2019 og í dag sér enginn handverkslínuna frá Víking lengur.

Einstakur upptakari.

Sagt vera 45 milljón dollara virði

Einstök erlendis á hinn bóginn virðist frekar vera að blása í seglin og árið 2022 fóru þeir í hópfjármögnun þar sem 1.210 hlutir voru seldir fyrir rúma milljón bandaríkjadala.

Í því útboði kom fram að virði Einstök bjórgerðar væri áætlað um 45 milljónir dollara, eða rúmir 6,1 milljarður íslenskra króna á gengi miðs júní 2023. Hvort það standist skal ósagt látið en víst er að Einstök bjórarnir hafa fengist mjög víða vestanhafs, í meðal annars Total Wine, Whole Foods, Trader Joe's, Publix, og Target til að nefna nokkra sölustaði. Það hefur ekki einu sinni íslensk lambakjötið leikið eftir.

Það hafa þannig skipst á skin og skúrir þegar kemur að Einstök og aðstandendurnir augljóslega hvergi af baki dottnir. Í blaðaviðtali þegar þeir voru að setja fyrstu bjórana á markað sögðu þeir að markmiðið þeirra væri að kenna heimsbyggðinni að segja upp á íslensku „Skál“. Ekki skal spáð fyrir um það hér hvort það náist, en spennandi verður að fylgjast áfram með þessu áhugaverða... og jú, einstaka ævintýri.

Kona í fremstu röð
Líf og starf 8. desember 2023

Kona í fremstu röð

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu útgáfu af rafmagnsbílnum Hyundai Kona í Style...

Hátíðarbragur með jólastjörnum
Líf og starf 7. desember 2023

Hátíðarbragur með jólastjörnum

Jólastjarna er eitt vinsælasta jólablómið á Íslandi. Þessa dagana eru jólastjörn...

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu
Líf og starf 6. desember 2023

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu

Fjölmennt og góðmennt var á afmælisráðstefnu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins ...

Guðni á Þverlæk heiðraður
Líf og starf 5. desember 2023

Guðni á Þverlæk heiðraður

Guðni Guðmundsson, bóndi á bænum Þverlæk í Holtum í Rangárþingi ytra, var á dögu...

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð
Líf og starf 4. desember 2023

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru nýlega veitt á 25 ára afmælisráðstefnu...

Jólamarkaðir í desember
Líf og starf 30. nóvember 2023

Jólamarkaðir í desember

Hinn árlegi Jólamarkaður Miðjunnar verður haldinn í Framsýnarsalnum 1. desember ...

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...