Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Úndína og folaldið Kormákur frá Eystri-Þurá, sem er hestur úr hennar eigin ræktun.
Úndína og folaldið Kormákur frá Eystri-Þurá, sem er hestur úr hennar eigin ræktun.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 7. september 2021

Segist vera sveitatútta en er fædd í borginni, skírð í höfuðið á ömmu sinni og er stolt af því

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Úndína Ýr Þorgrímsdóttir, dýra­læknanemi við Kaupmanna­hafnarháskóla, er að gera mjög áhugaverða rannsókn á tíðni magasára í íslenskum hrossum. Hún er að skipuleggja rannsókn á Íslandi, sem tengist lokaverkefni hennar, sem hún stefnir á að skrifa í haust.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða tíðni magasára í hrossum með skipulögðum hætti. Þetta verður fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi en sams konar rannsóknir hafa verið gerðar víða erlendis, sem sýnt hafa fram á að magasár finnst í öðrum hrossakynjum.
Úndína óskar eftir stuðningi hestamanna og samvinnu, en hún er að leita eftir 260 hestum í rannsóknina. Úndína svaraði nokkrum spurningum blaðsins í tilefni af rannsókninni en byrjum á að fá að vita hver hún er.

Sveitatútta sem er fædd í borginni
Hér er Úndína stödd á Eystri-Þurá þar sem fjölskyldan er með hrossin sín. Hún biður þá hestamenn, sem verða komnir með tryppi á hús í frumtamningar í byrjun október og stefna á að hafa þau inni í a.m.k. 8 vikur og/eða reiðhesta inni á húsi mánaðamótin nóv./des. og hafa áhuga á að taka þátt í þessari rannsókn með henni, að hafa samband við sig á eftirfarandi netfang: lokav.magasar21@gmail.com

„Já, ég er 28 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík en titla mig alltaf ,,sveitatúttu fædda í borginni“. Foreldrar mínir eru Þorgrímur Hallgrímsson og Gyða Jónsdóttir. Ég á tvö eldri systkini, elstur er bróðir minn, Andri Rafn, og miðjubarnið er Helga Guðný. Ég var í Selásskóla sem barn og síðan í Árbæjarskóla á unglingsárunum, síðan lá leið mín í Menntaskólann við Sund.

Ég er algjör ömmu- og afastelpa og var það helsta ástæðan fyrir því að ég valdi að fara í MS, því þá gat ég alltaf farið í hádegismat til þeirra í Karfavoginum. Ég er tiltölulega nýflutt til Íslands frá Danmörku, þar sem ég hef búið síðastliðin fimm og hálft ár en ég stunda nám í dýralækningum við Kaupmannahafnarháskóla,“ segir Úndína.

Víða komið við

Úndína segist víða hafa komið við í gegnum árin.

„Já, já, sem unglingur var ég mikið í sveit í Landeyjunum á bænum Hemlu II hjá Vigni Siggeirssyni og Lovísu Herborgu Ragnarsdóttur. Ég lærði þar tamningar og allt um sauðburð og hvernig á að halda fé, ásamt því að passa börnin þeirra. Einnig hef ég unnið á dönskum hestabúgarði hjá Rasmus Møller Jensen á Jótlandi.

Á menntaskólaárum mínum vann ég með skólanum sem húsvörður reiðhallarinnar hjá Fáki og þjónn og bakari hjá Eldsmiðjunni. Í sumarfríum á menntaskólaárum mínum vann ég ýmis störf eins og í bæjarvinnunni, þjónn og aðstoðarmaður í eldhúsi á Fosshóteli að Núpum.

Eftir að ég hóf nám í dýralækn­ingum þá hef ég unnið hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti á sumrin og í jólafríum ef ég hef komist til Íslands. Núna í sumar hef ég verið að vinna á Tilraunastöðinni að Keldum.“

Trésmíði eða sálfræði

- En hvað kom til að Úndína fór að læra að verða dýralæknir?

„Það er auðvelt að svara því vegna þess að síðan ég var fjögurra ára gömul hef ég viljað verða dýralæknir.

Fyrstu minningar mínar um störf dýralækna eru þegar Gummi frændi, dýralæknir á Hellu, var að gelda hross fyrir okkur fjölskylduna. Þetta virtist allt svo spennandi og ég horfði á hann með stjörnur í augunum. Annars hef ég verið umkringd dýrum allt mitt líf og alltaf stefnt að þessu. Ég er einnig svo heppin með foreldra að það kom í raun og veru aldrei neitt annað til greina. Þau vilja allt fyrir okkur systkinin gera og hafa alltaf hvatt okkur að elta drauma okkar. Svo það var bara að kýla á þetta.

Ég reyndi tvisvar við inntöku­prófið og komst inn í seinna skiptið. Eftir á að hyggja hugsa ég að ef ég hefði ekki komist inn í dýralæknanámið þá hefði ég eflaust farið í sálfræði eða lært trésmíði.“

Magasár hjá hestum

„Ég hef aldrei verið þekkt fyrir að fara auðvelda leið í lífinu og ég er búin að vera með þessa hugmynd að lokaverkefni í nokkur ár.

Árið 2019 var ég á fyrirlestri um lífsstílstengda sjúkdóma hjá hrossum, þar var fyrirlestur um magasár sem varð svakaleg vitundarvakning fyrir mig. Á fyrirlestrinum heyrði ég í fyrsta sinn að hross ættu ekki að vera fastandi í meira en 4-6 tíma á sólarhring og ég fór strax að hugsa um hrossin okkar heima. Þau voru að fá tvær gjafir á dag, á morgnana og svo á kvöldin þegar þau voru á húsi,“ segir Úndína.

Tugga seinnipartinn

„Já, í miðjum fyrirlestri var ég alveg sannfærð um að íslenski hesturinn væri sér á báti og algjör snillingur hvað þetta varðar (þ.e. að hann væri svo hraustur að hann fengi ekki magasár), en til þess að fá það staðfest varð ég að spyrja.

Með hjartað í buxunum af stressi, rétti ég upp hönd og spyr, þar sem ég hafði aldrei heyrt um magasár í hrossum á Íslandi og heldur ekki tekið eftir þeim einkennum sem voru listuð upp á glærunum.

Þau svör sem ég fékk voru að íslenski hesturinn væri nákvæmlega eins uppbyggður og öll önnur hestakyn í heiminum, bæði líffræðilega og lífeðlisfræðilega, óháð búsetu. Ég sendi pabba strax skilaboð, að við þyrftum að bæta úr þessu og bæta við hádegisgjöf, vera dugleg að gefa hestunum smá tuggu seinnipartinn og síðan góða kvöldgjöf. Ég fór svo fljótlega að spyrjast fyrir um þessa hugmynd mína að skoða tíðni magasára í íslenskum hestum á Íslandi.

Ég fékk nafn á konu sem er sérfræðingur í magaspeglun á hestum. Það tók mig langan tíma að safna kjarki og senda á hana póst, en ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa gert það því þess vegna er draumurinn að verða að veruleika.“

Rannsókn í tveimur hlutum

Rannsókn Úndínu fer fram í tveim­ur hlutum. Áætlað er að fyrri hluti rannsóknar, u.þ.b. 60 frumtamningartryppi verði magaspegluð fljótlega eftir að þau koma á hús í byrjun október 2021. Átta vikum eftir fyrstu magaspeglun verður hún endurtekin og niðurstöður bornar saman. Einnig er stefnt að því að magaspegla um 200 reiðhross.

„Já, markmið þeirrar rannsóknar er að skoða tíðni magasára í́ hrossum á́ Íslandi með skipulögðum hætti. Þetta væri fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi en sams konar rannsóknir hafa verið gerðar víða erlendis sem hafa sýnt fram á að magasár finnst í öðrum hrossakynjum. Þar sem íslenski hesturinn er frjáls úti í haga þegar hann er ekki í notkun höfum við sérstöðu þegar kemur að þessari rannsókn. Þannig getum við fengið innsýn í sjúkdóminn, meðal annars vitneskju um hvernig okkar hættir við að halda hross á húsi geta haft áhrif á hann,“ segir Úndína.

Í skólaferðalagi í dýragarðinum í Kaupmannahöfn, þar sem nemendur voru að læra um framandi dýr.
Magasár algeng hjá hestum

– En er eitthvað vitað í dag um magasár í hrossum, af hverju þau koma og hversu algeng eða óalgeng þau eru?

„Magasár er algengasti sjúk­dómur sem finnst í maga hrossa. Um hugtakið magasár var fyrst skrifað árið 1999. Í dag er heilmikið vitað og sjúkdómurinn er meira rannsakaður.

Magasári er hægt að skipta upp í tvo flokka, allt eftir staðsetningu. Hvíti hlutinn er efri hlutinn af maganum sem er ekki með kirtla (non-glandular), þessi hluti magans er mjög viðkvæmur fyrir magasári en samkvæmt rannsóknum finnast 80% af sárum í hvíta hluta magans.

Milli hvíta og rauða hluta magans kemur svæði sem heitir „Margo plicatus“ þar getur magasár líka oft myndast. Svo er rauði hluti magans með kirtla (glandular) sem seytir vökva sem ver slímhúðina, þar finnast 20% af magasárum.

Það eru ýmsir áhættuþættir sem spila inn í þetta og þar er fóðrun efst á lista, þjálfun/vinnuálag og stjórnun (management).“

Af hverju magasár?

– Það er komið að grundvallar­spurningunni til Úndínu, af hverju fá hestar magasár?

„Já, þú segir nokkuð. Hestar, asnar og múldýr eru einu dýrategundin sem framleiðir stöðugt magasýru í maganum, ólíkt okkur mannfólki og öðrum dýrum þar sem magasýrumyndun örvast t.d. þegar við finnum lykt af mat, hugsum um mat og þegar við byrjum að borða. Magasár í hrossum myndast út af ertingu frá magasýrum. Það myndast ójafnvægi í hlutverki magaslímhimnunnar.
Munnvatn hrossa inniheldur basa (bikarbonat) en basinn er það eina sem vegur upp á móti magasýrunni og viðheldur þar með jafnvægi á sýrustigi magans. Þegar hrossið tyggur myndast munnvatn. Því́ meira gróffóður, því meiri munnvatnsmyndun. Þar sem hross á húsi hafa ekki frjálsan aðgang að fóðri og eru fastandi í lengri tíma en æskilegt er, þá kemur þetta ójafnvægi fram milli sýru og basa sem eykur hættuna á að hrossið fái magasár. Of mikil sýra ertir slímhúðina í maganum og eyðileggur þar með vörn hennar og þá myndast sár, þetta er stutta og einfalda svarið,“ segir Úndína og hlær.

Danskur dýralæknir aðstoðar

Úndína segist sjálf vera að fjárfesta í magaspeglunartæki sem er sérstaklega fyrir hesta og hún mun nota í rannsókn sinni. Nanna Luthersson, sem er danskur dýralæknir, ætlar að leiða rannsókn­ina með henni en Nanna hefur 15 ára reynslu í þessu fagi.

„Til þess að rannsóknin geti orðið að veruleika þurfum við að fá aðgang að hrossum. Við erum að leita að 200 reiðhestum sem verða skimaðir fyrir magasári og svo þurfum við 60 tryppi sem eru að koma í frumtamningu í byrjun október 2021. Ég vona að hestamenn taki beiðni minni vel um að fá hesta til rannsóknar eigendum þeirra að kostnaðarlausu en eigendurnir þurfa að skrifa undir sérstakt leyfisbréf áður en rannsóknin hefst,“ segir Úndína.

Tvær vísindagreinar skrifaðar

Eins og áður segir þá hefst rannsóknin hjá Úndínu í október í haust en þar sem þetta er vísindarannsókn, þá þarf rannsóknin að fara í gegnum ákveðna verkferla og stefnt er að því að skrifa tvær vísindagreinar sem verða svo gefnar út í ritrýndum fagritum dýralækna.

„Eftir minni bestu vitund tekur þetta ferli um tvö ár í heildina þar til niðurstöðurnar eru birtar. Ég mun vera með fræðslu og ræða um rannsóknina og niðurstöður hennar eftir að þessu lýkur, en ég má ekki gefa út neinar handbærar tölur fyrr en eftir að greinarnar eru birtar.“

Hestar helsta áhugamálið

Úndína er að lokum spurð út í helstu áhugamál hennar þegar hún er ekki að huga um námið eða um magasár í hestum.

„Það er bara eitt svar við þessari spurningu, hestamennskan á hjarta mitt og er mitt helsta áhugamál. Ég viðurkenni það vel, að búa erlendis í rúm fimm ár setti strik í það áhugamál og það var rosalega erfitt í byrjun þegar ég flutti út því hestamennskan er svo stór partur af mér. En þá deyr maður ekki ráðalaus, þetta var bara tímabundið ástand, ég þurfti að finna mér eitthvað að gera á milli skólans og lærdómsins.

Ég hef rosalegan áhuga á að prjóna, hekla og er núna farin að hnýta verk (macramé), þetta er ákveðin þerapía fyrir mig og bjargaði mér alveg. Síðan þetta klassíska, að ég hef gaman af því að vera úti í náttúrunni og þrífst best þar eins og sönn sveitatútta.“

Úndína Ýr með afa sínum, Hallgrími Oddssyni, en hann er mikill áhugamaður um Bændablaðið og les það upp til agna þegar það kemur út.

Skírð í höfuðið á ömmu sinni

Það er ekki hægt að ljúka viðtalinu án þess að spyrja Úndínu út í nafnið hennar, sem er óneitanlega mjög sérstakt.

„Ha, ha, þú ert ekki sá fyrsti og örugglega ekki sá síðasti að velta þessu nafni fyrir þér. Uppruni þessa nafns er þýskt og er skrifað Undine á þýsku. Merking nafnsins er vatnadís, svo þetta passar vel við mig sem vatnsbera.

Ég skrifaði nafnaritgerð í MS og komst að því að árið 1811 var skrifuð rómantísk skáldsaga um vatnadísina Undine, sem giftist riddaranum Huldebrand til að öðlast sál. Ég fann þessa bók á bókasafninu í Kópavogi og byrjaði að lesa hana, en það fauk fljótt í mig. Undine var þar lýst sem skapstórri frekju sem átti allt of vel við mig á þeim tíma og ég þurfti að kyngja þeim stóra bita.
Ég er skírð í höfuðið á ömmu minni heitinni, Úndínu Gísladóttur, en hún var fædd og uppalin í Hrísey. Nafnið kom í ættina þegar langamma mín var ólétt af ömmu minni. Langalangamma mín bjó með langömmu minni og langafa og þótti hún frekar ráðrík. Hún biður ófríska dóttur sína um að skíra ófædda dóttur sína í höfuðið á vinkonu sinni sem bjó í Svarfaðardalnum og bar nafnið Úndína, en hún dó ung. Við erum fjórar Úndínur núlifandi en nafnið finnst einnig sem millinafn,“ sagði Úndína að lokum. 

Skylt efni: dýralæknar

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....