Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Nissan Ariya er einn fríðasti rafmagnsbíllinn á markaðnum í dag. Framleiðandinn gefur upp allt að 530 km drægni, en raunhæft er að áætla að komast 450 km.
Nissan Ariya er einn fríðasti rafmagnsbíllinn á markaðnum í dag. Framleiðandinn gefur upp allt að 530 km drægni, en raunhæft er að áætla að komast 450 km.
Mynd / ÁL
Líf og starf 7. desember 2022

Öflugur keppinautur

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Japanski bílaframleiðandinn sem var frumkvöðull í þróun rafmagnsbíla fyrir áratug var að kynna sitt nýjasta útspil: Nissan Ariya – jeppling sem þróaður var frá grunni sem rafaflsbifreið.

Bíllinn í þessum prufuakstri var framhjóladrifinn, en Nissan mun síðar bjóða bifreiðina með drifi á öllum hjólum. Hér er komið öflugt útspil á móti keppinautum eins og Hyundai Ioniq 5, Volkswagen ID.4, Kia EV6 og Skoda Eniaq. Helstu kostir Ariya eru stór rafhlaða, hröð hleðsla og vönduð innrétting. Ókostir eru lágt þak og stíf fjöðrun.

Fyrsta hugsunin sem bíllinn vekur hjá blaðamanni er hversu fríður sýnum hann er. Greinilegt er að hönnuðir Nissan hafa farið í vandaða hönnunarvinnu því hvergi er hægt að benda á ófríðan blett. Gott samræmi er á milli allra hliða og sver hann sig í ætt við aðra bíla frá sama framleiðanda. Myndirnar tala sínu máli, en ef á að nota einhver lýsingarorð þá má segja að hann sé rennilegur og nútímalegur. Í fegurðarsamkeppni við Tesla Y og Volkswagen ID.4 myndi Nissan Aryia hafa vinninginn. Þetta tiltekna eintak var kopargyllt að lit með svörtu þaki sem fer honum vel.

Innrarými nútímalegt

Jákvæða upplifunin heldur áfram þegar sest er um borð. Innréttingin er öll stílhrein og sérstaka athygli vekur viðarlíkið sem notað er hér og þar. Hluti af viðarlíkinu er með innbyggðan snertiskjá sem er áhugaverð nýjung. Þeir fáu hnappar sem ökumaðurinn þarf að nota eru þéttir viðkomu og skýrir í notkun. Stýrið sjálft er klætt mjúku leðri.

Innréttingin er smekkleg. Athygli vekur að hluti viðarlíkisins er í raun hnappar. Mikið fótapláss er í öllum fimm sætum bílsins. Hávaxnir munu hins vegar finna fyrir lágri lofthæð – sama hvar setið er.

Kerfi skýrt

Tveir skjáir eru í innréttingunni – annar fyrir hraðamæli og akstursupplýsingar og hinn fyrir útvarp og margmiðlun. Upplausnin er skýr og björt og er stýrikerfið að flestu leyti gott. iPhone eigendur geta fagnað því að hægt er að tengja símann þráðlaust í gegnum Apple CarPlay, en Android-notendur þurfa að tengjast Android Auto í gegnum snúru.

Einn ókostur við að halda hnöppum í lágmarki er að sumar skipanir eru grafnar inni í kerfinu. Til að mynda getur leiðin að sætishitaranum krafist nokkurra smella. Þegar bakkað er í stæði birtist bæði skýr mynd aftur fyrir bílinn og „loftmynd“ sem sýnir allt umhverfið mjög vel.

Þeir sem eru óöruggir við að leggja í stæði fá alla þá aðstoð sem tæknin býður upp á (myndavélar og fjarlægðarnemar á öllum hliðum) og sést vel hvernig umhorfs er á skjánum.

Flestir nýir bílar eru útbúnir akstursaðstoð og er Nissan Ariya engin undantekning. Í þjóðvega- og stofnbrautaakstri er auðvelt að kveikja á akreinastýringunni sem heldur bílnum á beinu brautinni og hraðastillirinn passar upp á að halda hæfilegu bili frá bílnum fyrir framan. Oft eru þessi kerfi ófullkomin, en í þessum bíl virkar allt eins og í sögu. Þetta minnkar álag í löngum akstri og getur ökumaðurinn látið hugann reika.

Kopargulur liturinn og svart þakið fara bílnum sérstaklega vel.

Aflið dugar

Eins og við er að búast af rafmagnsbíl þá er akstursupplifunin góð. Nær ekkert hljóð berst inn í ökumannshúsið og fjaðrar hann vel yfir stærri ójöfnur eins og hraðahindranir. Fjöðrunin ræður þó illa við að mýkja kvikar hreyfingar sem verða við akstur á þjóðvegum. Þegar hausnum er hallað að höfuðpúðanum hristist maður allur og skelfur og kvörtuðu farþegar í þessum reynsluakstri yfir bílveiki.

Aflið í bílnum er nokkuð gott og er hann fljótur að bregðast við þegar þess þarf. Auðvelt er að stinga sér inn í hringtorg og taka fram úr á þjóðvegum. Þó er hann ekki það kraftmikill að ökumaður og farþegar fái fiðring í magann þegar inngjöfin er sett í botn.

Lágt til lofts

Sætin eru mjúk og auðvelt að stilla með rafmótorum. Flestir ættu að geta komið sér þægilega fyrir, en þar sem lágt er til lofts geta hávaxnir ökumenn vænst þess að hárgreiðslan spillist. Fótarýmið er drjúgt fyrir öll fimm sætin, en aftur í er lofthæðin enn verri og því ekki hægt að bjóða fullorðnum farþegum í langa bílferð nema í framsætinu.

Afturhlerinn er stór og skottið rúmgott. Ef plötunum í gólfinu er lyft upp leynist þar lítið hólf undir hleðslukapla og er jafnvel hægt að nota plöturnar til að hólfa skottið niður. Það er hentugt til að koma í veg fyrir að innkaupapokarnir fari út um allt. Þegar aftursætin eru lögð niður flútta þau við gólfið og liggja nánast flöt.

Mikið fótapláss er með öllum fimm sætum bílsins. Hávaxnir munu hins vegar finna fyrir lágri lofthæð – sama hvar setið er.

Tölur

Helstu mál eru: Lengd 4.595 mm, breidd 2.172 mm og hæð 1.660 mm. Eigin þyngd er 2.000 kílógrömm, en ekki eru upplýsingar um heildarþyngd.

Bíllinn í þessum prufuakstri var með 87 kWst rafhlöðu og heldur framleiðandinn því fram að hann komist allt að 530 kílómetra á fullri hleðslu. Við venjulegar íslenskar aðstæður er raunhæft að áætla 450 kílómetra drægni. Á öflugum hraðhleðslustöðvum er hægt að fara frá 20 upp í 80% hleðslu á 45 mínútum.

Umboðið getur ekki gefið upp nákvæmt verð á bílnum fyrr en eftir áramót. Blaðamanni er þó tjáð að það verði mjög svipað og hjá sambærilegum bílum, eins og VW ID.4 o.fl.

Þessi bíl er að mjög mörgu leyti öflugur keppinautur á rafmagnsbílamarkaðnum og fagnaðarefni að Nissan bjóði upp á fleiri valkosti en Leaf. Í stuttu máli: Vel heppnaður bíll – en skarar ekki fram úr.

Skylt efni: rafmagnsbílar | prufuakstur

Lely 75 ára – opin fjós í Birtingaholti og Spóastöðum
Líf og starf 3. október 2023

Lely 75 ára – opin fjós í Birtingaholti og Spóastöðum

Fjöldi fólks mætti í opin fjós á kúabúinu í Birtingaholti í Hrunamannahreppi og ...

Afbragðsgóður Kína-Benz
Líf og starf 3. október 2023

Afbragðsgóður Kína-Benz

Bílategundin smart (nafnið á víst að vera í lágstöfum) er aftur mætt á sjónarsvi...

Örfáir eltast enn við þann gráa
Líf og starf 2. október 2023

Örfáir eltast enn við þann gráa

Hákarlinn sveimar um kaldan norðurheimskautssjó og verður allra hryggdýra elstur...

Dyggur lesandi !
Líf og starf 2. október 2023

Dyggur lesandi !

Á myndinni hér að ofan er Dagbjartur Sigurbrandsson með tálgaða eftirmynd af sér...

Nautakjötsæta gerist nautgripabóndi
Líf og starf 28. september 2023

Nautakjötsæta gerist nautgripabóndi

Ævar Austfjörð og kona hans, Ása Sif Tryggvadóttir, hófu búskap á Hlemmiskeiði 1...

„Þar kalla menn ekki allt ömmu sína“
Líf og starf 28. september 2023

„Þar kalla menn ekki allt ömmu sína“

Þröstur Njálsson er fyrrverandi togarasjómaður sem snapaði sér sína fyrstu veiði...

Of hægt miðar í heimsmarkmiðum
Líf og starf 28. september 2023

Of hægt miðar í heimsmarkmiðum

Leiðtogafundur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ) var haldinn í vikunni í N...

Melarétt í Fljótsdal
Líf og starf 27. september 2023

Melarétt í Fljótsdal

Um eða yfir 4.000 fjár er smalað til Melaréttar í Fljótsdal. Réttað var 17. sept...