Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum
Íslensk blóm gleðja augað. Bæði afskorin blóm og pottaplöntur geta á einn eða annan hátt vísað til jólahátíðarinnar sem í vændum er. Rauðu jólatúlípanarnir fara að birtast, hinar fallegu hýasintur fylla húsin ilmi sem tengjast aðventu og jólum. Margvísleg pottablóm eins og jólastjörnur, glæsilegur amaryllis, begóníur og ástareldur prýða heimili, fyrirtæki, veitingahús og stofnanir.
Blómabændur hafa staðið í ströngu mánuðum saman við að rækta þessi blóm, sum jafnvel allt frá fræi eða litlum græðlingum og laukum. Á aðventunni er svo uppskeruhátíð þegar varan fer á markaðinn. Blómaverslanirnar fyllast af þeirra handverki. Heimili, búðargluggar, kirkjur og stofnanir nýta sér það aldrei eins mikið og á aðventu og jólum.
Allir þekkja jólastjörnuna, sem hefur verið ræktuð hér áratugum saman í gróðurhúsum. Hún ber þennan sterkrauða lit sem svíkur engan. Jólastjarna er viðkvæmt blóm. Þarf að velja henni góðan stað fjarri dragsúgi eða opnum glugga og vökva hana gjarnan í undirskálina og gæta þess að hún standi ekki of lengi í bleytu. Í boði eru jólastjörnur í öllum stærðum, allt frá pínulitlum plöntum í örsmáum pottum til öflugra, marggreindra plantna sem ræktaðar eru í stórum pottum og fara vel á borði eða jafnvel á gólfi því þær stærstu eru talsvert plássfrekar.
Hýasintur eru sannkölluð jólablóm hér á landi. Ræktendur koma laukunum fyrir í pottum sem settir eru í kæligeymslu snemma hausts þar sem þeir ljúka sínu dvalatímabili og mynda blómvísa. Þegar nær dregur aðventu eru laukarnir teknir úr kælinum og komið fyrir í gróðurhúsum þar sem blómþroskinn heldur áfram. Loks blómstra þær og gefa frá sér sinn dásmlega ilm. Hýasintur fást í nokkrum litum, þær má hafa einar og sér en þær fara sérstaklega vel í ýmiss konar samplöntunum og blómaskreytingum.
Rauðar jólabegóníur skarta sínu fegursta á aðventunni og halda blómunum fram á vetur. Þær þarf að vökva hóflega og þrífast best þar sem lofthiti er i lægri kantinum. Garðyrkjubændur rækta þær upp af græðlingum.
Ástareldur, öðru nafni kóraltoppur, er lágvaxin pottaplanta sem blómstrar eldrauðum blómum og er í boði á aðventunni. Garðyrkjubændur nota ýmis ráð til að ná plöntunum þéttum og blómríkum en varla er hægt að búast við að blómin endist lengur en fáeina mánuði eftir að hún er sett á markað. Líkt jólabegóníum kýs ástareldurinn fremur svalar aðstæður, þannig standa blómin best.
Riddarastjarna, eða Amaryllis, er stórvaxið laukblóm sem verður sífellt vinsælla sem aðventu- og jólablóm. Stór og glæsileg blóm vaxa á löngum blómstilkum upp úr gildum laukum. Þeim er komið fyrir grunnt í tiltölulega smáum pottum. Þar mynda þeir rætur og síðan löng laufblöð. Blómstilkarnir vaxa loks upp úr lauknum, einn eða jafnvel nokkrir úr sama lauknum. Þetta hljóta að teljast meðal allra glæsilegustu jólablómanna þegar lúðurlaga blómkrónurnar fara að opnast. Skemmtilegast er að kaupa riddarastjörnu sem er rétt að hefja blómgun, þá er hægt að fygjast með öllu ferlinu frá því blómin þrútna og opnast hvert af öðru. Í boði erur riddarastjörnur í ýmsum litum, þar á meðal hárauðum, með 10–15 cm blómkrónum.
Garðyrkjubændur rækta afskorin blóm allt árið. Í desember er rauði liturinn að sjálfsögðu vinsælastur. Jólatúlípanar eru nú í boði í blómaverslunum. Á mörgum heimilum er föst hefð að hafa rauða túlípana í vasa á aðventu og jólum enda mikil híbýlaprýði. Rauðar íslenskar rósir eru einnig vinsælar og fást allan veturinn. Sama má segja um aðrar tegundir afskorinna blóma, rauði liturinn er ráðandi á aðventunni og fram yfir nýárið.
Hægt er að fá smávaxin sígræn tré í rúmgóðum pottum. Þau sóma sér vel innanhúss og minna á venjuleg jólatré. Fagursýprus og einir njóta sín vel þannig, jafnvel með smá skrauti. Einnig er hægt að nota þau til að prýða garðskála eða jafnvel við anddyri eða á sólpalli.
Sígrænar greinar úr íslenskum skógum eru alltaf vinsælar til skreytinga, sem og annað efni sem skógurinn gefur af sér, td. könglar og sneiðar úr grisjunarviði sem notaðar eru sem undirstaða fyrir jólaskreytingar. Rétt er að minna á tröpputrén sem eru orðin vinsæl, yfirleitt úr íslenskri stafafuru. Íslensku jólatrén eru svo sérstakur kapítuli.
