Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka í Hrútafirði, sem lætur ekki deigan síga þrátt fyrir að vera með Parkinson-sjúkdóminn og saumar bútasaumsteppi á fullum krafti og gefur allan ágóða af sölu þeirra til góðgerðarmála. Mottó Ólafar er: „Lífið er stutt, njóttu þess.“
Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka í Hrútafirði, sem lætur ekki deigan síga þrátt fyrir að vera með Parkinson-sjúkdóminn og saumar bútasaumsteppi á fullum krafti og gefur allan ágóða af sölu þeirra til góðgerðarmála. Mottó Ólafar er: „Lífið er stutt, njóttu þess.“
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 29. apríl 2021

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og bjó þar, þar til við fluttum í Hrútafjörðinn haustið 1984,“ segir Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka, en bærinn er rétt norðan Reykjaskóla.

„Foreldrar mínir voru Magnea Kristín Sigurðardóttir frá Seljatungu og Ólafur Nikulásson (Óli Nikk) mjólkurbílstjóri.  Maðurinn minn er Skúli Einarsson frá Tannstaðabakka og tókum við við búi foreldra hans.

Við eigum fjögur börn, (Laufey Kristín, Eyrún Ösp, Guðrún Eik og Ólafur Einar) og níu barnabörn.  Ég vann við skrifstofustörf á Selfossi eftir Verslunarskólapróf og þar til við fluttum í sveitina, en hef síðan verið bóndi, fyrst með kindur en síðan bættist nautaeldi við, minkaeldi í tvö ár, mjólkurframleiðsla og síðast bættist við kjúklingaeldi.  Yngsta dóttirin, Guðrún Eik, og hennar maður tóku við jörðinni og hefðbundnu greinunum árið 2014, en við Skúli erum með kjúklingaeldið enn þá.“  

Fjölskyldan á Tannstaðabakka, Skúli og Ólöf með börnum sínum, en þau heita, frá vinstri: Laufey Kristín, Eyrún Ösp, Guðrún Eik og Ólafur. Skúli og Ólöf ætla að ferðast um landið í sumar á hjólunum sínum en þau voru að fjárfesta í rafmagnshjólum.

Parkinson-sjúkdómurinn

Ólöf greindist 2015 með Parkinson-sjúkdóminn, sem er ólæknanlegur og versnar með árunum, mishratt eftir einstaklingum. Hún var send á Reykjalund til að læra ráð til að hamla sjúkdómnum og fræðast um hvað hægt væri að gera til að halda líkamlegri og andlegri heilsu sem bestri sem lengst. 

„Þar kynntist ég fimm öðrum „Pörkum“ og tókst vinskapur með hópnum og hittumst við reglulega, a.m.k. einu sinni á ári. 

Baráttan við hr. Parkinson er stöðug og reyni ég að halda honum í skefjum með reglulegri hreyfingu (liðleiki, þol, styrkur, ákefð) ásamt því að viðhalda fínhreyfingum með því að sauma og prjóna, og hausnum með því að setja saman liti og reikna út munstur og stærðir og fleira. Gera sudoku og púsla.  Svo þið sjáið að það er full vinna að berjast þessari baráttu, en ég tel að hún hafi tvímælalaust borið árangur,“ segir Ólöf og brosir, enda alltaf jákvæð og tekur sjúkdómnum af miklu æðruleysi. 

Hluti af teppum, sem Ólöf hefur saumað af sinni alkunnu snilld þegar bútasaumsteppi eru annars vegar.

Velferðarteppi Ólafar 

„Velferðarteppi Ólafar“ hafa slegið í gegn, en hver er saga þess verkefnis? „Jú, ég var að taka til í saumaherberginu mínu snemma árs 2017 og rakst á efni sem ég hafði notað í bútasaum á árum áður.  Ég ákvað að ég gæti nú allavega gert eitthvað úr þessu sem ég ætti og fyrir valinu varð að búa til barnateppi. Þau eru notadrjúg og ég gæti þá gefið þau í Rauða krossinn.

Hlutirnir æxluðust svo þannig að fólk vildi kaupa af mér teppin og síðan fóru konur, aðallega að senda mér afgangsefni sem þær áttu svo ég gat saumað fleiri. Þá ákvað ég að safna þessum peningum inn á sér reikning. Í desember 2017 afhenti ég Velferðarsjóði V-Húnavatnssýslu, sem er kirkjan, Rauði krossinn og Félagsþjónustan, peninginn til gjafar. Ég  bjó svo til Facebook-síðu um teppin, en síðan fékk nafnið „Velferðarteppi Ólafar“. Þetta vatt svo upp á sig, ég sauma og sauma, fæ sent fullt af efnum og sel alveg helling, ásamt því að gefa líka teppi m.a. á Landspítalann og á fleiri staði.

Ég sauma líka dúka (löbera), töskur, púða, munnþurrkur og grímur.  Núna er ég búin að gefa fjórum sinnum í þennan sjóð og upphæðin er komin í 2 milljónir og teppin orðin rúmlega 200,“ segir Ólöf, alsæl með árangurinn og vinnu sína, svo ekki sé minnst á að hafa gefið allan peninginn til góðgerðarmála.

Maður ársins

Ólöf var kjörinn maður ársins 2018 á Norðurlandi vestra af lesendum Feykis. Hún er stolt af viðurkenningunni.

„Já, ég varð mjög þakklát og hrærð yfir þessari viðurkenningu.  Ég tel mig vera búna að fá mitt út úr saumaskapnum á teppunum.  Gleðina yfir að skapa fallegan eigulegan hlut, ásamt þjálfuninni sem ég fæ út úr því. Það er svo stór bónus að einhver vill kaupa þetta, til að gleðja einhvern, borgar mér pening fyrir sem ég svo afhendi til að gleðja einhvern eða einhverja, þannig að allir vinna lotteríið.“

Heldur í gleðina

Ólöf er því næst spurð um lífið, hvað það hafi kennt henni?

„Já, þú segir nokkuð. Lífið hendir í okkur alls konar verkefnum, sumum erfiðari en öðrum. Maður heldur bara áfram og gerir það besta í stöðunni og dvelur ekki við það sem maður getur ekki, heldur það sem maður getur. Syngur eins og enginn sé að hlusta og dansar eins og enginn sé að horfa og heldur í gleðina. Það er heila málið að reyna að láta sér líða vel, bæði líkamlega og andlega, helst alla daga. Góð hreyfing er eitt af því mikilvægasta,“ segir hún brosandi. 

Á teppi á lager

Ólöf segist alltaf eiga einhver bútasaumsteppi á lager vilji fólk kaupa af henni teppi og styrkja þannig góð málefni. Hún segir að langbest sé að hafa samband við sig í einkaskilaboðum í gegnum Facebook-síðuna, „Velferðarteppi Ólafar“.

Við setjum punktinn hér og óskum Ólöfu velfarnaðar, hvort sem það er með teppin, fjölskylduna eða í baráttunni við sjúkdóminn og með lífið sjálft.

Guðrún Eik og maður hennar eru með kúabúið á Tannstaðabakka en þau eru með 46 árskýr. Nýlega fæddust þrír kálfar á bænum, tvíkelfingar og einkelfingur. Tvíkelfingarnir hafa fengið nöfnin Ponsa (var 23 kíló við fæðingu) og Stráksi (var 26 kíló við fæðingu) en þeir voru samtals 49 kíló við burð, en  sú stóra heitir Bredda og var 52 kíló. Það munaði því 26 kílóum á Stráksa og Breddu og 29 kílóum á milli Ponsa og Breddu. 

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk
Líf og starf 7. maí 2021

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég fann það strax og ég byrjaði að fást vi...

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni
Líf og starf 6. maí 2021

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni

Sextán teymi, sem standa á bak við tuttugu lausnum tengdum ull með einum eða öðr...

Góður staður til að gera ekki neitt
Líf og starf 5. maí 2021

Góður staður til að gera ekki neitt

Sælureitur í sveit er heiti á verk­efni sem Stefán Tryggva- og Sigríðarson og In...

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt
Líf og starf 4. maí 2021

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt

„Við viljum standa fyrir eitthvað meira en að veita grundvallarþjónustu, svefnst...

Þróun vörumerkis er langhlaup
Líf og starf 3. maí 2021

Þróun vörumerkis er langhlaup

Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og s...

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig
Líf og starf 29. apríl 2021

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og bjó þar, þar til við fluttum í Hrútafjörðin...

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök
Líf og starf 23. apríl 2021

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök

Samkvæmt tölum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um framleiðslu og sölu á...

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til
Líf og starf 19. apríl 2021

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til

Fyrsti Evrópski ullardagurinn var haldinn á föstudaginn. Ísland var þátttakandi ...