Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Miðhús
Bærinn okkar 17. október 2022

Miðhús

Þau Barbara og Viðar frá Miðhúsum segja lesendum örlítið frá sjálfum sér:

„Við stórfjölskyldan fluttum að Miðhúsum haustið 2007 frá Kaðalsstöðum í Stafholtstungum. Veturinn 2007-2008 vorum við með búskap á báðum jörðum og einkenndist sá vetur af mikilli keyrslu ábúenda fram og til baka á milli jarða ásamt því að vera með kerru í eftirdragi allar ferðir til að nýta ferðirnar vegna flutninganna. Í júní 2008 vorum við alflutt norður á Strandir. Við tókum við um 350 fjár og fjölguðum jafnt og þétt fyrstu árin. Í dag erum við með um 540 hausa á vetrarfóðrum.

Fyrir fjórum árum fengum við 4 nautkálfa og hófum í framhaldi af því að selja nautakjöt beint frá býli. Kálfana fáum við frá nágrönnum okkar að handan, þeim Stebba og Báru. Hestar eru á bænum, flestir í eigu Guðmundar Kristins. Hundarnir eru samtals 5. Tvær kisur, þær Miðhúsa Mjása og Loppa, sjá svo um meindýravarnir jarðarinnar. Í Miðhúsum höfum við viðhafið hvers kyns heyskaparaðferðir í gegnum árin. Lengst af með vothey og rúllur en vorum líka með laust þurrhey í gryfju og litla þurrheysbagga. Síðustu tvö ár höfum við eingöngu verið í rúlluheyskap.

Býli? Miðhús.

Staðsett í sveit? Kollafjörður í Strandabyggð.

Ábúendur? Viðar Guðmundsson, Barbara Ósk Guðbjartsdóttir. Auk þeirra býr Guðmundur Kristinn Guðmundsson, faðir Viðars, í næsta húsi.

Fjölskyldustærð (og gæludýra)? Viðar og Barbara eiga 5 börn, þau Andreu Messíönu, Guðbjart Þór, Unni Ernu, Þorstein Óla og Ólaf Kristin. Þar að auki er barnabarnið Glódís og annað væntanlegt í nóvember. Börnin eru ýmist alflutt eða hálfflutt að heiman og í vetur eru einungis tveir yngstu drengirnir heima ásamt foreldrum sínum og Guðmundi afa sem býr í næsta húsi. Hundurinn Týra er mikill fjölskylduvinur og Tígur er nýfluttur yfir til okkar frá efri bænum.

Stærð jarðar? Rétt tæplega 1000 ha.

Gerð bús? Aðallega sauðfé en einnig nautgripaeldi og hrossarækt.

Fjöldi búfjár? 540 kindur.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Það er ekkert til sem heitir hefðbundinn vinnudagur hér á bæ. En yfir veturinn sér Viðar að langmestu leyti um morgungjafirnar þar sem Barbara vinnur fasta vinnu utan heimilis.

Annars reyna þau að hjálpast að eins mikið og hægt er og skipta með sér verkum eftir því hver verkefnastaða þeirra utan búsins er. Barbara vinnur sem þroskaþjálfi á Hólmavík 4 daga í viku og Viðar er tónlistarmaður, kórstjóri og útfararstjóri. Bæði taka þau fullan þátt í búskapnum og hjálpast að. Þau eiga þó bæði sín verk sem hitt þarf ekki að sinna.

T.d sér Viðar alfarið um skráningu í jörð.is (áburður/skítur og uppskera/ endurrækt) á meðan Barbara sér alfarið um allar Fjárvís-skráningar. Það er ekki leggjandi á einn bónda að sjá um það allt aleinn.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Barböru finnst skemmtilegast að ragast í fé á haustin og getur alveg gleymt sér í að nördast í ættfræði og afurðum áa þegar verið er að velja ásetninginn. Leiðinlegast finnst henni að bólusetja og gefa ormalyf. Hún er heldur ekki sérstaklega hrifin af því þegar hún kemur heim eftir langan vinnudag á Hólmavík og hennar bíður fjall af aftekinni ull til að flokka.

En það þýðir bara að Viðar hafi verið vinnusamur þann daginn eins og góðir vinnumenn eiga að vera. En eitt af hans mottóum í rúningnum er „illu er best aflokið“ og má því áætla að honum finnist ekki skemmtilegt að rýja.

Annars er það líklega sammerkt með þeim báðum að þegar vel gengur er gaman sama hvaða verk er verið að vinna. Svo koma dagar sem einkennast af basli og þá er ekki alveg eins gaman.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Dag í senn, eitt andartak í einu. Libba og njódda í núinu. Höfum ekki hugmynd um hvar við verðum eftir fimm ár.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Rjómi, lýsi, smjör, skyr og ostur.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Eitthvað sem eldað er úr kind eða nauti, helst ef það er hægeldað og matarilmurinn yfir daginn hefur æst upp eftirvæntinguna fyrir kvöldmatnum. Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það var ansi eftirminnilegt þegar það kviknaði í hlöðunni fyrsta sumarið okkar í Miðhúsum.

Það var góð leið til að kynnast fólkinu á svæðinu. Slökkviliðsstjórinn hefur t.d verið einn af okkar bestu vinum síðan þá. En það má grínast með þetta því að allt slapp vel og aldrei þessu vant þá fengum við ásættanlegar tryggingabætur sem dugðu fyrir heykaupum í stað þess sem brann.

Við skorum á: Reyni Björnsson og Steinunni Þorsteinsdóttur, Miðdalsgröf (511 Hólmavík)

Til vara: Báru Borg Smáradóttur og Stefán Jónsson, Gróustöðum (381 Króksfjarðarnes)

Enn til vara ... Árný Huld Haraldsdóttir og Baldvin Smárason, Bakka (381 Króksfjarðarnes)

Sandar
Bærinn okkar 30. mars 2023

Sandar

Þau Birkir Snær Gunnlaugsson og Hanifé Agnes Mueller-Schoenau reka kjúklinga- og...

Saurbær
Bærinn okkar 22. mars 2023

Saurbær

Við fáum að líta inn hjá þeim Heiðrúnu og Pétri og gefum þeim orðið:

Starrastaðir
Bærinn okkar 8. mars 2023

Starrastaðir

Á Starrastöðum í gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði hefur sama fjölskyldan bú...

Stóra-Mástunga 1
Bærinn okkar 22. febrúar 2023

Stóra-Mástunga 1

Hér kynnumst við þeim Aðalheiði og Bjarna sem búa á blönduðu búi í Skeiða- og Gn...

Árbakki
Bærinn okkar 8. febrúar 2023

Árbakki

Á Árbakka búa hjónin Hulda Gústafsdóttir og Hinrik Bragason ásamt syni sínum, te...

Birtingaholt
Bærinn okkar 25. janúar 2023

Birtingaholt

Þau Svava og Bogi Pétur tóku við búinu árið 2016 af Mörtu og Ragnari, frænda Bog...

Staður
Bærinn okkar 9. janúar 2023

Staður

Staður er gamalt prestssetur og ættarsaga okkar hófst hér með því að langafi Reb...

Stóra-Fjarðarhorn og Þrúðardalur
Bærinn okkar 12. desember 2022

Stóra-Fjarðarhorn og Þrúðardalur

Seinnipart árs 2016 keyptu þau hjónin Ágúst og Guðfinna jarðirnar Stóra- Fjarðar...