Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sauðfjárbændur benda á lausnir
Skoðun 7. júní 2018

Sauðfjárbændur benda á lausnir

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir

Bændur er sú stétt í landinu sem býr í hvað nánustu sambýli við náttúruna. Sauðfjárbændur fengu svo sannarlega að finna fyrir því í nýliðnum maímánuði þegar sauðburður stóð yfir. Veðrið lék við bændur og búalið á sumum landsvæðum á meðan á öðrum svæðum landsins var kulda- og vætutíð nánast allan maímánuð. Það er ekki á okkar valdi að stýra veðrinu, en líkt og endranær er það okkar verkefni að semja okkur að duttlungum náttúrunnar og spila sem best úr stöðunni á hverjum tíma.


Erindi mitt með þessum pistli er þó ekki að tala um veðrið. Fyrir hönd Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) langar mig að fara yfir stöðu greinarinnar sem mjög hefur verið til umræðu undanfarin misseri. Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda, sem haldinn var í byrjun apríl, var ályktað um mikilvæg mál sem snerta sauðfjárræktina og framtíð greinarinnar.

Sláturleyfishafa bíða stórar áskoranir

Fundurinn ályktaði um lagaumhverfi afurðageirans og hvatti til þess að það verði skoðað. Það er mjög mikilvægt að tilhögun slátrunar og vinnslu verði með sem hagkvæmustum og skilvirkustum hætti. Þar verður að ríkja heilbrigð og virk samkeppni en henni er ekki til að dreifa þegar bændur eru læstir inni hjá einni afurðastöð eins og nú er raunin. Það er nauðsynlegt að þessi hlekkur í virðiskeðjunni geti gegnt sínu hlutverki sem best. Skilað frá sér vandaðri vöru af metnaði, í fullum gæðum, á sem hagkvæmastan hátt. Það eru stórar áskoranir sem þessi geiri stendur frammi fyrir.

Harðnandi samkeppni

Ásamt harkalegri niðursveiflu á erlendum lambakjötsmörkuðum sem skollið hefur á bændum af fullum þunga, stöndum við frammi fyrir harðnandi samkeppni við innfluttar matvörur. Þær eru oft og tíðum framleiddar við mun slakari kröfur en gengur og gerist hérlendis. Við verðum að hafa afurðafyrirtæki sem hafa burði til að aðgreina þá vöru sem við framleiðum með skýrum hætti frá, annars og jafnvel þriðja flokks vöru, sem flutt er inn og stillt upp í rekkum verslana við hlið þeirrar gæðavöru sem við framleiðum.

Þar verða frumframleiðendur einnig að leggja lóð á vogarskálar. Smásalinn á að búa við sterkt aðhald og öflugt regluverk. Neytendur eiga heimtingu á að fá augljósa og skýra valmöguleika þar sem ekki er reynt að blekkja og blanda saman rusli og gæðum.

Sóknarfæri innan afurðageirans

Afurðafyrirtækin þurfa að geta tekist á við sveiflur og aukna samkeppni. Þessum fyrirtækjum verður einnig að búa umhverfi þar sem þau geta sótt fram. Þau verða að hafa möguleika á að tileinka sér nýjustu tækni og reka markaðsstarf á forsendum okkar framleiðsluhátta og styrkleika. Þau verða að standa með þeirri framleiðslu sem við stundum. Í grunninn er hráefnið frábært og heilnæmt. Framleiðslan er almennt innt af hendi af alúð fyrir skepnunum og landinu, það er verðmætt og að því eigum við að hlúa. Það eru mikil sóknarfæri fólgin í skilvirkari ferlum innan afurðageirans þar sem minnka má sóun til muna til hagsbóta fyrir umhverfið, neytendur og bændur. Það t.d. blasir við að víða er hægt að spara, s.s. í flutningum, launakostnaði og fleiri þáttum. Í þær aðgerðir á að ráðast sem allra, allra fyrst.

Jafnvægi þarf að nást

Aðalfundur LS ályktaði einnig um frystingu gæðastýringar- og býlisgreiðslna með það fyrir augum að aflétta framleiðsluþrýstingi. Stjórn samtakanna hefur unnið að frekari útfærslu á þessari ályktun. Við höfum lagt áherslu á að þessar greiðslur verði frystar um ákveðinn tíma eða þar til jafnvægi kemst á framleiðslu og eftirspurn en þó verði tekið sérstakt tillit til nýliða í greininni. Sú aðgerð myndi strax aflétta framleiðsluspennu, ásamt því að einhverjir framleiðendur gætu valið þá leið að færa sig að hluta yfir í önnur verkefni á sínum bújörðum, t.d. heimavinnslu afurða eða landbótaaðgerðir. Þá höfum við mælt með að eldri bændum verði gefin sértæk útleið úr greininni fyrir þá sem það kjósa.

Hverjar eru framleiðsluhorfur?

LS gerðu könnun á meðal sauðfjárbænda þar sem spurt var út í áætlanir bænda varðandi framleiðslumagn næsta árs. Samkvæmt þeirri könnun sér ekki fram á mikla breytingu í ásetningi næsta vetrar, eða um 1% fækkun, en u.þ.b. 10% bænda sögðust óákveðnir gagnvart ásetningi næsta vetrar. Við höfum lagt áherslu á að mikilvægt sé að hrinda þessum aðgerðum sem allra fyrst í framkvæmd og er það sérstaklega mikilvægt í ljósi þessara niðurstaðna. Bændur verða að hafa einhvern fyrirsjáanleika en eins og oft hefur verið bent á undanfarin misseri eru framleiðsluferlar langir. Til þess að ná þessu fram þarf samkomulag um nauðsynlegar breytingar á samningum milli ríkis og bænda og aðgerðir í framhaldinu. Það er orðið aðkallandi að taka þetta samtal og fara í aðgerðir.

Sveiflujöfnun þarf að koma til

Þá hefur stjórn samtakanna lagt mikla áherslu á að við endurskoðun samninga sé hugað að verkfærum til að taka á sveiflum. Verkfærum sem til framtíðar geta bæði tekið á framleiðsluhliðinni og söluhliðinni. Gagnvart framleiðsluhliðinni má sjá fyrir sér að í sauðfjársamningi sé innbyggður farvegur fyrir fjármagn til að tempra framleiðslumagn. Valfrjálsa hvata til fækkunar sem megi virkja þegar þannig árar. Gagnvart söluhliðinni þarf að formfesta verkfæri sem getur tekist á við sveiflur á mörkuðum hvort sem það er gagnvart innanlandssölu eða erlendum mörkuðum. Við höfum bent á markaðsstöðugleikasjóð sem mögulega leið í þeim efnum. Slíkur sjóður yrði fjármagnaður af greininni sjálfri og alfarið á forræði hennar. Það má a.m.k. öllum vera ljóst að ef slík verkfæri hefðu verið til staðar væri löngu búið að grípa til þeirra. Fullyrða má að skellurinn hefði ekki orðið jafn harður. Það er nauðsynlegt fyrir greinina að geta sjálf tekist á við sviptingar á borð við þær sem hér hafa dunið yfir og þurfa ekki að treysta á viðbrögð hins opinbera.

Lífvænlegt framleiðsluumhverfi

Sauðfjárræktin býr ekki við hömlur eða stýringu, framleiðsla og verðlagning er frjáls á öllum stigum. Sauðfjárræktin sem slík hefur ekki skjól af tollvernd. Gleymum því ekki að um árabil hafa íslenskir bændur framleitt sína frábæru og hreinu vöru á sambærilegu verði og kollegar erlendis. Tækifærin eru því sannarlega okkar ef sköpuð eru eðlileg skilyrði. Á fyrrnefndum aðalfundi LS greindi ráðherra frá því að hann hafi óskað eftir að samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga myndi hraða vinnu vegna endurskoðunar á starfsskilyrðum sauðfjárræktar. Jafnframt að tillögur hópsins yrðu tilbúnar fyrir stjórnvöld og BÍ innan nokkurra vikna. LS beindi ályktunum aðalfundarins inn í samráðshópinn að beiðni ráðherra. Ekkert bólar þó enn á tillögum og ekki hefur tekist að hraða vinnu gagnvart mikilvægustu þáttum til breytinga þrátt fyrir umleitanir LS þar um. Ríkið setur atvinnugreinum landsins ramma. Á hinu opinbera hvílir sú ábyrgð að gæta þess að hann sé lífvænlegur.

Hér hafa verið raktar helstu breytingar sem Landssamtök sauðfjárbænda telja mikilvægastar. Það er mikilvægt að tapa ekki fókus á verkefninu. Við verðum að ráðast í brýnustu aðgerðir núna strax. 

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...

Notkun sýklalyfja í landbúnaði
Skoðun 8. júní 2023

Notkun sýklalyfja í landbúnaði

Í nóvember 2022 kom út tólfta skýrsla Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun...

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019
Skoðun 16. janúar 2023

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019

Árið 2022 var sögulegt, eftir tveggja ára baráttu við Covid-19 sjúkdóminn, sem e...

Biðin er ótæk
Skoðun 1. desember 2022

Biðin er ótæk

Nú liggur fyrir að þróun áburðarverðs á heimsmarkaðsverði hefur verið heldur á u...

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi
Skoðun 24. nóvember 2022

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi

Við undirritun EES-samningsins 1992 byggði samstarf ESB á ákveðnum sáttmálum.

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda
Skoðun 21. júní 2022

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að...

Traust og „chill“
Skoðun 20. júní 2022

Traust og „chill“

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sa...