Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Umbúðir án innihalds
Lesendarýni 5. janúar 2023

Umbúðir án innihalds

Höfundur: Högni Elfar Gylfason, varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins skrifar hæstvirtur matvælaráðherra grein sem ber yfirskriftina „Bjartsýni í sauðfjárrækt“.

Högni Elfar Gylfason,
varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Orð eru til alls fyrst og segja má að það sé góð byrjun hjá ráðherra landbúnaðarmála að vera bjartsýn á framtíð stórrar atvinnugreinar sem undir hana heyra.
Atvinnugreinar sem hefur átt stóran þátt í að fæða og klæða landann frá landnámi og fram á okkar tíma.

Atvinnugreinar sem að miklu leyti hefur verið og er enn byggðafestan í dreifðum byggðum Íslands. Að því sögðu er vert að benda hæstvirtum ráðherra á að staða sauðfjárbænda lagast ekki ef greinin er afskipt af hálfu ráðuneytisins, ef ekkert er gert, ef hausnum er stungið í sandinn í þeirri von að vandinn hverfi.

Staða sauðfjárbænda lagast heldur ekki ef þeir sem eru betur settir verða skornir niður til að lagfæra stöðu hinna. Það helgast af því að þeir sem betur standa eru þrátt fyrir það í slæmri stöðu. Slík aðgerð væri ef til vill á pari við að taka af launum láglaunamanneskju og færa það annarri slíkri sem er einum launataxta neðar. Slíkt er ekki lausn heldur skrautlegar umbúðir um tómlegt innihald.

Gjafmildi í orði

Ráðherrann bendir á að hún hafi hlutast til um að 700 milljónir hafi verið greiddar til bænda úr ríkissjóði vegna hækkunar áburðarverðs síðastliðið vor.

Ekki er ástæða til að vanþakka þann gjörning, en ef réttlátar hefði verið að verki staðið hefði upphæðin kannski nýst betur þeim sem henni var ætlað í orði kveðnu. Dæmi er um að af um 100% hækkun áburðarverðs á búi hafi þannig fengist um 8% vegna þessarar góðvildar ráðherra.

Ef upphæðin hefði eingöngu verið greidd til þeirra sem keyptu áburð þetta vorið og þá í samræmi við keypt magn hefði hlutfallið hugsanlega verið hagfelldara þeim sem fengu stærsta skellinn þegar verð tilbúins áburðar tvöfaldaðist á skömmum tíma. Þá má benda hér á að fjármunir sem dreift var eftir aðkomu svonefnds „spretthóps“ ráðherra voru minni en það sem fram kom hér að ofan, allavega á þeim bæ sem um er rætt.

Leikreglur stjórnvalda

Í umræddum skrifum ráðherra bendir hún á að afkoma bænda sé háð fleirum en stjórnvöldum. Það er ánægjulegt að um það sé vitneskja í ráðuneytinu, en þá er líka rétt að skoða hvernig aðkoma stjórnvalda hefur á margan hátt stjórnað getu íslenskra bænda til að reka bú sín. Beinn stuðningur yfirvalda við greinina er nefnilega langt í frá það eina sem hefur áhrif á afkomuna. Þannig má ekki gleyma því að Alþingi og ríkisstjórn setja leikreglur í landbúnaði líkt og í öðrum geirum íslensks mannlífs.

Íslensk stjórnvöld ákveða hversu mikið er flutt inn til landsins af landbúnaðarafurðum með tollasamningum við önnur ríki. Þannig er búið að stórauka innflutning undanfarin ár sem hefur haft bein áhrif á íslenska framleiðslu og verð til bænda. Samkeppni íslenskra fjölskyldubúa er og verður aldrei samkeppnishæf í krónum og aurum við erlend risastór verksmiðjubú. Í því ljósi er það í raun ákvörðun stjórnvalda hvort íslenskur landbúnaður lifir eða deyr.

Íslensk yfirvöld setja samkeppnisreglur í landinu. Þessar reglur og stofnanir sem um þær fjalla hafa valdið því að lítil sem engin samkeppni er í matvöruverslun hér á landi. Viðskiptablokkir sem ráða markaðnum alfarið og sjá um innflutning, heildverslun og smásölu matvæla á Íslandi eru á ábyrgð yfirvalda. Þeirra hagur er að kaupa vörur á eins lágu verði og mögulegt er og selja þær með eins miklum hagnaði og hægt er til hagsbóta fyrir eigendur. Þannig greiðir almenningur fyrir vörur sem hafa farið í gegnum nokkur fyrirtæki sem öll hafa bætt sinni álagningu ofan á, en eignarhald á keðjunni frá innflutningi til neytenda er oft í höndum tengdra eða ef til vill í einhverjum tilfellum sömu aðila.

Þegar þessar stóru verslunarblokkir svo semja um kaup vara frá íslensku afurðastöðvunum er aðstöðu- og stærðarmunur milli aðila svo mikill að litlar íslenskar afurðastöðvar mega sín lítils í samningaviðræðum um verð.

Þannig hafa ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að leyfa of mikinn innflutning landbúnaðarafurða ásamt því að leyfa mjög þjappað eignarhald í innflutnings-/, matvinnslu-/, heildsölu- og smásöluverslun matvæla risastór og bein áhrif á rekstrarhæfi íslensks landbúnaðar. Við bætist svo vangeta íslenskra tollayfirvalda við að fylgjast með innflutningi og framfylgja reglum þar um, en í því sambandi má vísa til misræmis milli talna Evrópusambandsins um útflutning landbúnaðarafurða til Íslands annars vegar og hins vegar talna íslensku Hag- stofunnar um innflutning sömu landbúnaðarafurða frá ESB, en þar á milli er himinn og haf þar sem stór hluti útflutnings frá ESB er ekki skráður sem innflutningur hér á landi.

Stuðningur við íslenskan almenning

Ráðherra verður tíðrætt í grein sinni um stuðning almennings við sauðfjárrækt. Það er leitt að ráðherra landbúnaðarmála virðist ekki gera sér grein fyrir tilgangi stuðnings við landbúnað, en það vita allir sem vilja að tilgangurinn er að lækka verð matvara til almennings.

Það hefur um leið þau áhrif að framleiðsla matvæla stendur betur undir kostnaði og tryggir að framleidd séu matvæli í landinu með því öryggi sem fylgir. Þó skal ráðherra bent á að frumframleiðsla matvæla er hér á landi lítils virt þegar kemur að útdeilingu virðisauka af framleiðslu, vinnslu, dreifingu og sölu þeirra. Þar eru Íslendingar eftirbátar margra annarra þjóða.

Lifað á loftinu einu saman

Það sem hæstvirtur matvælaráðherra vísar ítrekað í sem stuðning við bændur er í raun og sann stuðningur við innlenda framleiðslu matvæla, við fæðuöryggi, matvælaöryggi og um leið við byggð í landinu í víðri merkingu.

Ef ráðherra ætlar að breyta stuðningi við framleiðslu matvæla í stuðning við að framfylgja svonefndri loftslagsstefnu stjórnvalda þar sem ýmsum vafasömum full- yrðingum, draumórum og að því er virðist dulspeki ótilgreindrar loftslagskirkju er fylgt, er um grundvallar stefnubreytingu að ræða. Rétt væri að leggja svo afdrifaríka stefnubreytingu fyrir Alþingi Íslendinga til umræðu og ákvörðunartöku.

Slíkur viðsnúningur er tæpast svo léttvægur að ein manneskja geti ráðið þar um þrátt fyrir að gegna virðulegu starfi hæstvirts matvælaráðherra.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...