Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Um lausagöngu búfjár og álit umboðsmanns Alþingis
Lesendarýni 22. nóvember 2022

Um lausagöngu búfjár og álit umboðsmanns Alþingis

Höfundur: Hilmar Vilberg Gylfason, lögfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands.

Á dögunum gaf umboðsmaður Alþingis út álit þar sem fjallað er um lausagöngu búfjár (Mál nr. 11167/2021). Talsverðar umræður hafa átt sér stað um þetta álit og þýðingu þess.

Hilmar Vilberg Gylfason.

Um álit umboðsmanns má það helst segja að í því felst enginn nýr sannleikur um lausagöngu búfjár. Niðurstaða álitsins er í grundvallaratriðum að innviðaráðuneytið hafi gefið út leiðbeiningar til einstaklings sem ekki voru í samræmi við gildandi lög. Þannig eigi að skýra eftir orðanna hljóðan tiltekin ákvæði laga um búfjárhald sem heimila sérstaka friðun lands gegn lausagöngu búfjár. Þar segir einnig:

Hefði umráðamaður lands hins vegar ekki nýtt sér heimild til friðunar giltu um réttarstöðu hans þær reglur sem að meginstefnu hefðu gilt hér á landi um þessi efni frá fornu fari auk þess sem hann kynni að njóta þess sérstaka verndarréttar sem verið hefði í íslenskum rétti frá gildistöku fyrstu heildarlaga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. árið 1969.

Heyrst hefur í þessari umræðu að lausaganga búfjár sé ógn við sjálfbærni í landbúnaði. Slíkt er auðvitað fjarri sannleikanum enda hafa bændur um árabil sinnt landgræðslu með góðum árangri, sem þeir hafa að stórum hluta gert að eigin frumkvæði. Þá hafa bændur í auknum mæli tekið upp áætlanir um landnýtingu til að koma í veg fyrir að sú staða komi upp að land verði ofbeitt. Raunar þarf að fara nokkuð langt aftur í tímann, eða meira en aldarfjórðung, til að finna dæmi um víðtækar friðunaraðgerðir til að verjast ofbeit og engin teikn á lofti um að aftur verði þörf á slíkum aðgerðum. Má í þessu samhengi einnig benda á Umhverfisstefnu landbúnaðarins fyrir árin 2020­ 2030 sem aðgengileg er á heimasíðu Bændasamtakanna.

Eins og fram kemur í álitinu þá gefst landeigendum, samkvæmt lögum um búfjárhald, kostur á sérstökum friðunaraðgerðum kjósi þeir svo. Þá eru til þess að gera nýsamþykkt lög frá Alþingi um skóga og skógrækt þar sem sérstaklega er tekið fram að óheimilt sé að beita búfé í skógi eða á skógræktarsvæði nema með leyfi viðkomandi skógareiganda.

Einnig má ekki líta framhjá ábyrgð og skyldum veghaldara, hvort sem það eru sveitarfélög eða Vegagerðin. Veghaldara ber þannig að gæta umferðaröryggis og í því getur falist að girða meðfram vegum en veghaldara er það ýmist skylt eða heimilt eftir því hverjar aðstæður eru hverju sinni.

Þegar lög um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. eru skoðuð þá fer ekki á milli mála hvaða aðili það er sem ber ábyrgð samkvæmt þeim en sveitarfélög og hreppar eru þar nefnd oftar en fimmtíu sinnum. Sveitarfélög og eftir atvikum hreppstjórar hafa þannig samkvæmt lögunum umsjón með afréttarmálum og fjallskilum og geta gripið til ýmissa ráðstafana séu brögð að ágangi búfjár.

Í áliti umboðsmanns segir svofellt í niðurlagi þess: 

Án tillits til fyrrgreindrar niðurstöðu tel ég að atvik máls þessa, svo og breyttir samfélagshættir og landnýting á undanförnum áratugum, gefi tilefni til þess að hugað verði að endurskoðun þeirra réttarreglna sem fjallað er um í áliti þessu með það fyrir augum að réttarstaða allra hlutaðeigandi verði skýrð.

Komi það til að stjórnvöld ákveði að taka landbúnaðarlöggjöfina, eða einstaka hluta hennar, til endurskoðunar þá er rétt að benda á niðurstöður starfshóps um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu sem skipaður var af umhverfisráðherra og sjávarútvegs­ og landbúnaðarráðherra. Hópurinn skilaði ítarlegri skýrslu árið 2013 og lagði til tillögur í sjö liðum til frekari úrlausnar sem meðal annars fela í sér að komið verði á símatskerfi til vöktunar á ástandi gróður­ og jarðvegsauðlinda og að sett verði fram rammaáætlun um skipulag landnotkunar og sjálfbærrar landnýtingar.

Innan við tíu ár eru liðin frá því skýrsla starfshópsins kom út og mikið vatn runnið til sjávar á þeim tíma varðandi stefnumótun um sjálfbærni og tól til að fylgja þeirri vinnu eftir. Því væri fróðlegt að gerð yrði úttekt á stöðu mála í dag með vísan til þeirra aðgerða sem lagt var upp með.

Skylt efni: lausaganga búfjár

Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor...

Gerist ekkert hjá VG?
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áf...

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
Lesendarýni 19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Nú þurfum við ekki lengur að aka á negldum vetrardekkjum til að tryggja öryggi o...

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera...

Eru auðlindir Íslands til sölu?
Lesendarýni 14. febrúar 2024

Eru auðlindir Íslands til sölu?

„Ef virkjað verður meira mun rafmagnið seljast upp. Það verður alltaf umfram eft...

Stefna ungra bænda mörkuð
Lesendarýni 13. febrúar 2024

Stefna ungra bænda mörkuð

Aðalfundur Samtaka ungra bænda (SUB) var haldinn þann 13. janúar síðastliðinn á ...

Grýlan er rammíslensk
Lesendarýni 8. febrúar 2024

Grýlan er rammíslensk

Í skýrslu sem Margrét Einarsdóttir lagaprófessor vann fyrir umhverfis-, orku- og...

Hárkollurnar héngu í garðinum
Lesendarýni 2. febrúar 2024

Hárkollurnar héngu í garðinum

Síðar svartar buxur, stuttar svartar buxur, aðsniðnar svartar buxur. Svartur bóm...