Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Arnar Árnason.
Arnar Árnason.
Lesendarýni 9. nóvember 2020

Takk fyrir mig

Höfundur: Arnar Árnason.

Tíminn undanfarið hefur verið um margt skrítinn. Eins og flestir þekkja er það venjan að halda aðalfund LK að vori, yfirleitt í mars. Stjórn LK ákvað í fyrstu bylgju COVID að fresta honum, þess fullviss að við næðum fundi núna í haust og gætum þá jafnvel stefnt að árshátíð kúabænda. Allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð að halda aðalfundinn í fjarfundarkerfi þann 6. nóvember nk. og öll skemmtanahöld bíða betri tíma.

Þar sem ég hef ákveðið, fyrir nokkru, að gefa ekki kost á mér til frekari formannssetu fyrir LK er gott að fara aðeins yfir það sem helst hefur verið markvert í starfi samtakanna og starfsumhverfi greinarinnar frá því að ég tók við sem formaður vorið 2016.

Það sem varð þess valdandi að ég gaf kost á mér í formannsstólinn á sínum tíma voru þær miklu væringar sem áttu sér stað í kringum framleiðslustýringarkerfið okkar í mjólkinni. Búvörusamningarnir sem þá voru nýundirritaðir hljóðuðu upp á niðurlagningu þess. Það var mikill kurr í bændum vegna þessa og auðheyrt að mikill meirihluti þeirra var á móti því að afnema framleiðslustýringu með öllu.

Fyrsta verk nýrrar stjórnar var að ráða nýjan framkvæmdastjóra en starfandi framkvæmdastjóri hafði þá sagt starfi sínu lausu. Auk þess hafði öll stjórnin hætt í einu þannig að við, í þá nýkjörinni stjórn, lögðum af stað í verkefnið með enga reynslu af stjórnarsetu í LK sem og nýjan framkvæmdastjóra.

Það sem var veigamest í starfi stjórnar LK fyrstu misserin var innleiðing nýgerðra búvörusamninga. Reglugerðaskrif, yfirlestur, fundarseta og tillögugerð fyrir framkvæmdanefnd búvörusamninga. Þegar þessu stóra verkefni var lokið leið ekki langur tími þar til huga þurfti að endurskoðun samninganna sem nýlega höfðu tekið gildi. Í samningana var sett veigamikið ákvæði um atkvæðagreiðslu um framtíð framleiðslustýringar. Þetta ákvæði var sett inn á lokametrunum í samningavinnunni til að tryggja þeim brautargengi hjá bændum. Framhaldið þekkja svo flestir. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um að viðhalda framleiðslustýringu var afgerandi og samningunum því breytt í þá veru. Og erum við um þessar mundir að feta okkur af stað með viðskipti á nýjum kvótamarkaði. 

Stöndum vörð um okkar kjör

Það hefur verið skemmtilegt og ákaflega lærdómsríkt að starfa fyrir Landssamband kúabænda og margt sem hægt væri að nefna í því sambandi. Ég hef kynnst fullt af fólki og ranghölum stjórnsýslunnar, venjum og hefðum í því sambandi sem ég hef nú ekki allar skilið. Eitt langar mig að nefna sérstaklega en það er starfið í verðlagsnefnd. Það hefur verið ein sú magnaðasta upplifun sem ég hef reynt. Þegar störf mín hófust þar varð ég þess fljótt áskynja að það var „venja“ að gera hlutina með ákveðnum hætti. Einhvern veginn hafði skapast sú venja þar inni að fara ekki eftir því sem stendur í búvörulögunum heldur að semja alltaf um skarðan hlut fyrir bændur þegar kemur að reiknuðum, lögbundnum, mjólkurverðshækkunum sem byggja á verðlagsgrunni. Sú stemning virtist yfirleitt ríkja að fara aldrei fram á reiknaða hækkun heldur að sætta sig við minna, svona að því virtist til að allir „yrðu sáttari“. Ég verð að segja að það hefur verið með ólíkindum þrýstingurinn sem ég hef orðið fyrir í þá átt að fara ekki fram á fulla reiknaða hækkun fyrir bændur inn í verðlagsnefnd. Þetta þótti mér alltaf galið og hef síðan þá alltaf farið fram á fulla hækkun fyrir bændur enda er verið að túlka lögin frjálslega ef það er ekki gert. Um framkvæmd ákvarðana verðlagsnefndar þarf að standa fast vörð.

Krefjandi verkefni fram undan

En það er nú ekki í mínum karakter að hanga í baksýnisspeglinum, heldur að  horfa fram á við. Það gefur á bátinn núna með lækkandi afurðaverði í kjöti, verðlækkun erlendra landbúnaðarvara vegna breyttrar úthlutunar tollkvóta sem svo mynda verðþrýsting á markaðinn hér heima. Sterkar vísbendingar eru um misferli í tollskráningu sem leiða af sér að íslensk framleiðsla nýtur ekki þeirrar tollverndar sem lagt var upp með. Hér hefur ferðamönnum fækkað mikið sem eðli málsins samkvæmt leiðir af sér minni heildarneyslu matvæla. Krónan hefur gefið eftir sem hækkar öll okkar aðföng svo fátt eitt sé nefnt.

En fátt er svo með öllu illt ... 

Mestu framfarir heimssögunnar hafa iðulega orðið þegar kreppir að og menn þurfa að hugsa út fyrir boxið. Fram undan eru faglega spennandi tímar svo ekki sé meira sagt. Ber þar helst að nefna áframhaldandi innleiðingu á erfðamengisúrvalsverkefninu en LK hefur tryggt áframhaldandi fjármögnun þess verkefnis sem mun án efa færa okkur meiri framfarir í ræktunarstarfi íslenska kúastofnsins en nokkurn grunar. Þá er starfsemi Nautís í fullum gangi og kynbótagripir farnir að skila sér í hjarðir holdanautabænda. Mikil vinna hefur átt sér stað hjá BÍ og búgreinafélögunum er varða endurskoðun á félagskerfinu okkar. Þar geta legið tækifæri í aukinni samvinnu allra búgreina en það verður verkefni nýrrar stjórnar LK að ljúka þeirri vinnu og gæta í henni að hagsmunum nautgripabænda í nýjum heildarsamtökum verði það niðurstaðan.

Stofnaður hefur verið vinnuhópur  til þess að vinna landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Í þessu geta legið tækifæri fyrir okkur og þurfum við að tryggja aðkomu okkar að þessari vinnu og að lögð verði fram tímasett aðgerðaáætlun með skýrum markmiðum og leiðum. Án þess endar landbúnaðarstefnan bara eins og hver önnur skýrsla í hillumetrum ráðuneytisins.

Við sem tókum við keflinu í LK 2016 vissum að við vorum að taka að okkur krefjandi verkefni í nýju umhverfi (nýir samningar) sem enginn vissi nákvæmlega hvernig leit út. Búið var að ákveða að fella niður búnaðargjaldið og stóðum við uppi með samtökin með engar öruggar tekjur. Það spilaðist vel úr og höfum við á þessum tíma aukið umfang LK um heilt stöðugildi (verkefnisstjóri í nautakjöti) og það er ekkert sem bendir til annars en við getum aukið umfangið enn frekar en það er ljóst að það bíða okkar krefjandi verkefni í loftslagsmálum ásamt mörgu öðru.

Ég stíg ákaflega sáttur frá borði og langar að þakka öllu því góða fólki sem ég hef fengið að kynnast og vinna með og fyrir síðustu árin. Ég óska næsta formanni og stjórn LK velfarnaðar í þeim mikilvægu og þörfu störfum sem þeirra bíða. 

Takk fyrir mig

Arnar Árnason

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...