Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Tengd nytjaskógum er löng virðiskeðja sem sveitarfélög þurfa að opna augun fyrir og tengja við atvinnustefnu sína og atvinnuuppbyggingu“, segir Þórdís Lóa í greininni.
„Tengd nytjaskógum er löng virðiskeðja sem sveitarfélög þurfa að opna augun fyrir og tengja við atvinnustefnu sína og atvinnuuppbyggingu“, segir Þórdís Lóa í greininni.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 1. nóvember 2022

Sveitarfélög í dauðafæri

Höfundur: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, skógarbóndi, forseti borgarstjórnar og fulltrúi Sambands íslenska sveitarfélaga í landsáætlun um skógrækt.

Í júní 2019 skipaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, verkefnisstjórn landsáætlunar í skógrækt. Undirrituð sat í þessari verkefnastjórn.

Þórdís Lóa
Þórhallsdóttir.

Landsáætlun um skógrækt var skilað til ráðherra í byrjun árs 2022. Með þessari grein vil ég hnykkja á tækifærum sveitarfélaga í þessari nýju stefnu.

Það skiptir máli að nýjar sveitarstjórnir skoði hvað felst í þessari landsáætlun, því sveitarfélögin eru afar mikilvægur hagaðili. Ef áætlunin á að koma til framkvæmda verður að gera þau að virkum aðilum áætlunarinnar.

Hlutverk sveitarstjórnarfólks er að móta stefnur og áætlanir, sem sveitarfélögin starfa eftir. Til að ná sveitarfélögunum virkum verður landsáætlunin að tengjast loftslagsáætlunum sveitarfélaganna, svæðisskipulagi, votlendisáætlunum og jafnvel niður á deiliskipulag. Einnig er mikilvægt að tengja landsáætlunina við önnur verkefni sveitarfélaga, svo sem lýðheilsumarkmið og vellíðan íbúa, atvinnuáætlanir, ferðaþjónustu og nýsköpun.

Það þarf því að vera virkt samtal á milli skógræktarinnar og sveitarfélaganna. Þetta er samtal sem þarf að hefjast strax. Sveitarfélögin eru að mínu mati í dauðafæri varðandi möguleika til þeirra til uppbyggingar í gegnum skógræktina, sérstaklega hvað varðar atvinnuuppbyggingu og nýsköpun um allt land tengdri skógrækt.

Sjálfbær þróun

Skógrækt stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. Í þessu felst að tryggja þurfi jafnan aðgang núverandi og komandi kynslóða að þeim gæðum sem skógrækt skapar. Þetta getur falist í aukinni útbreiðslu skóga.
Sveitarfélögin þurfa, hver á sínu svæði, að vinna út frá umhverfis- og loftslagsmarkmiðum þeirra. Þar þarf hlutur skógræktar að vera skýr hvað það varðar að tryggja líffræðilega fjölbreytni, að vera mótvægi við loftslagsvandann og til að vernda vatns- og jarðvegsvernd.

Auk þess þarf að huga að skógrækt til viðarnytja og þá í samhengi við atvinnustefnu sveitarfélaganna. Að sjálfsögðu þarf að huga að þeirri samfélagslegu sátt sem þarf að ríkja um skóga. Um hana var lögð mjög rík áhersla í vinnu verkefnisstjórnar. Þessi sátt þarf að birtast í ágóða íbúanna, sem geta nýtt skóga til heilsueflingar og útiveru. Uppbygging skóga sem útivistarsvæði ætti því að vera mikilvægt innlegg í lýðheilsustefnu sveitarfélaganna, auk þess sem skógar skapa mikilvæg græn svæði, þar sem íbúar og aðrir gestir geta komið saman og notið útiverunnar í rjóðrum og á skipulögðum leik- eða grillsvæðum.

Aðalskipulag sveitarfélaganna þarf svo að endurspegla þessar áherslur sem birtast í öðrum stefnum, til þess að þær komist raunverulega til framkvæmda.

Loftslagshlutleysi

Stærsti vandi sem við stöndum frammi fyrir eru loftslagsbreytingar og hvernig við munum fást við þær. Til að mæta loftslagsmarkmiðum sínum er lykilatriði að sveitarfélögin komi til samstarfs við skógræktarfélög og skógarbændur.

Undanfarin ár höfum við séð að sveitarfélög eru í vaxandi mæli með loftslagssýn og skilja mikilvægi þess að þau séu hluti af baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Án sveitarfélaganna og slagkrafts þeirra munum við ekki ná þeim umskiptum sem þurfa að eiga sér stað til að ná Parísarmarkmiðunum um kolefnishlutleysi árið 2040. Þá er það líka lögbundin skylda sveitarfélaga að setja sér loftslagsstefnu með markmiðum um hvernig draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Nýsköpun og efling byggðar

Skógrækt er ein tegund landbúnaðar. Tengd nytjaskógum er löng virðiskeðja sem sveitarfélög þurfa að opna augun fyrir og tengja við atvinnustefnu sína og atvinnuuppbyggingu. Í landsáætlun er skýrt að skógrækt og skógarnytjar stuðli að atvinnu, nýsköpun og eflingu byggðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Hér geta falist töluverð tækifæri fyrir sveitarfélög til að byggja upp atvinnu og stuðla að nýsköpun í heimabyggð. Sveitarfélögin þurfa m.a. að auka skilvirkni í stjórnsýslu sinni til að efla skógrækt á einkajörðum. En einnig er hægt að stuðla að nytjaskógrækt á opinberum svæðum og nýta afurðir til nýsköpunar.

Það þarf að auka skilvirkni í allri virðiskeðjunni, frá skógi til smásöluaðila. Sveitarfélögin geta stutt slíka þróun og hvatt til nýsköpunar í heimabyggð. En hér þurfa líka einkaaðilar að stíga inn af krafti, sérstaklega hvað varðar markaðsþróun og úrvinnslu skógarafurða. Við vitum að í sölu skógarafurða er markaður. En íslenskt framboð þarf að vera stöðugt og öruggt til að traust skapist á markaði. Með því að fá einkaaðila í lið með sveitarfélögunum er hér hægt að byggja upp nýja atvinnu í heimabyggð, sérstaklega í dreifbýli.

Bætt umhverfisgæði

Í landsáætlun er dregið fram að skógrækt og skógvernd stuðli að bættum umhverfisgæðum á borð við jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og eflingu líffjölbreytni. Hér er einkum verið að tala um að vernda náttúruskóga. Til að ná þessum markmiðum þurfa sveitarfélög að horfa til jafnvægis í skógrækt. Til að mynda með því að raska ekki votlendi og heimila ekki land til skógræktar þar sem fyrir er sjaldgæfur gróður eða ríkulegt varpland fugla. Horfa þarf heildrænt á skipulagsmál, til að ná fram jákvæðum áhrifum skógræktar en draga úr þeim neikvæðu.

Útivist og lýðheilsa

Í landsáætlun er dregið fram að mikilvægt er að skógar og skógrækt stuðli að auknum útivistarmöguleikum almennings og bættri lýðheilsu. Einnig að stuðlað verði að þátttöku almennings í skógræktarstarfi.

Sveitarfélögum er það mikið í mun að hlúa að lýðheilsu íbúa. Þetta markmið tengir við stuðning sveitarfélaga við eflingu íþrótta og útivistar. Skógar eru almennt vinsælir meðal íbúa, til útivistar og sem almennt samkomusvæði. Samstarf skógræktar og sveitarfélaga er hér mikilvægt til að efla hlutverk skóga í útivist og bættri lýðheilsu.

Lokaorð

Það felast mikil tækifæri fyrir sveitarfélög til að tengja við landsáætlun í skógrækt og nýta hana. Til þess að landsáætlunin nái í gegn, þurfa sveitarfélög og skógræktin að koma á virku samtali og samvinnu. Sveitarfélögin og skógræktin þurfa að ná að tengja einkaaðila inn, til að styrkja virðiskeðjuna heima í héraði. Einungis þannig munu markmið áætlunarinnar nást. Nú, haustið eftir kosningar með nýju fólki í sveitarstjórnum og miklum hug sveitarstjórnarfólks til að gera enn betur er lag fyrir sveitarfélög að taka stór skref. Tækifærin eru til staðar til að byggja upp vistvæn og sjálfbær sveitarfélög. Við sem höfum verið kosin til að stýra sveitarfélögum næstu fjögur árin erum því í dauðafæri til að nýta skógrækt til atvinnuuppbyggingar.

Skylt efni: Skógrækt

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...