Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í skjóli veikra, óljósra laga
Mynd / Bbl
Lesendarýni 18. maí 2022

Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í skjóli veikra, óljósra laga

Höfundur: Ágústa Ágústsdóttir ásamt hagaðilum á Norðurlandi

Í tíð fyrrum umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrands­sonar, reið yfir landið slík flóðbylgja friðunar að annað eins hefur varla sést. Kirsuberið á öldutoppinum átti að vera hinn alræmdi hálendis­þjóðgarður. Allt var þetta byggt á grunni meingallaðra laga Vatnajökulsþjóðgarðs sem samþykkt voru árið 2007.

Þegar sýnt var að ráherra myndi líklega ekki takast að koma kirsuberi sínu á toppinn, þrátt fyrir ærinn tilkostnað, fallegar ræður og loforð um betri heim fyrir alla, var eina ráðið að koma eins miklu undir friðunarhattinn og mögulegt væri áður en skila þyrfti valdalyklinum.

Friðun Austurafréttar Bárðardals og stækkun VJÞ í miklu óðagoti

Þann 30. ágúst 2021 voru örfáir útvaldir bændur í Bárðardal boðaðir með símtali á svokallaðan kynningar­fund þar sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar kynnti áform um töku þjóðlenda í afréttinum undir stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fullyrt var að málið væri að frumkvæði sveitarstjórnar, ekki væri um beiðni ráðherra eða ráðuneytis að ræða. Í lok apríl 2022 svara þeir þó á eftirfarandi hátt:

„Því var það í samræmi við fyrri aðgerðir sveitarstjórnar að taka jákvætt, þann 24. júní 2021, í hugmyndir um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs þegar eftir því var leitað.“

Að sögn íbúa er sátu fundinn, nefndu sveitarstjórnarmenn aldrei náttúruvernd sem hluta ástæðu stækkunar. Mikil óánægja hefur verið meðal íbúa á svæðinu vegna hraða vinnuferilsins sem var án alls samráðs þrátt fyrir gefin loforð um annað. Eingöngu virðist hafa verið horft til óljósra loforða um fjármagn, uppbyggingu vega með bundnu slitlagi o.fl.

Þá er einnig áhugavert að sjá í fundargerðum að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sá sérstaka ástæðu á 161. fundi 16.8. 2021 til að gera athugasemdir og leggja áherslu á „að vandað sé til verka og sem mestar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvarðanir eru teknar“.

Á 162. fundi 13.9. 2021 bendir stjórn sérstaklega á „mikilvægi samráðs“.

Einnig bókar fulltrúi SAMÚT (Samtök útivistarfélaga): „Vinnubrögð við þessar stækkanir eru gagnrýniverðar hvað varðar hraðann sem gerir stjórn og svæðisráðum erfitt fyrir með eðlilega umfjöllun.“

Í ljósi þessara athugasemda stjórnar má lesa út úr að hún sé ekki alls kostar sátt við vinnubrögð ráðherra. Hann velur að hunsa þær og tíu dögum síðar, 23. september 2021 á bak við luktar dyr, skrifar fyrrum umhverfisráðherra undir breytingar á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð sem kveður á um stækkun á norðursvæði hans, alls 299 km2.

19. september hafði ætlunin verið að staðfesta stækkunina með undirritun ráðherra við hátíðlega athöfn nálægt Svartárkoti og hafði stjórn VJÞ verið boðið. Tveim dögum fyrr og án skýringa var þessum viðburði frestað.

Fiskurinn undir steininum

Í 1. grein laga um Vatnajökuls­þjóðgarð segir:

„Landsvæði í Vatnajökuls­þjóð­garði getur verið í eigu íslenska ríkisins eða í eigu annarra aðila enda liggi fyrir samþykki eiganda viðkomandi lands um að það verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Leita skal samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar fyrir friðlýsingu landsvæðis í sveitarfélaginu.“

Í þessi lög vísa bæði fyrrum sveitarstjórn og fyrrum ráðherra vegna stækkunarinnar.
Þessi lög stangast þó stórlega á við 20. grein sömu laga er segja:

„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal í samráði við svæðisráð og Umhverfisstofnun gera tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn. Drög að reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð skulu kynnt sveitarstjórnum á svæðinu, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við þau. Leita skal álits Náttúrufræðistofnunar Íslands á vistfræðilegu þoli þeirra svæða þar sem ætlunin er að veiðar og búfjárbeit verði heimil. Við setningu reglugerðarinnar skal við það miðað að landnýting innan þjóðgarðsins sé sjálfbær að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.“

Því má bæta við að mörk þjóðgarðs­ins eru sett með þessari sömu reglugerð. Færa má þá rök fyrir því þegar ráðherra beitir 1. grein við friðlýsingu og setningu reglugerðar, að hann skauti framhjá 20. gr. laga, sem er eini lagatextinn um mörk þjóðgarðsins og því nokkuð skýr lína um hvernig standa skuli að setningu reglugerða.
Hver er þá tilgangur 20. greinar ef ekki þarf að horfa til hennar við stækkun og útvíkkun þjóðgarðsins?
Að mínu mati er þetta svo veik lagastoð sem stækkunin er byggð á, að ávallt mun ríkja vafi um lögmæti stjórnunar- og verndaráætlunar. Með langvarandi afleiðingum og deilum.

Þessi lög um stækkun þjóð­garðs­ins eru með öllu órökrétt þar sem ákvörðun um friðun og stækkun kemur fyrst, en friðlýsingarskilmálarnir koma svo eftir á með stjórnunar- og verndaráætlun (skjóta fyrst, spyrja svo). Þá má benda á að í verkefnislýsingu fyrir tillögu að breytingum á stjórnunar- og verndaráætlun er ekki gert ráð fyrir gagnaöflun grunngagna, samráði við NÍ, UST og hagsmunaaðila fyrr en í þriðja þætti vinnuferilsins.

Gott dæmi um þessi vinnubrögð eru svör þjóðgarðsvarðar Norður­svæðis á íbúafundi þann 30.4. 2022 (rúmum 7 mánuðum eftir friðlýsingu) við spurningunni. „Hver er ástæða VJÞ að friða þetta svæði og hver er sýn ykkar á að þess þurfi?“

Svar: „Það er einmitt verið að finna út úr því með þessari vinnu.“

Þannig er lítið mál fyrir æðstu stjórnendur þjóðgarðs að lofa fögru fyrir fram (t.d. áframhaldandi nytjum eins og veiði, búfjárbeit og opnum vegslóðum) en breyta svo eftir að ný reglugerð hefur verið undirrituð af ráðherra og svæði friðað. Um þetta eru mörg dæmi.

Þá er vert m.t.t. almannahagsmuna að upplýsa um skrif þjóðgarðsvarðar í Vatnajökulsþjóðgarði í öðru máli:

„Ef ég væri einn í heiminum, með náttúruverndarlögin og þjóðgarðsskilgreiningar IUCN myndi ég ekki hika við að loka báðum leiðum. Á hinn bóginn er til mikils að vinna að bæta samkomulag við f4x4 svo almenningsálitið snúist betur á sveif með þjóðgarðinum. Líklega væri best að samþykkja þessar tillögur sem bráðabirgðafyrirkomulag sem verði endurskoðað eftir nokkur ár þegar þjóðgarðurinn hefur fest sig betur í sessi.“

Með öðrum orðum er verið að segja

„Segjum já og brosum til að sýna þjóðinni góðu hliðina en þegar tíminn hefur aðeins liðið þá getum við tekið þetta allt til baka.“

Þá er fyrirkomulag laga um Vatnajökulsþjóðgarð í engu samræmi við náttúruverndarlög, sem ganga út á að friðlýsingarskilmálar liggi fyrir og hafi verið kynntir áður en ákvörðun er tekin um að ný svæði séu friðlýst. Þessi staðreynd sýnir að Vatnajökulsþjóðgarður er eins og oft hefur verið bent á, ríki innan ríkisins.

Náttúruverndarlög ættu að vera meginregla friðlýsingar. Þau ásamt náttúruverndaráætlun Alþingis fela í sér forgangsröðun og hagsmunamat, bæði faglegt mat á þeim svæðum sem skulu friðlýst með tilliti til annarrar landnýtingar og að fjármunir málaflokksins nýtist vegna mikilvægustu svæða landsins. Við friðlýsingu samkvæmt náttúruverndarlögum eru friðlýsingarskilmálar kynntir fyrir fram.

Ráðherra fer með framkvæmdar- vald, dómara- og úrskurðarvald í sínum eigin málum

Í 19. grein laga VJÞ segir:

„Ákvarð­anir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til ráðherra. Úrskurður ráðherra er endan­legur úrskurður á stjórnsýslu­stigi.“

Þetta þýðir að umrædd reglugerð ráðherra er illkæranleg innan stjórnsýslunnar.

Kostirnir væru þá annaðhvort kvörtun til umboðsmanns Alþingis eða dómstólaleiðin. En þá gilda hins vegar almennar reglur að aðilar eigi beinna lögvarðra hagsmuna að gæta.

Þá er málið í raun verst þeim sem talað hafa fyrir hálendisþjóðgarði og kynnt að hann muni í grunninn verða lýðræðislegur með aðkomu sveitarfélaga, hagsmunaaðila o.fl. Aðferðir við stækkun VJÞ nú sýna, að þegar hentar, getur ráðherra fullnýtt vald sitt sem sækja má með óljósum og mistúlkanlegum lögum og skautað milli þeirra eins og sannur keppnismaður án þess að þurfa að hafa áhyggjur af tapi.

Að þessu öllu sögðu tel ég nauðsyn­legt að afturkalla þennan gjörning og taka lög Vatnajökuls­þjóðgarðs til gagngerrar endur­skoðunar. Ef vilji verður fyrir hendi mætti endurtaka hann síðar á þann hátt að ekki leiki vafi á lögmæti stækkunarinnar.


Ágústa Ágústsdóttir
ásamt hagaðilum á Norðurlandi

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...