Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kolefnislosun sauðfjárræktar á Íslandi hefur dregist saman um tæpan fjórðung
Mynd / ghp
Lesendarýni 6. febrúar 2023

Kolefnislosun sauðfjárræktar á Íslandi hefur dregist saman um tæpan fjórðung

Höfundur: Sveinn Rúnar Ragnarsson, stjórnarmaður í deild sauðfjárbænda hjá BÍ.

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru í auknum mæli til hliðsjónar í öllum ákvörðunum sem stjórnvöld á Íslandi taka. Það er jákvæð þróun því vandamálið er margþætt og teygir sig í alla anga þjóðfélagsins.

Sveinn Rúnar Ragnarsson.

Vandinn er hnattrænn og af þeim sökum hafa þjóðir heims komið sér saman um að ríki haldi loftslagsbókhald til að þær aðgerðir sem ráðist
er í séu mælanlegar og samanburðarhæfar á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt svo hægt sé að sannreyna að ríki heims séu að uppfylla þær skuldbindingar sem þau hafa undirgengist.

Losunarbókhald Íslands

Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands er flokkuð eftir því hvaðan losunin á uppruna sinn. Það er gert í samræmi við leiðbeiningar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sem Íslandi ber að fylgja. Flokkarnir eru: (1) Orka, (2) Iðnaðarferlar og efnanotkun, (3) Landbúnaður, (4) Úrgangur, (5) LULUCF (Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt).

Hvert ár skilar Umhverfisstofnun landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda til Evrópusambandsins og skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt síðustu landsskýrslu var losun frá landbúnaði 14% af heildarlosun Íslands árið 2020 (án LULUCF) og hafði dregist saman um 7% frá árinu 1990. Losuninni er skipt niður í eftirtalda flokka í losunarbókhaldi Íslands: (1) Iðragerjun, (2) Meðhöndlun húsdýraáburðar, (3) Nytjajarðvegur, (4) Annað. 59% af losun frá íslenskum landbúnaði mátti rekja beint til búfjárhalds (iðragerjun og meðhöndlun húsdýraáburðar).

Þegar tekið er tillit til þess hvernig losun frá landbúnaði er bókfærð í losunarbókhaldi Íslands þá er erfitt að draga verulega úr losun án þess að draga úr framleiðslu. T.d. að þrátt fyrir að íslenskur landbúnaður yrði eingöngu knúinn með endurnýjanlegum orkugjöfum þá yrði sá ávinningur sem af því hlytist færður sem samdráttur í losun í flokknum Orka. Mikilvægt er að átta sig á þessu þegar rætt er um losun frá landbúnaði. Það hlýtur því að vera lykilatriði að miða við hve mikið af afurðum er verið að framleiða á móti þeirri losun sem myndast í landbúnaði, í alþjóðlegum samanburði.

Kolefnislosun sauðfjárræktar á Íslandi

Umræðan um kolefnislosun sauðfjárræktar á Íslandi er oft og tíðum ósanngjörn í garð bænda. Með hliðsjón af ofangreindu er áhugavert að skoða þróun í losun frá íslenskri sauðfjárrækt (án LULUCF) sem fellur undir landbúnað í losunarbókhaldi Íslands. Frá árinu 2014, þegar flestar vetrarfóðraðar kindur voru í landinu á síðasta áratug, hefur fé fækkað um 24%.

Það leiðir af sér að losun af völdum sauðfjár (iðragerjun og meðferð húsdýraáburðar) hefur að öllum líkindum dregist saman um 24% frá árinu 2014 til dagsins í dag.

Þrátt fyrir það anna íslenskir sauðfjárbændur enn þá innlendri eftirspurn eftir kindakjöti.

Í Riti LbhÍ nr. 142 er að finna ítarlegar upplýsingar um sauðfjárrækt á Íslandi. Þar kemur fram að hérlendis er hæsta þátttaka í skýrsluhaldi í sauðfjárrækt á byggðu bóli, eða 96% ásettra áa. T.d. var einungis 52% af fjárfjölda Noregs í skýrsluhaldi árið 2020. Framleitt magn kindakjöts á ásetta kind á Íslandi árið 2019 var 23,4 kg. Næst á eftir kom Noregur með 18 kg eftir ánna. Af því má draga þá ályktun að gögn um fjölda og afurðir sauðfjár á Íslandi séu þau áreiðanlegustu í veröldinni. Auk þess að hver vetrarfóðruð kind sem losar gróðurhúsalofttegundir á Íslandi skilar talsvert meira af kjöti heldur en erlendar ær í sambærilegum framleiðslukerfum. Það hlýtur að teljast góður árangur og eitthvað sem íslenskir sauðfjárbændur ættu að vera stoltir af.

Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF)

Með tilkomu Parísarsamningsins bar ríkjum að standa skil á mun víðtækari upplýsingum um landnotkun. Stór hluti landnotkunar vegna búfjárhalds fellur undir þennan flokk því um er að ræða allt land sem er nytjað. Skuldbindingar ríkja vegna LULUCF eru í dag tvenns konar. (1) Annars vegar að tryggja að nettólosun verði ekki aukin vegna landnotkunar og skógræktar miðað við tiltekin viðmið til ársins 2030. (2) Hins vegar að mæta verulega auknum kröfum til gæða gagna, upplýsingagjafar og aðferðafræði við mat á losun. Kröfurnar voru auknar til að draga úr óvissu um mat á losun og bindingu vegna LULUCF og til að tryggja að gögn séu samanburðarhæf á alþjóðavettvangi. Því er t.d. mikilvægt að öll kortlagning á beitarsvæðum sé rétt og stærð þeirra ekki of- eða vanáætluð. Auk þess að þær skilgreiningar sem notast er við til að meta hvort land er nytjaland eða ekki séu bændum kunnar.

Ef nettólosun vegna LULUCF eykst til ársins 2030 þá þarf Ísland að greiða fyrir það með losunarheimildum líkt og fyrir aðra losun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Aftur á móti ef það verður nettóbinding er Íslandi heimilt að telja hana á móti annarri losun en þó ekki meira en sem nemur 200 kt. CO2ÍG.

Það eru 4,4% af heildarlosun Íslands árið 2020 sem var 4.510 kt. CO2ÍG (án LULUCF). Íslandi er jafnframt heimilt að færa sama magn bindingar úr LULUCF yfir á aðildarríki ESB og Noreg til að aðstoða þau við að standast skuldbindingar sínar, og öfugt.

Frá árinu 2005 til ársins 2021 átti sér stað nettóbinding í flokki LULUCF upp á 237 kt. CO2ÍG.

Sú tala gæti vissulega breyst með betri gögnum og aðferðafræði við mat á losun úr þessum flokki og því mikilvægt fyrir bændur, forystumenn þeirra og leiðbeiningaþjónustuna að fylgjast vel með þróun þessara mála. Ekki síst í ljósi þess að krafa um samdrátt í losun frá LULUCF verður að óbreyttu innleidd í náinni framtíð þó ekki liggi fyrir hve mikið magn af CO2 ígildum Ísland verður skuldbundið til að binda. Þegar þessi orð eru rituð er þó ljóst að beit búfénaðar í úthaga eða önnur landnotkun bænda hefur ekki valdið því að Ísland standist ekki skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Því er mikilvægt að halda til haga.

Að lokum

Það er nauðsynlegt að meta kolefnislosun frá sauðfjárrækt, og landbúnaði almennt, út frá því hvernig losunarbókhaldið fyrir Ísland er fært og leggja aðrar aðferðir til hliðar. Sérstaklega þegar um er að ræða ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna.

Þá verður ávinningurinn mælanlegur, samanburðarhæfur á alþjóðvettvangi og aðgerðum beint þangað sem líklegast er að þær skili mestum árangri m.t.t. skuldbindinga Íslands.Það er hinn alþjóðlegi mælikvarði á árangur í loftslagsmálum. Íslenskir sauðfjárbændur hafa skilað miklum afurðum á móti því sem þeir losa af gróðurhúsalofttegundum samanborið við bændur í öðrum löndum. Það er mikilvægt að áframhald verði á því og um leið að menntun og vitund stéttarinnar um loftslagsmál verði efld því það er alltaf ráðrúm til bætinga.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar
Lesendarýni 1. mars 2024

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar

Þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu að dregnar eru upp sviðsmyndir sem í eð...

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...

Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor...

Gerist ekkert hjá VG?
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áf...

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
Lesendarýni 19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Nú þurfum við ekki lengur að aka á negldum vetrardekkjum til að tryggja öryggi o...

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera...

Eru auðlindir Íslands til sölu?
Lesendarýni 14. febrúar 2024

Eru auðlindir Íslands til sölu?

„Ef virkjað verður meira mun rafmagnið seljast upp. Það verður alltaf umfram eft...