Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?
Í þessari grein er fjallað um blöndun á eldislaxi við villtan lax sem gerist þegar eldislax sleppur úr sjókvíum og blandast villtum laxi í veiðiám.
Það veldur erfðablöndun og mögulega stofnstærða - rminnkun. Greinin fjallar um mat á áhættunni af slíkri blöndun fyrir villta laxastofna.
Áhættumat erfðablöndunar
Áhættumat erfðablöndunar eða áhættumat Hafrannsóknastofnunar er úthlutunarkerfi sem gagnast aðallega laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta og hefur lítið sem ekkert með náttúruvernd að gera. Strax þegar áhættumatið var gefið út á árinu 2017 og einnig í meðferð málsins á Alþingi Íslendinga á árunum 2018 og 2019 kom fram mikil gagnrýni á það. Áhættumat Hafrannsóknastofnunar er best lýst með umsögn lögfræðings og formanns stangveiðifélags: ,,Það er raunar með nokkrum ólíkindum að veitt sé lagaheimild fyrir því að erfðablanda megi villtan íslenskan lax.“ Erfðablöndunin var síðan staðfest í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem gefin var út vorið 2023. Nú skoða veiðiréttareigendur sína stöðu.
Mín gagnrýni
Hinn 9. febrúar 2023 birti höfundur í Bændablaðinu greinina ,,Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?“. Hinn 9. mars kom andsvar frá Ragnari Jóhannssyni, þáverandi rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, í grein í Bændablaðinu undir heitinu ,,Áhættumat erfðablöndunar útskýrt“. Það vakti síðan sérstaka athygli að málinu var fylgt eftir með fréttatilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar sama dag. Höfundur kom síðan með andsvar í sjö greinum í Bændablaðinu á tímabilinu 27. apríl til 7. september 2023. Skoðum nú ferli málsins frá byrjun ársins 2023 fram til dagsins í dag.
Fyrirhuguð endurskoðun
Í janúar 2023 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um sjókvíaeldi þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir m.a. við áhættumat erfðablöndunar. Áður eða um mitt ár 2020 hafði vísindanefnd sem Alþingi hafði skipað til að rýna áhættumatið einnig komið með alvarlegar athugasemdir. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ,,Samantekt vöktunar vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2022“ kom fram að endurskoðun á áhættumatinu væri væntanlegt síðar á árinu 2023. Það hefur þó ekkert orðið af því og nú eru tæp fimm ár frá síðustu efnislegri endurskoðun á áhættumatinu en lög um fiskeldi kveða á um að það skuli líða mest þrjú ár á milli endurskoðana. Engin efnisleg endurskoðun á árinu 2023 þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir vísindanefndar, Ríkisendurskoðunar og fleiri aðila.
Viðbragðsáætlunin
Starfshópur matvælaráðherra um strok í sjókvíaeldi skilaði af sér skýrslu í maí 2023 og þar var gerð grein fyrir vöktun og viðbrögðum hjá Norðmönnum í tilfelli stroks. Starfshópurinn lagði m.a. til ,,Að kannaður verði möguleiki þess að rekköfun verði nýtt sem aðferð þegar fiskar eru fjarlægðir úr veiðivötnum“. Áður hafði áhættumat Hafrannsóknastofnunar opnað fyrir þann möguleika að fjarlægja eldislax úr veiðiám við endurskoðun á áhættumatinu á árinu 2020 í tilfelli stórra slysasleppinga eftir mikinn utanaðkomandi þrýsting. Jafnframt að gerð yrði viðbragðsáætlun vegna stórra sleppinga úr sjókvíum. Það hefur ekki komið fram hvað er átt við með stórri slysasleppingu eða nákvæmlega hvað viðbragðsáætlunin felur í sér, það hefur ekki verið kynnt svo vitað sé. Í þessu samhengi er bent á að einstökum laxeldisfyrirtækjum er gert skylt að vera með viðbragðsáætlun sem er aðgengileg starfsmönnum og þeim kynnt.
Slysasleppingin
Í ágúst 2023 átti sér stað slysaslepping hjá Arctic Sea Farm í Patreksfirði sem vakti mikla athygli og olli mótmælum. Það voru tæplega 3.500 stórir eldislaxar sem sluppu og hátt hlutfall þeirra var kynþroska. Viðbrögðin við slysasleppingunni í Patreksfirði eru athyglisverð. Hinn 12. september 2023 var haldinn neyðarfundur í matvælaráðuneytinu og í framhaldinu var hvatt til veiða á eldislaxi í ám. Það koma því fyrst viðbrögð um þremur vikum eftir strokatburð, en í Noregi þar sem móðurfélagið er staðsett þá er strax gripið til mótvægisaðgerða undir stjórn opinberrar stofnunar. Fengnir voru til landsins norskir rekkafarar til að fjarlægja sjáanlegan eldislax í veiðiám. Nokkrir íslenskir aðilar fóru einnig í fjölmargar veiðiferðir til að fjarlægja eldislax úr ám. Slysasleppingin í Patreksfirði varð til þess að tillögur Hafrannsóknastofnunar fyrir áhættumat erfðablöndunar um framleiðsluheimildir sem voru til umsagnar voru dregnar til baka.
Nú á að gera áhættumat
Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, ,,Samantekt vöktunar vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2023“, sem gefin var út um sumarið 2024, kemur fram að Alþjóða laxaverndunarstofnunin (NASCO), sem Ísland gekk nýlega inn í aftur, hefur lagt það til við aðildarlönd sín að útbúa áhættumat svipað því norska. Hafrannsóknastofnun stefnir að því að birta slíka greiningu á árinu 2025 þegar allt er komið í óefni. Skoðum nú um hvað áhættumat snýst og hvað norska aðferðarfræðin felur í sér.
Norska áhættumatið
Í Noregi er notað áhættumat þar sem kortlögð er og greind óvissa á frekari erfðabreytingum í villtum laxi vegna innblöndunar á eldislaxi. Áhættumatið er hluti af stjórnsýslunni, grundvöllur ákvarðanatöku til að tryggja sjálfbæra þróun norsks laxeldis í samræmi við norsk og alþjóðleg sjálfbærnimarkmið. Niðurstöður áhættumatsins eru birtar í formi áhættukorts sem ætlað er að veita skilning á áhættuþáttum, áhrifum og afleiðingum erfðablöndunar. Þættir sem hafa áhrif á umfang frekari erfðablöndunar er fyrst og fremst hátt hlutfall eldislaxa á hrygningarsvæðum og viðnámsþróttur villta laxastofnsins við nýrri innblöndun (mynd 1).
Nú eru menn í vanda
Yfir 400 eldislaxar voru fjarlægðir úr fjölmörgum veiðiám seinni hluta ársins 2023 sem raktir voru til slysasleppingarinnar í Patreksfirði. Hlutfall eldislaxa fór yfir sett viðmiðunarmörk í nokkrum ám og allt bendir til þess að það þurfi að minnka framleiðsluheimildir. Við þessu var varað þegar áhættumat Hafrannsóknastofnunar var lögleitt, afleiðingin yrði m.a. færri atvinnutækifæri og öllum yrði refsað fyrir ófullnægjandi frammistöðu eins rekstraraðila. Nú er Hafrannsóknastofnun í vanda. Að vísu er alltaf hægt að breyta forsendum í reiknilíkaninu og fá þá niðurstöðu sem er hagfelld og óskað er eftir af þeim sem hafa af því fjárhagslegan ávinning. Í þessu sambandi er vert að benda á að Hafrannsóknastofnun er ekki lengur í þeirri stöðu eins og við endurskoðun á árinu 2020 að hagræða forsendum eftir útgáfu skýrslna Ríkisendurskoðunar og vísindanefndar og athugasemda fleiri aðila.
Nú eru fleiri byrjaðir að reikna
Landssamband veiðifélaga réði ráðgjafarfyrirtækið Arev til þess að fara yfir þann þátt áhættumats Hafrannsóknastofnunar sem lýtur að áhættumatslíkani fyrir ágengni eldislax í laxveiðiám á Íslandi. Arev gerði fjölmargar athugasemdir við áhættumat erfðablöndunar í skýrslu sinni, ,,Álitsgerð um áhættumat Hafrannsóknastofnunar“, sem gefin var út í maí 2024. Í nóvember sama ár gaf Arev út ,,áhættumat Arev“ þar sem er að finna valdar veiðiár sem fóru yfir viðmiðunarmörk á árinu 2023. Nú eru aðrir byrjaðir að reikna og kemur ekki á óvart að það standi á endurskoðun áhættumatsins frá Hafrannsóknastofnun þar sem fyrirséð er að ef það á að fylgja því áfram þarf að lækka heimildir, mun það vera mjög umdeilt, ósanngjarnt fyrir marga og ekki hugnast fjölmörgum stjórnamálamönnum, sveitarstjórnarmönnum og fleirum.
Breytast vinnubrögðin?
Höfundur þekkir þetta mál mjög vel og hreinlega ofbýður þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á síðustu árum. Áhættumat Hafrannsóknastofnunar hefur valdið tjóni á íslenskum laxastofnum og engum til gagns nema erlendum fjárfestum. Það hafa verið skiptar skoðanir vísindamanna innan Hafrannsóknastofnunar og virðist nú vera kominn vísir að skynsamlegri framþróun í málinu. Vonandi verður þróunin sú að taka upp áhættumat að norskri fyrirmynd og lagt verði niður núverandi áhættumat, a.m.k. við úthlutun framleiðsluheimilda. Komið verði á skynsömum mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón á íslenskum laxastofnum vegna laxeldis í sjókvíum. Sú jákvæða þróun hefur einnig átt sér stað að á vegum atvinnuvegaráðuneytisins er nú hópur erlendra sérfræðinga að rýna áhættumat erfðablöndunar og munu niðurstöðurnar vonandi birtast fljótlega.
Að lokum
Það á ekki að vera hlutverk örfárra opinberra starfsmanna að úthluta auðlindum sem fram að þessu hafa ekki valdið hlutverki sínu. Úthlutun auðlinda á að vera verkefni stjórnmálamanna eftir að hafa fengið ráðgjöf, s.s. frá sérfræðingum frá Hafrannsóknastofnun og fleiri aðilum. Ákvarðanataka sem á fyrst og fremst að taka mið af hagsmunum Íslendinga, s.s. veiðiréttareigenda, starfsmanna fiskeldisfyrirtækja og almennings en ekki erlendra fjárfesta. Það má alltaf deila um hvort leyfa eigi sjókvíaeldi á norskum laxi á Íslandi en á meðan það er leyft þarf að sýna íslenskum hagsmunum og auðlindum landsins virðingu, stuðla að pólitískum ákvarðanatökum sem hefur náttúruvernd að leiðarljósi og að það náist sæmileg sátt um atvinnugreinin