Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Endurtekin mistök
Mynd / Bbl
Skoðun 24. apríl 2020

Endurtekin mistök

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Efnahagskerfi heimsins standa gjörsamlega á haus þessa dagana vegna áhrifa af COVID-19 sjúkdómsfaraldrinum. Hrun hefur orðið í mörgum atvinnugreinum og olíuframleiðendur í Bandaríkjunum eru meira að segja farnir að borga með olíunni til geymslu.

Þrátt fyrir stöðuna í efnahagsmálum heimsins og hrun á olíuverði m.a. á Brent markaði niður fyrir 10 dollara á tunnu þá virðist íslenskur veruleiki stundum vera á öðru tilverustigi. Hér sýnist manni eldsneytisverð t.d. alls ekki fylgja lögmálum hagfræðinnar um framboð og eftirspurn og lækka í takt við stöðuna á heimsmarkaði. Að vísu er ódýrt að skella allri þeirri skuld við neytendur á innflytjendur og söluaðila, því töluverður hluti verðsins er tilbúinn íslenskur skattheimtuveruleiki. Hann fylgir engum markaðslögmálum, heldur aðeins duttlungum stjórnmálamanna.

Það er fleira í íslenska hagkerfinu sem fylgir engum venjulegum lögmálum. Þar eru vaxtamálin ofarlega á blaði. Nú eru t.d. stýrivextir Seðlabankans komnir niður í 1,75% á meðan verðbólgan er 2,1%. Þrátt fyrir lækkun stýrivaxta sem æpt hefur verið á í mörg ár, þá er sú lækkun ekki að skila sér til venjulegra lántakenda. Innlánsvextir eru síðan nær engir og ef mönnum er á annað borð hleypt inn í bankana, þá verða menn að greiða sérstaklega fyrir það að sækja þangað þá peninga sem þeir lánuðu bönkunum til að spila með.
Nú ganga menn í gegnum margháttaðar afleiðingar af sjúkdómsfaraldri. Þar eru efnahagslegar afleiðingar stærð sem enginn veit hver verður. Eitt verður þó alveg á tæru eins og alltaf, bankar og slík fjármálafyrirtæki munu hafa allt sitt á þurru hvað sem á gengur. Þó allur almenningur verði látinn borga brúsann af þeirri efnahagslægð sem við siglum nú inn í eins og alltaf áður, þá munu bankar og aðrar fjármálastofnanir vera stikkfrí í þeim efnum ef dæma má af viðbrögðum ráðamanna að undanförnu.

Í efnahagskrísunni 2008, sem var bein afleiðing af glæfraskap samviskulausra og siðspilltra spilafíkla á fjármálamörkuðum, voru gerð fjölmörg mistök. Ein stærstu mistökin hér á landi sem kostuðu tugþúsundir manna aleiguna var að taka ekki verðtrygginguna úr sambandi, stöðva vaxtatöku á peningum og setja greiðslustöðvun á húsnæðislán. Ekki verður annað skilið en að nú eigi að endurtaka nákvæmlega sömu mistökin.

Afleiðingarnar af mistökunum í kreppunni 2008 urðu þær að stóreignamenn stórgræddu þegar venjulegar fjölskyldur í fasteignakaupum komust í greiðsluþrot. Eignamönnum var gefið skotleyfi á þetta fólk og rökuðu til sín eignum þeirra á hrakvirði. Fengu snillingarnir meira að segja meðgjöf frá ríkinu til þeirra hryðjuverka. Þeir fengu afslátt á krónukaup hjá Seðlabankanum fyrir það að koma með gjaldeyri úr erlendum skúmaskotum sem þeim hafði tekist að skjóta undan fyrir hrun.

Í ýmsum rekstri eins og ferðaþjónustu var í einhverjum tilfellum búið til mikið misvægi þegar sumir fengu að fullu afskrifaðar skuldir en aðrir ekki. Nú virðist þetta líka vera að endurtaka sig, m.a. hjá þeim bændum sem farið hafa út í að byggja upp í ferðaþjónustu. Í stað þess að menn fái að stöðva greiðslur tímabundið þá virðist eiga að bjóða upp á flókna og rándýra endurfjármögnunarsamninga. 

Nú stendur ríkið uppi með það að eiga tvo stóra banka og geta í gegnum þá stýrt aðgerðum til að koma í veg fyrir að brjálæðið frá 2008 endurtaki sig. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort stjórnmálamenn hafi kjark til þess með fjársterka peningamenn andandi ofan í hálsmálið á þeim. Þá mun líka koma í ljós fyrir hverja íslenskir ráðamenn eru í raun að vinna. 

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?
Skoðun 16. maí 2022

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?

Mikið er ritað og rætt um hækkandi vöruverð og dýrari matarinnkaup þessi misseri...

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum
Skoðun 12. maí 2022

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum

Stríðið í Úkraínu hefur sett hrávörumarkaði heimsins á hliðina, breytt jafnvægi ...

Ómetanleg verðmæti
Skoðun 12. maí 2022

Ómetanleg verðmæti

Vorið er tími vonar og væntinga og þá hýrnar yfir Íslendingum, ekki síst nú efti...

Bændur eru hluti af lausninni
Skoðun 12. maí 2022

Bændur eru hluti af lausninni

Nýjar matarvenjur og sívaxandi áhersla á breyttar framleiðsluaðferðir, m.a. í la...

Heimili í dreifbýli þurfa öflugar eldvarnir
Skoðun 5. maí 2022

Heimili í dreifbýli þurfa öflugar eldvarnir

Mörg heimili í dreifbýli eru þannig í sveit sett að langt er í næstu slökkvistöð...

Hækkanir matvælaverðs í heiminum eiga sér vart fordæmi
Skoðun 28. apríl 2022

Hækkanir matvælaverðs í heiminum eiga sér vart fordæmi

Gleðilegt sumar, ágæti lesandi, og takk fyrir veturinn sem hefur verið á margan ...

Ljósin blikka
Skoðun 28. apríl 2022

Ljósin blikka

Viðvörunarljós blikka nú um allan heim vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í matvæla...

Lúpína er eina vonin á erfiðustu svæðunum
Skoðun 7. apríl 2022

Lúpína er eina vonin á erfiðustu svæðunum

Uppblástur í Norðurþingi er mikill og þrátt fyrir áratuga sáningu grasfræs og no...