Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Úthagi í slæmu ástandi þegar litið er til heildarinnar. Ekki gengur að miða einvörðungu við framleiðni ofan á torfunni.
Úthagi í slæmu ástandi þegar litið er til heildarinnar. Ekki gengur að miða einvörðungu við framleiðni ofan á torfunni.
Lesendarýni 27. október 2015

Beit – Ástand landsins skiptir máli

Höfundur: Ólafur Arnalds
Að undanförnu hafa verð talsverðar umræður um beitarmál á Íslandi og í sumar ritaði Anna Guðrún Þórhallsdóttir (AGÞ) pistla hér í Bændablaðið um þau efni og er henni þökkuð skrifin. Full ástæða er til að halda þessari umræðu áfram, en í þessari grein er einkum fjallað um ástand lands (e. land condition). 
 
Áhrif landnýtingar á borð við beit á vistkerfi er háð ástandi landsins. Mat á ástandi lands er þverfaglegt viðfangsefni víða um lönd, þar sem fagfólk með menntun í ýmsum greinum náttúrufræði leggur saman. Slíkt samstarf er orðið mjög áberandi í bandarískum beitarvísindum og úthagavistfræði. Algengt er að miða ástand lands við a) getu (potential) viðkomandi svæðis, b) „eðlilegt ástand“ sé það þekkt, eða c) sett markmið um endurheimt landgæða, sem eru háð þáttum er móta getu hvers svæðis, svo sem vatnsheldni jarðvegs, loftslagi o.fl. Vitaskuld er einnig litið til beitarsögu hvers svæðis. Þættir sem algengt er að mæla eða meta eru jarðvegsrof, gróðurhula, tegundasamsetning og framleiðni gróðurs, fræframleiðsla, ísig vatns, sem og magn kolefnis og niturs í moldinni. Þessir þættir endurspegla vel virkni hringrása vatns, næringar og orku í vistkerfinu (sjá „Að lesa og lækna landið“; moldin.net). Þættir sem móta eðlisumhverfið, svo sem jarðvegsrof og nærveður, eru ennfremur mjög mikilvægir kvarðar á ástand lands. Gríðarlegur munur er á gildi allra þessara þátta eftir því hvert ástand landsins er. Óstöðugt yfirborð og jarðvegsrof eru lokastig hnignunar þar sem ört gengur á auðlindir eða vistkerfi eru hrunin. Með öðrum orðum: illa gróið land, auðnin, er táknmynd hrunins vistkerfis. Þá þarf í raun ekki frekari vitnana við. Slík kerfi þola afar illa að gengið sé á þann litla lífræna forða sem eftir er. Traðk sauðfjár og beit hefur áhrif á myndun lífrænnar jarðvegsskánar sem gerir yfirborðið stöðugt og leggur til nitur og fræbeð fyrir nýgræðing og stuðlar að gróðurframvindu. Sauðfé er jafnframt sólgið í nýgræðing og tiltölulega lítil beit getur stöðvað gróðurframvindu á illa grónum svæðum. Því miður er illa farið land mjög algengt á svæðum sem nýtt eru til beitar á Íslandi, ekki síst á gosbeltinu, en á mörgum svæðum er gróðurfar og uppskera langt frá því að vera í samræmi við getu viðkomandi svæða. 
 
Ástand lands er afar mikilvægt við ákvörðun á beit, ekki síst þar sem ástandið er slæmt eins og víða er hérlendis. Öðru máli gegnir um það land er vel gróið eða þar skógur sækir svo fram að hann er að verða allsráðandi (niðri til vinstri á þríhyrningnum á meðfylgjandi mynd). Þá er sjálfsagt að beita vistfræðilegum ráðum til að auka á fjölbreytni landsins, m.a. með því að viðhalda skóglausum úthaga með beit o.s.frv, eins og víða er gert, meðal annars í Noregi og Svíþjóð, eins og bent er á í fyrrnefndri grein AGÞ. Annars staðar, m.a. í Bretlandi, Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og víðar eru frjósöm,vel gróin úthagasvæði, graslendi, blómlendi o.fl., sem þykir mikilvægt að viðhalda og vernda fyrir ágangi skógar.
 
Slík svæði eru oft nýtt til mjólkur- og nautgripaframleiðslu, eins og í raun tíðkast hér á landi. En þessar staðreyndir breyta engu um það að hlífa ætti landi sem er í slæmu ástandi. Þá ber þess að geta að víða er talin full ástæða til að auka skógarhulu á ný í stað þess að takmarka hana, m.a. út frá margþættum náttúruverndarsjónarmiðum. Það á m.a. við um skosku Hálöndin (sjá dæmisögu á moldin.net – landnýting) og Írland þar sem skógi var, eins og á Íslandi, nánast útrýmt. Í Svíþjóð er um 66% skógarþekja og jafnfram mikil akuryrkja. Í Noregi er skóglendið um 38% en þar er einnig mikið um skóglaust fjalllendi, akuryrkjuland o.fl. Skógar Danmerkur eru um 12% en drýgstur hluti landsins er undir fjölbreyttri landbúnaðarframleiðslu (tölur um skóga: nordicforestry.org). Skógum er þó haldið við á viðkvæmasta landinu eins og á sandsvæðum Jótlands og skógar veita landbúnaðarlandinu gott skjól og auka framleiðni. Á Íslandi er skógarhulan rétt rúm 1%, stór hluti landsins er illa rofinn og gróðurlendi eru víða ákaflega rýr miðað við getu. Hér er engu saman að jafna. Náttúrufar, og þar með talin jarðvegsgerð, er með allt öðrum hætti en í nágrannalöndunum. Hérlendis þróuðust vistkerfin án beitar spendýra eftir ísöldina – búfjárbeit er ekki „náttúrulegur“ þáttur í starfsemi vistkerfa á Íslandi með sama hætti og í nágrannalöndunum.
 
Stundum heyrist að beit á illa förnu eða lítt grónu landi sé eðlilegur þáttur í menningararfleið okkar (og að beita eigi nær allt land). Það er eins og að leggja blessun sína yfir brennslu á afar mengandi efnum til orkuframleiðslu og verja það með því að mengunin og vaxandi styrkur gróðurhúsaloftegunda sé eðlilegur hluti menningarinnar. En vissulega þekkjast þau sjónarmið. Beit á hins vegar fullan rétt á sér þar sem skilyrði leyfa og hún getur, við slíkar aðstæður, verið mikilvægur þáttur í að varðveita landslagsheildir og búsvæði, að ekki sé talað um búsetu í strjálbýli. Sannarlega getur beit reynst drjúg í baráttunni við óhefta útbreiðslu ágengra framandi tegunda á borð við lúpínu, eins og AGÞ skrifar um í grein í Bændablaðið.
Í Bandaríkjunum hafa stór svæði verið undanskilin akuryrkju og beit (þurr svæði á sendnum jarðvegi). Í Evrópu er mikið lagt upp úr því að aðgreina land og friða það fyrir landnýtingu sem ekki hentar með tilliti til umhverfissjónarmiða. Styrkveitingar eru háðar ströngum skilyrðum og m.a. sönnun á að umhverfissjónarmið séu höfð í hávegum (e. cross-compliance). En önnur landnýting getur notið stuðnings einmitt til að varðveita menningarverðmæti; stallaræktun í Evrópu (e. terraces) er e.t.v. frægasta dæmið, enda viðhaldið mannvirkjum og menningu allt frá tímum Rómverja og Mára. En nýting sem viðheldur hrundum vistkerfum á ekkert sameiginlegt með slíkri „hugmyndafræði“.
 
Mörg úthagasvæði mynda mósaík lands sem er í afar misjöfnu ástandi. Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að þegar þannig hagar að hluti úthaga er vel gróinn en inn á milli að mestu auðn og rofsvæði, gengur ekki að meta landið með því að reikna beitarhæfni aðeins út frá framleiðni og ástandi góða hluta beitilandsins og telja þar með að beitiland sé nóg. Sauðfé leitar mikið út á rofna landið og heldur niður nýgræðingi, jafnvel þótt vel grónir hlutar svæðisins séu tiltölulega lítið nýttir. Þar sem gróðurhula svæðis er að hluta til mjög rofin og skert telst ástand beitilandsins í heild vera slæmt, jafnvel þótt sumir hlutar þess séu í góðu ástandi.
 
Beit sauðfjár hefur haft mikil áhrif á vistkerfi okkar í gegnum tíðina og vitaskuld er brýnt að nýta ekki þau svæði til beitar sem verst er komið fyrir. Það er tími til kominn að Íslendingar geri sér grein fyrir og viðurkenni að ástand landsins er afar misjafnt. Sums staðar er gróðurhula samfelld og starfsemi vistkerfa tiltölulega óskert. Slíkt land má nota á margvíslegan hátt: til beitar, skógræktar og annarra fjölþættra nota. Annars staðar er landið í tötrum eða svo viðkvæmt að ekki ætti að koma til greina að beita það (neðri hluti þríhyrnings til hægri). Aðeins lítill hluti framleiðslu á dilkakjöti fer fram á verst farna úthaganum (á að giska 15- 20%) og það er tiltölulega einfalt langtímaverkefni að breyta beitarháttum á Íslandi og friða verst farna og viðkvæmasta landið fyrir beit. Friðun ein og sér á slíkum svæðum getur stuðlað að uppbyggingu á hringrásum vatns, næringar og orku; og um leið stuðlað að endurheimt búsvæða og vistkerfa sem hafa mikið gildi fyrir fjölbreytileika landslags og lífs. Það eru engin rök fyrir því að beita eigi allt land, sama í hvaða ástandi það er, rétt eins og að engin ástæða er til þess að friða allt land. Skógrækt er hins vegar annað viðfangsefni og að hluta til óskylt. Það er verkefni samfélagsins að koma sér saman um hve stór hluti lands verður tekinn undir skógrækt. Þá geta vel þroskaðir skógar og beitarnýting farið vel saman. Rétt er að gera skýran greinarmun á trjátegundum, einsleitur ræktaður greniskógur hefur t.d. allt aðra eiginleika en náttúrulegur birkiskógur, sem getur verið ágætis beitiland sé skógurinn ekki of þéttur.  En það er ljóst að endurheimt landkosta á illa förnu landi, sem og endurheimt birkiskóga og votlenda hljóta að vera meðal forgangsverkefna í umhverfismálum þjóðarinnar.
 
Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Heimasíða: www.moldin.net

3 myndir:

Skylt efni: beit | ástand lands

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...