Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Aðventukveðja
Mynd / ÁL
Af vettvangi Bændasamtakana 15. desember 2023

Aðventukveðja

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands.

Það er á þessum árstíma sem er við hæfi að setjast niður og horfa yfir farinn veg, velta fyrir sér því sem náðist að framkvæma á árinu og huga að þeim verkum sem eftir eru.

Trausti Hjámarsson.

Það er einmitt það sem gerir starf bóndans svo áhugavert, það eru alltaf áskoranir, sorgir og sigrar, ný og síendurtekin verkefni og alltaf eru árstíðaskipti. Sömu verkin banka á dyrnar á hverju ári og þá er einmitt mikilvægt að ganga til sinna verka jákvæður og glaðsinna og takast á við verkefnin með þeim áskorunum sem þeim fylgja. Það er ekki alltaf auðvelt en sauðfjárbændur hafa sýnt á undanförnum árum einstaka þrautseigju og útsjónarsemi við erfiðar aðstæður. Það er einlæg trú mín að á næstu misserum munu sauðfjárbændur uppskera fyrir erfiði sitt. Því er mikilvægt að trúa. Það er nauðsynlegt að setja fram skýra stefnu í átt að bættri afkomu, bæði sem einstaklingar hver og einn fyrir sig og einnig á okkar félagslega grunni.

Vettvangurinn er á deildarfundi sauðfjárbænda sem haldinn verður dagana 12. og 13. febrúar.

Eitt stærsta verkefni sauðfjárbænda, á árinu sem senn er á enda, er baráttan við riðuna. Við munum flest eftir riðutilfellum í Miðfirði á vordögum og svo aftur í Húna- og Skagahólfi í haust. Það er átakanlegt fyrir bændur að horfa á eftir sínum bústofni hverfa á braut og nístandi sorglegt að fylgjast með nýjustu tilfellunum.

En það eru nýir tímar að banka á dyrnar. Ræktun gegn riðu er hafin af fullum þunga um allt land og verður ekki annað séð en að allir villtustu draumar okkar um það hvernig við getum losnað við þennan vágest séu að raungerast. Flest bendir til þess að við séum auðug af verndandi arfgerðum í íslenska sauðfjárstofninum með ARR genasamsætuna þar fremsta í flokki. Við erum að stíga örugg og vel undirbúin skref, smátt og smátt losnum við undan niðurskurði og riðukvíða sem hefur á mörgum svæðum haft veruleg neikvæð áhrif á samfélög bænda. Með ræktun verndandi arfgerða eru sauðfjárbændur að stíga risastór skref í áttina að frelsi og umtalsvert breyttum starfsskilyrðum.

Það hefur verið ánægjulegt að finna fyrir því hversu samstillt samfélagið hefur verið í þeirri vinnu sem við kemur riðunni. Sveitarfélög, einstaklingar og stofnanir hafa sýnt ótrúlegan vilja til að koma að þessu verkefni með okkur. Ríkið hefur ekki látið sitt eftir liggja og tryggt sauðfjárbændum fjármagn til að kosta að hluta verkefnið „ræktun gegn riðu“. Nýjasta aðgerðin var að tilkynna bændum um niðurgreiðslu á sæði úr hrútum sæðingastöðvanna sem bera verndandi og eða mögulega verndandi arfgerðir. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framgang þessa verkefnis að hafa ríkið með okkur á vagninum. Það mun auðvelda og flýta fyrir ræktuninni og spara í framtíðinni mikla fjármuni ríkisins og samfélagsins alls. Við getum hlakkað til þess tíma þegar við verðum hætt að skera heilu hjarðirnar ásamt öllum þeim erfiðleikum sem því hafa fylgt.

Það var vitað að bændur myndu ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að notkun á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum. Þátttaka í sæðingum hefur verið með allra mesta móti og hefur mikið mætt á starfsfólki stöðvanna og ekki síður á hrútakostinum.

Þegar sæðingavertíðin var hálfnuð var búið að senda umtalsvert meira sæði frá stöðvunum en á sama tíma í fyrra. Rétt um 53% af öllu sæði sem hefur verið sent frá Sauðfjársæðingastöð Suður- lands hefur verið úr ARR hrútum stöðvarinnar og 64% frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands. Til hamingju, íslenskir sauðfjárbændur!

Ég óska sauðfjárbændum góðrar fengitíðar, gleðilegra jóla, friðar og farsældar á nýja árinu.

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...