Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Á mannamáli
Af vettvangi Bændasamtakana 6. júlí 2023

Á mannamáli

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Um langa hríð var landbúnaðurinn helsta atvinnugrein Íslendinga, þar til sjávarútvegurinn tók yfir og varð aðalatvinnuvegur okkar.

Íslenskir bændur hafa þrátt fyrir það lagt sitt af mörkum og skilað góðu verki í aldanna rás og vonir standa til að svo verði áfram, enda bera þeir ábyrgð á fæðuöryggi landsins ef í harðbakkann slær. En það er til lítils að tala um fæðuöryggi án þess að nefna heilsu og velferð dýra í sömu andrá enda eru hugtökin samofin í þjóðfélagslegri umræðu líkt og borið hefur á síðustu misseri.

Bændasamtök Íslands eru hagsmunasamtök landbúnaðar á Íslandi og sem slík taka þau afstöðu með öllum búskap og landbúnaðartengdum atvinnugreinum sem starfa í samræmi við lög. Bændur sem búfjárhaldarar bera mikla ábyrgð þegar kemur að því að tryggja heilsu og velferð dýra í samræmi við þau markmið sem koma fram í lögum um velferð dýra. Ætli bóndi að halda dýr þarf að huga að ýmsum atriðum sem snúa að velferð dýranna ásamt því að vera með viðunandi aðbúnað sem hæfir því dýri sem haldið er. Þá hefur það ekki staðið á bændum að innleiða aðbúnaðarkröfur sem er ætlað að stuðla að velferð dýra svo þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Tökum þátt í umræðunni

Opin og hreinskiptin upplýsingagjöf til fagfólks, eftirlitsaðila og almennings er mikilvægur þáttur í dýravelferð. Ein mikilvægasta forsenda þess að sátt ríki í samfélaginu um að nýta dýraafurðir til matvælaframleiðslu er að velferð dýra sé tryggð af þeim sem um þau annast og að eftirlit með dýrahaldi sé virkt og gegnsætt. Það þarf hins vegar að vera sjálfsögð krafa almennings hér á landi að innfluttar dýraafurðir séu sannanlega framleiddar við sambærilegar aðstæður og gilda hér á landi. Íslenskir bændur vilja ekki gefa eftir í dýravelferð en þá hlýtur það að vera sanngjörn krafa að innflutt samkeppnisvara sé framleidd við sömu eða sambærilegar aðstæður og hér á landi með velferð dýra að leiðarljósi.

Á grundvelli 2. mgr. 64. gr. búvörulaga er ráðherra heimilt að banna innflutning á afurðum dýra og plantna sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu eða kunna að fela í sér leifar lyfja og annarra aðskotaefna umfram það sem leyft er við framleiðslu hér á landi og geta verið hættuleg heilsu manna. Ekki veit ég til þess að ráðherra landbúnaðarmála hafi beitt umræddri heimild þrátt fyrir að hún hafi verið í lögunum um allnokkra hríð.

Vegferðin

Á liðnu þingi var til umfjöllunar þingmannafrumvarp frá einum flokknum í stjórnarandstöðu um bann við blóðmerahaldi sem hefur verið lagt fram síðastliðin þrjú löggjafarþing, eða frá árinu 2020. Þá hefur umfjöllun um svínarækt farið mikinn síðustu misseri á völdum fjölmiðlum. Viðbrögðin frá dýraverndarsamtökum og virkum í athugasemdum sýna mikilvægi málefnisins og umræðan er af hinu góða þótt málefnið sé umdeilt. Umræðuna hefur þó skort yfirsýn og oft og tíðum verið tilfinningaþrungin. Þá
hlýtur það að sæta furðu að þeir sem tala fyrir lífsstíl sem á að vera laus við neyslu á öllum dýraafurðum, þurfa ætíð að nefna bann við búfjárhaldi og kjötneyslu á sama tíma og yfirleitt í sömu setningunni.

Hjá Bændasamtökunum starfa bændur í níu búgreinadeildum, hvort sem það er kjöt, fiskur, grænmeti eða framleiðsla á öðrum afurðum. Bændasamtökin munu því alltaf standa vörð um þessar greinar landbúnaðarins. En þegar stjórnvöld leggja í þá vegferð að ætla sér að banna atvinnustarfsemi byggða á undantekningartilfellum og hæpnum staðreyndagrunni er því sérstaklega mikilvægt að yfirstíga umræðuna og nálgast hana á þeim grunni sem hún raunverulega snýst um. Atvinnufrelsi og atvinnuréttindi.

Því hvað sem fólki kann að finnast um viðkomandi starfsemi varðar bann við atvinnutengdri starfsemi stjórnarskrárvarin réttindi bænda sem varin eru af 75. gr. stjskr. en þar segir að bönd verði aðeins sett á atvinnustarfsemi manna með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Almannahagsmunir geta hins vegar aldrei byggt á persónulegum skoðunum fólks. Bann við atvinnustarfsemi sem menn hafa þegar tekið upp og eiga fjárhagslega afkomu sína undir varða síðan hagsmuni sem teljast til eignarréttinda sem njóta verndar 72. gr. stjskr.

Við getum haft skoðanir á ýmsum þáttum og greinum atvinnulífsins, verið á móti álframleiðslu, frekari virkjunum, kjötneyslu og fiskeldi – í raun hvaðeina. Við getum hins vegar ekki litið svo á að atvinnu- og eignarréttindi annarra, jafnvel fárra aðila í viðkomandi starfsgrein, séu virt að vettugi vegna þess að fólki líkar ekki starfsemin. Sé það raunin, þá tel ég að við þurfum þá fyrst að taka samtal um hvernig ný stjórnarskrá skuli hljóma.

Nýtt Bændablað kom út í dag

Opið bréf til forsætisráðherra
Lesendarýni 26. september 2023

Opið bréf til forsætisráðherra

Nú styttist í jólin og í nýtt ár. Í landinu okkar eins og öðrum löndum um heimin...

Kvikmyndin Konungur fjallanna
Lesendarýni 25. september 2023

Kvikmyndin Konungur fjallanna

Bíóhúsið á Selfossi var troðfullt af fólki sunnudagskvöldið 10. sept. sl. þar se...

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023
Lesendarýni 22. september 2023

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023

Í júní síðastliðnum samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sérstakar ráðst...

Landsbyggðin lifi
Lesendarýni 15. september 2023

Landsbyggðin lifi

Samtökin Landsbyggðin lifi voru stofnuð formlega árið 2001 sem íslenski armur sa...

Brókarvatn og borusveppir
Lesendarýni 14. september 2023

Brókarvatn og borusveppir

Eitthvað var það. Jafnvel eitthvað áhugavert. En um leið og ég settist niður til...

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands
Lesendarýni 13. september 2023

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands

Samtökin Landvernd og Vinir íslenskrar náttúru (natturuvinir.is) stóðu fyrir nok...

Til í samtalið við bændur
Lesendarýni 12. september 2023

Til í samtalið við bændur

Ég fór á fund Bændasamtakanna á Selfossi á dögunum. Þetta var lokafundur í funda...

Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur
Lesendarýni 11. september 2023

Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og grein Ragnars Jóhannssonar, rannsók...