Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Land Roverinn er í mjög góðu standi miðað við að vera rúmlega sextugur. Hvalbakurinn er til að mynda laus við ryð.
Land Roverinn er í mjög góðu standi miðað við að vera rúmlega sextugur. Hvalbakurinn er til að mynda laus við ryð.
Mynd / ÁL
Líf og starf 28. júlí 2023

Vann gamlan Land Rover

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Guðmundur Líndal Pálsson vann fyrsta vinninginn í happdrætti á sumarhátíð Íslandrover í Árbliki í Dalabyggð um síðustu helgi, sem var Land Rover frá 1962.

Guðmundur Líndal Pálsson og Ingibjörg Anna Björnsdóttir, frá Efri-Hundadal, eru nýir eigendur gamals Land Rover. Mynd / Ingibjörg Gunnlaugsdóttir

Sjálfur átti Guðmundur Land Rover, mjög sambærilegan þeim sem hann vann á dögunum, en seldi fyrir nokkrum árum. Hann hefur séð eftir þeirri sölu alla tíð og er því himinlifandi að vera kominn með annan í hendurnar. „Ég sel þennan bíl ekki frá mér, eins og ég gerði með hinn,“ segir Guðmundur. Hann er búsettur nokkra kílómetra frá mótsstaðnum og átti því auðvelt með að koma fengnum heim.

Keypti 36 miða

„Ég keypti svolítið marga miða – ég skal viðurkenna það,“ segir Guðmundur, en hann og fjölskyldan festu kaup á 36 miðum. Hann gerði sér engar vonir um að hreppa vinninginn, enda versluðu flestir mótsgestir nokkra miða, og sumir mjög marga, þar sem verðið var einungis þúsund krónur. Fólki var frjálst að kaupa eins marga miða og það vildi. Eina skilyrðið var að viðkomandi væri á staðnum og tæki strax við bílnum eftir útdrátt.

„Það er alveg dýrðlegt að keyra þetta – maður fer svo langt aftur í tímann. Maður sest inn og það kemur einhver sérstök lykt sem er alltaf í Land Rover,“ segir Guðmundur. Hljóðið frá vélinni minnir á gamlar Massey Ferguson dráttarvélar og ekki kemur til greina að flýta sér, enda komast bílarnir ekki mikið hraðar en 70–80 kílómetra á klukkustund.„Ég hef gaman af því að keyra um á svona gömlum bílum. Það er flott að vera á þessu hérna innan sveitar og skrölta á þessu í vinnu eða búðina. Það er alltaf tekið eftir manni,“ segir Guðmundur. Hann er vélvirki og starfar sem verkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal.

Núna telur Land Rover-safn Guðmundar þrjá bíla, en fyrir á hann Land Rover Discovery frá 1998 og Range Rover frá 1972. „Nú get ég valið bíl eftir því í hvernig skapi maður er,“ segir Guðmundur.

Í nokkuð góðu standi

Þótt bifreiðin sé rúmlega sextug, þá er hún í nokkuð góðu standi, þar sem Land Roverfeðgarnir frá Akureyri, Óttar Ingason og Hrannar Ingi Óttarsson, voru búnir að lappa talsvert upp á hann. Helst má nefna að þeir skiptu um hvalbak og fóru yfir bremsur og rafkerfi. Guðmundur vonast því til að geta komið bílnum í gegnum skoðun fyrir lok sumars. Það helsta sem þarf að gera er að sjóða í eða skipta um aftasta hlutann af grindinni, sem er illa farin af ryði. „Ég myndi allavega ekki hengja kerru aftan í þetta. Hún myndi vera fljót að yfirgefa þig,“ segir Guðmundur og hlær.

Guðmundur hefur ekki getað keyrt bílinn mikið, þar sem hann glímir við meiðsl á fæti og á erfitt með að beita þungri kúplingunni. Hann tók þó smá rúnt við mótsvæðið og segir Guðmundur bílinn vera afar góðan og að hann hafi ekki fundið alvarlegt slit í fljótu bragði.

Guðmundur og sonur hans festu spotta við bílinn til að koma honum heim, þó hann gæti keyrt á eigin vélarafli. Ekki var um langan veg að fara, en Guðmundur og fjölskylda búa í Efri-Hundadal, sem er skammt frá Árbliki.

Klár fyrir næsta mót

Guðmundur segist ætla að mála bílinn, en hann glímir við þá togstreitu að þurfa að velja réttan lit. Upphaflega var bíllinn blár og það sé ákveðin sjarmi í að gera bílinn eins upprunalegan og hægt er. Hins vegar finnst honum dökkgrænn mun flottari. Fjölskyldan mun þurfa að komast að niðurstöðu fyrr en síðar, enda hefur Guðmundur sett stefnuna á að gera bílinn mjög góðan í vetur og keyra á honum á sumarhátíð Íslandrover á næsta ári.

Guðmundur hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um Land Rover, en hann er alinn upp á sveitaheimili og kynntist hann bílategundinni í gegnum foreldra sína. Hann hefur verið félagi í Íslandrover frá því nokkrum árum eftir að klúbburinn var stofnaður fyrir 20 árum. Enn fremur hefur Guðmundur reynt að mæta á allar sumarhátíðir Íslandrover, þar sem félagsskapurinn sé sérlega skemmtilegur.

Guðmundur segir að þetta sé mikið fjölskyldusport. Foreldrar hans búa á bæjartorfunni og er hann oft að hjálpa föður sínum með viðgerðir á gömlum Range Rover- bílum. „Svo er ég búinn að smita öll börnin, þau eru orðin vitlaus í þetta – vilja öll fá að keyra gamla bílinn. Konan var líka furðu ánægð að ég skuli hafa unnið þetta, þó þetta kostaði meiri vinnu.“

Auðvelt að fá varahluti

„Ég mæli með því að allir sem eiga svona bíla upp til sveita reyni að koma þeim á götuna,“ segir Guðmundur. Það sé óþarfi að henda þessum bílum þó þeir séu orðnir lélegir, enda auðvelt að fá varahluti á góðu verði og þetta þurfi ekki að vera dýrt áhugamál.

Skylt efni: land rover

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...

Sýn féhirðis á sauðkindina:
Líf og starf 2. október 2024

Sýn féhirðis á sauðkindina:

Að bera fé: Afklæða kind. Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap. Áhættufé: Fífld...

Ávaxtakarfan í Hveragerði
Líf og starf 2. október 2024

Ávaxtakarfan í Hveragerði

Eins og vani er á haustin eru áhugaleikhúsin komin á fullt og eitt þeirra, Leikf...

Mannlífið í réttum
Líf og starf 1. október 2024

Mannlífið í réttum

Réttir eru mannfögnuður og annáluð lopapeysupartí. Magnús Hlynur Hreiðarsson, fa...

Ljósið sigrar myrkrið
Líf og starf 1. október 2024

Ljósið sigrar myrkrið

Seint í september, um svipað leyti og heyskaparlok, fjárleitir og upphaf sláturt...

Blítt og létt í Ölfusrétt
Líf og starf 30. september 2024

Blítt og létt í Ölfusrétt

Sólin skein á gangnamenn og gesti Ölfusréttar sunnudaginn 15. september síðastli...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 30. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að vera opinn fyrir nýjungum í takt við þau skref sem hann hefu...

Tjaldur
Líf og starf 25. september 2024

Tjaldur

Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru ...

Heilsteikt nautalund
10. nóvember 2022

Heilsteikt nautalund

Tími haustlaukanna
29. ágúst 2014

Tími haustlaukanna

Siggi Dan gegn Sævari
4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Metinnflutningur á nautakjöti í júlí
12. september 2024

Metinnflutningur á nautakjöti í júlí

Fjár- og stóðréttir 2023
24. ágúst 2023

Fjár- og stóðréttir 2023