Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Í mykjubásunum haldast kýrnar hreinar og undirlagið er mjúkt. Áferðin minnir á gróft hveiti.
Í mykjubásunum haldast kýrnar hreinar og undirlagið er mjúkt. Áferðin minnir á gróft hveiti.
Mynd / aðsendar
Líf og starf 16. maí 2023

Tandurhreinar kýr í mykjubásum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í fjósinu á Páfastöðum í Skagafirði er tækjabúnaður sem breytir ómeltanlegu tréni úr mykjunni í undirburð. Með því sparast kaup á innfluttu sagi og básamottur eru óþarfar.

Sigurður Baldursson, bóndi á Páfastöðum.

„Ég er alveg hissa á því að það skuli ekki fleiri vera farnir út í þetta,“ segir Sigurður Baldursson, bóndi á Páfastöðum. „Kýrnar eru alveg tandurhreinar. Fólk hefur orð á því sem kemur í fjósið að meira að segja halinn sé hreinn.“ Sigurður segist yfirleitt framleiða úrvalsmjólk, sem er góður mælikvarði á hversu mikið hreinlæti sé í kringum kýrnar.

Þegar fjósið var byggt árið 2018 gerði hann samanburð á kostnaðinum við að gera hefðbundna bása annars vegar og mykjubása hins vegar. „Þetta var tvöfalt dýrara en að setja mottur í alla básana. Sparnaðurinn liggur í því að ég kaupi eiginlega ekkert sag. Maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að það sé ekki nóg til af undirburði. Þú ert bara að búa sjálfur til þinn undirburð í þínu eigin fjósi.“ Jafnframt segir Sigurður að gúmmímottur þurfi að endurnýja á tíu til fimmtán ára fresti, á meðan mykjubásar dugi í áratugi.

Undir básunum er steypa og eru þeir með 20 sentímetra kanti aftast og fremst. Rýmið þar á milli er fyllt af undirburði. „Ég er með 15 til 20 sentímetra lag af trefjum í básnum. Þetta er virkilega mjúkt og þeim líður rosalega vel á þessu,“ segir Sigurður. Hann segir áferðina á undirburðinum ekki ósvipaða grófu hveiti. „Þetta er í raun þurrefnið í mykjunni. Ég pressa allan vökva úr henni og þá er þetta 40 prósent þurrt og svo þornar þetta á hálftíma þegar ég er búinn að dreifa þessu í básinn.“

Í mykjubásunum haldast kýrnar hreinar og undirlagið er mjúkt. Áferðin minnir á gróft hveiti.

Berjapressa á sterum

Tækjabúnaðurinn sem þurrkar mykjuna er samkvæmt Sigurði eins og berjapressa á sterum. Snigill þrýstir mykjunni að sigti, sem vökvinn sleppur í gegnum, og verður þurrefnið eftir. Hægt er að stilla mótstöðuna og stjórna þurrefni afurðarinnar.

Rafmagnsmótorinn í pressunni er sex kílóvött, sem er svipað afl og loftpressan fyrir mjaltaþjónana notar. Sigurður telur að pressan sé að öllu jöfnu látin ganga í fimm klukkustundir á viku.

„Þegar ég dreifi þessu í básana nota ég liðlétting sem er með þúsund lítra trekt að framan. Undir trektinni er færiband og ég keyri meðfram básunum og puðra upp í,“ segir Sigurður. Að jafnaði þarf að bæta við undirburði á fimm til sjö daga fresti. Til að setja í alla básana í fjósinu, þarf að dreifa úr ellefu til tólf trektum, og telur Sigurður rúmmál hennar vera einn og hálfur rúmmetri. „Þetta er enga stund gert – maður er kannski hálftíma.“

Þurrefnið er skilið frá mykjunni með „berjapressu á sterum“.

Stenst vel samanburð

Áður en nýja fjósið var byggt á Páfastöðum fyrir fimm árum var gamla fjósið með hefðbundnum básum og gúmmímottum. „Ég myndi aldrei fara í sagið og gúmmíbása aftur. Motturnar endast bara visst og þær eru rándýrar,“ segir Sigurður, aðspurður um samanburðinn. „Ég er með 130 kýr og ég held að það hafi bara verið tvö spenastig á þessum fimm árum. Þetta eru miklu mýkri básar og betri aðbúnaður fyrir kýrnar.“

Þeir ókostir sem Sigurður getur nefnt við þessa bása eru helst tveir. Í fyrsta lagi er meira ryk í fjósinu og í öðru lagi er ekki hægt að setja þetta í burðarstíur, „því ef þetta blotnar þá verður þetta að mykju aftur“. Hann hefur ekki lent í því að tæknin bili og hefur hann ekki miklar áhyggjur af því, þar sem búnaðurinn er allur mjög einfaldur.

Sigurður telur að meðhöndlunin á húsdýraáburðinum sé auðveldari þegar búið er að skilja trénið frá vökvanum. „Ég er með stóran útitank og það sest aldrei þykkt lag efst. Skíturinn skilur sig ekki eins og hann gerði. Ég er enga stund að hræra í tanknum.“

Aðspurður hvort efnainnihald mykjunnar sé öðruvísi, segist Sigurður ekki geta fullyrt neitt með það. Hann reiknar þó með að einhver hluti köfnunarefnisins gufi upp við aukna meðhöndlun á skítnum.

Sigurður segir að nauðsynlegur tækjabúnaður sé á boðstólum hjá mörgum íslenskum vélasölum. Hins vegar veit hann ekki til þess að nokkur annar bóndi hafi innleitt þessa tækni hér á landi. „Þetta er mjög algengt úti, sérstaklega í Hollandi, Þýskalandi og Danmörku. Ég sá þetta fyrst í Hollandi og féll alveg fyrir þessu,“ segir hann. Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta frekar er hægt að fletta upp „compost bedding“ í leitarvélum.

Stjörnuspá 22. febrúar - 7. mars
Líf og starf 22. febrúar 2024

Stjörnuspá 22. febrúar - 7. mars

Vatnsberinn tekur nú fyrstu skref í því sem mun hafa afar mikil áhrif á líf hans...

Teista
Líf og starf 21. febrúar 2024

Teista

Teista er meðalstór svartfugl sem finnst víða meðfram ströndinni allt árið um kr...

Stjörnuspá 8. febrúar - 22. febrúar
Líf og starf 20. febrúar 2024

Stjörnuspá 8. febrúar - 22. febrúar

Vatnsberinn er óvenju bjartsýnn á komandi vikur og hefur í kollinum hugmyndir að...

Hvanneyrar-pistlar
Líf og starf 19. febrúar 2024

Hvanneyrar-pistlar

Hvanneyri í Borgarfirði er vel þekktur skólastaður. Að stofni til byggðarhverfi ...

Hrútspungar og heimagerð BBQ-sósa
Líf og starf 16. febrúar 2024

Hrútspungar og heimagerð BBQ-sósa

Einn af meginþáttum þorra er neysla hefðbundinna íslenskra matvæla sem kallast þ...

Mikil ánægja með fjölmenningarráð
Líf og starf 16. febrúar 2024

Mikil ánægja með fjölmenningarráð

Fjölmenningarráð hefur tekið til starfa í Rangárþingi eystra.

Stemning á þorrablótum
Líf og starf 15. febrúar 2024

Stemning á þorrablótum

Nú hefur þorrinn gengið í garð og lyfta landsmenn sér upp á þorrablótum. Þegar þ...

Kúfskelin verður allra dýra elst
Líf og starf 13. febrúar 2024

Kúfskelin verður allra dýra elst

Elsta kúfskel sem fundist hefur við Ísland klaktist árið 1499; um það bil sem Sv...