Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Sundhetjur ársins 2023.
Sundhetjur ársins 2023.
Mynd / Niklas Siemens
Líf og starf 11. september 2023

Synt í klauffar Sæunnar

Höfundur: Bryndís Sigurðardóttir

Laugardaginn 26. ágúst sl. var mikið um dýrðir á Flateyri þegar hinn árlegi viðburður Sæunnarsund fór fram og fjórtán ofurhugar lögðust til sunds í Önundarfirði.

Haustið 1987 stóðu bændur Í Breiðadal neðra í Önundarfirði, Halldór Mikkaelsson og Guðrún Hanna Óskarsdóttir, frammi fyrir því að fækka þurfti í fjósi, það var offramleiðsla á mjólkurvörum, smjörfjallið var hátt og nú áttu bændur að minnka framleiðslu og fækka kúm. Valið var þeim hjónum erfitt en ákveðið var að kúnni Hörpu skyldi fórnað. Harpa var ljómandi afurðagóð kýr, skapgóð en svolítið sérstök eins og átti svo sannarlega eftir að koma í ljós.

Hver var Sæunn?

Á þessum tíma var rekið slátur­ hús á Flateyri en landbúnaður var blómlegur á þessum árum á Vestfjörðum og þann 13. október var Hörpu stuggað í bíl sem flutti hana á Flateyri. Magnús frá Hóli, slátrarinn á Flateyri, er mikill öndvegispiltur en alls ekki að skapi Hörpu sem með miklum bægslagangi rauk af bílnum og var engu tauti við hana komið, sleit hún af sér öll bönd og tók á rás út á bryggju. Fyrir henni urðu fiskikör sem þeyttust í burtu sem eldspýtustokkar væru og að endingu flaug þessi um það bil 500 kg skrokkur sem fjöður yfir allt sem fyrir var og fram af bryggjunni í ískaldan októbersjóinn.

Í forundran gláptu viðstaddir á skepnuna taka á rás út fjörðinn, reisti hún halann sem loftnet væri meðan hún tróð marvaða af ótrúlegri lagni. Í snatri var sjósettur björgunarbátur sem leiðbeindi henni þvert yfir fjörðinn frekar en að synda bara út sjóndeildarhringinn, út á opið Atlantshaf. Einhver hafði vit á því að hringja í bændur í Valþjófsdal og boða þeim sögulegan „kúreka“. Guðmundur Steinar og Sigríður á Kirkjubóli skunduðu niður í fjöru og tóku þar á móti Hörpu sem var í góðu ásigkomulagi, þó með örlitla sjóriðu. Dóri og Gunna í Breiðadal tóku líka á móti Hörpu í fjörunni handan fjarðar og höfðu varla við henni akandi. Ekki þótti annað sanngjarnt en að Harpa fengi að lifa eftir annað eins afrek og keyptu Kirkjubólshjón Hörpu svo ekki þyrfti að ferja hana aftur til baka, kaupverð hefur ekki verið gefið upp en upp frá því var hún nefnd Sæunn.

Sæunn var leidd á bás í fjósinu á Kirkjubóli og undi þar hag sínum vel, mjólkaði ljómandi og á sjómannadaginn 1988 bar hún kvígu sem nefnd var Hafdís, ekki ólíklegt að hún hafi öðlast þennan gríðarlega lífsvilja vegna hennar. Spenar Hafdísar voru að sögn hins vegar lokaðir, af sumum talið vegna kuldaáfalls í móðurkviði og var því ekki sett á. Átti Sæunn aðeins nautkálfa eftir þetta sem ekki fengu að lifa og fjölga sér. Ættbogi þessarar merku skepnu lauk því hjá henni en hún var felld að nokkrum árum liðnum og heygð í fjörunni þar sem hún kom að landi og er þar Sæunnarhaugur. Sæunn þótti afar sérstök, með athugul augu og virtist fylgjast vel með umhverfi sínu, rólynd og þægileg skepna.

Af Sæunni eru sagðar margar sögur og skrifaðar hafa verið fréttir á mörgum tungumálum, meira að segja hefur verið skrifuð um hana bók, færri vita að Sæunn átti bróður, tuddann Moðhaus, sem sömuleiðis átti að færa til slátrunar á Flateyri. Eins og systu leist honum ekkert á Magnús frá Hóli, sleit sig lausan á bryggjunni og stökk út í sjó en í stað þess að synda yfir fjörðinn eða til hafs eins og Sæunn beygði hann til vinstri og tók land við Kaldá, gerði sig þar heimakominn í fjósinu og hafði brotið þar allt og bramlað þegar að var komið. Honum var engin miskunn sýnd og voru dagar hans þar með taldir.

Agnieszka Narkiewicz-Czurylo kemur fyrst að landi og henni til aðstoðar eru Svanborg Gróa Hinriksdóttir og Hrönn Garðarsdóttir Mynd/Bryndís Sigurðardóttir

Synt í klauffar Sæunnar

Alla tíð síðan hefur saga Sæunnar lifað með Flateyringum og árið 2018 tók sig saman hópur sem ákvað að nú skyldi Sæunn heiðruð og afreksfólki boðið að synda í klauffar hennar. Síðasta laugardag í ágúst á því herrans ári 2018, undir vökulu eftirliti björgunarfólks, lögðu ellefu hetjur af stað frá Flateyrarodda og stefndu yfir fjörð. Tæpri klukkustund síðar voru allir komnir á land í fjörunni við Valþjófsdal, á sama stað og Sæunn steig á land árið 1987.

Á Flateyri kvöddu Breiðadalsbændur sundfólkið eins og Hörpu forðum og í Valþjófsdal tóku Kirkjubólsbændur á móti. Enginn var þó leiddur í fjós eins og Sæunni heldur boðið í heit ker og heita drykki til að verma kaldan skrokkinn eftir volkið í sjónum.

Sæunnarhaugur, á myndinni eru frá vinstri, Elísa Kristinsdóttir, Þuríður Hjartardóttir og Þóra Kristinsdóttir, sem allar syntu þetta árið. Mynd / BS

Frá upphafi hafa 76 einstaklingar lagt af stað í klauffar Sæunnar, nú síðustu ár reyndar öfuga leið, lagt er af stað frá Valþjófsdal og gengið á land á Flateyri. Þetta hefur þótt öruggara því aðgengi í Valþjófsdal er þröngt og ekki einfalt að stýra umferð þannig að sjúkrabifreið hefði óhindraða aðkomu ef á þyrfti að halda, eins er auðveldara fyrir áhorfendur að fylgjast með sundhetjum koma að landi á Flateyri og styttra í sundlaugina. Margir synda á hverju ári enda eru Flateyringar með afbrigðum gestrisnir og kunna vel að meta þetta hrausta fólk.

Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum leika lykilhlutverk í viðburði eins og Sæunnarsundið er, ekkert er mikilvægara en að gæta fyllsta öryggis og án björgunarsveitanna er ekki synt í klauffar Sæunnar.

Á næsta ári fer Sæunnarsund fram þann 31. ágúst og er undirbúningur fyrir það þegar hafinn. Hótelið í Holti í Önundarfirði hefur verið tekið frá fyrir hópinn alla helgina og stefnt er á glæsilegt lokahóf þar sem afrekum dagsins verður fagnað.

Sara Friðgeirsdóttir er sátt við sitt afrek, Svanborg, Hrönn og Jón Ágúst eru henni til aðstoðar þegar á fast land er komið. Mynd / BS

Skylt efni: Önundarfjörður

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...