Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Gengið niður í stóra og ríkulega rekafjöru á jörðinni Dröngum á Ströndum. Rekaviður er mestur þar um slóðir, á Skagatá og norðanverðu Langnesi.
Gengið niður í stóra og ríkulega rekafjöru á jörðinni Dröngum á Ströndum. Rekaviður er mestur þar um slóðir, á Skagatá og norðanverðu Langnesi.
Líf og starf 15. september 2023

Snarminnkandi reki við Íslandsstrendur

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Við rekur á allar fjörur landsins en mestan reka er að finna á norðanverðu Langanesi, Ströndum og Skagatá. Reki var einnig algengur við Suðurströndina á árum áður.

Gamlan við er enn að reka í íslenskar fjörur en nýrri viður hefur minnkað. Þróun í skógariðnaði veldur því að minna fer forgörðum af viði sem fleytt er niður ár. Loftslagsbreytingar hafa þó mest áhrif. Reikna má með að vegna rýrnunar hafíss sökkvi viðurinn sem losnar áður en hann nær Íslandsströndum, einnig sá viður sem rofnar í auknum mæli úr árbökkum við vorflóð vegna þiðnunar sífrera. Þetta er flókið samspil.

Viðurinn kemur einkum frá Rússlandi og Síberíu og hefur gegnum tíðina verið notaður til allra handa bygginga, eldiviðar og á síðari tímum einnig í girðingarstaura, alls kyns timburverk utandyra og innan, ekki síst vegna náttúrulegrar fúavarnar seltunnar í viðnum, í húsgögn, búsáhöld, listaverk/ handverk og í kurl.

Vinnsla ekki einfalt mál

Í skýrslu ráðherraskipaðrar nefndar frá árinu 1999 um nýtingu rekaviðar og markaðssetningu afurða frá rekaviðarvinnslu segir í niðurstöðum að verð á innfluttu timbri sé mjög lágt og söfnun og vinnsla rekans þoli mjög lítinn tilkostnað. Mikið efni gangi úr við vinnsluna. Því sé öll úrvinnsla best komin sem næst þeim stöðum þar sem mest reki.

Á markaðnum séu ný og fullkomin tæki til vinnslu rekans, þá tækni hafi rekabændur nýtt sér. Nýting reka sé víða mjög góð búbót sem rétt sé að styðja við eftir föngum.

Ætla má að sitji að mestu við það sama rúmum tveimur áratugum síðar. Sagt er í skýrslunni að bændur hafi nýtt þjónustu færanlegrar sögunarþjónustu. Safni þeir þá timbri sínu saman á ákveðna staði þar sem það er sagað í þær stærðir sem timbureigandinn vill og rekinn gefur tilefni til. Þetta var t.d. gert í Árneshreppi. Flutningur á sögunarvélum geti hins vegar verið kostnaðarsamur og því mikilvægt að viðkomustaðir séu sem fæstir og sem mest magn rekaviðar á hverjum stað. Mest hafi verið sagað í Strandasýslu og á Langanesi.

Jafnframt kemur fram að nær allur eldri reki hafi verið nýttur á stórum svæðum og óðum styttist í að þar verði einungis um nýjan reka að ræða. Gera megi ráð fyrir að rekaviður skemmist um 10% á ári við að liggja óhreyfður í hirðuleysi á rekanum. Þannig sé tíu ára gamall viður og eldri vart nýtanlegur.

Þetta ráðist þó af mörgum þáttum. Áætla megi að þegar búið sé að fara á fjöruna og vinsa út það sem vinnsluhæft er sé ekki nema 40% af rekanum nýtanleg markaðsvara. Mest sé um furu, greni og lerki, en birki og hvers konar harðviður fáséð. Helsti vandi við spýturnar sé grjót og sandur sem gengið hefur inn í viðinn, þá séu sumar snúnar og stórkvistóttar og sver tré yfirleitt rifin í miðjunni.

Gæði og ástand viðarins komi hins vegar oft ekki í ljós fyrr en farið sé að saga hann. Fallegar spýtur, ekki síst sverar, séu oft svo rifnar í miðjunni að ekki er hægt að nýta nema hluta bolsins og einnig geti spýta verið svo fúin í merginn eða svo full af sandi að hún sé vart nýtanleg til sögunar.

Þó megi halda því fram að besta efnið í rekanum sé fyllilega sambærilegt eða betra en sá skógarviður sem helst er á markaðnum.

Sá rekaviður sé hins vegar aðeins lítill hluti þess sem rekur. 

Áætlað er að allt að helmingur þess sem rekið hefur á fjöru liggi eftir þegar búið er að hirða það sem telst nýtanlegt, svo sem mor og ónýtur bolviður.

Þetta efni hefur þó verið notað til eldiviðar og í seinni tíð til upphitunar húsa. Nýting rekaviðarúrgangs geti því verið hagstæð ef fólk noti hann til kyndingar heima hjá sér, auk þess sem æskilegt sé að fjarlægja hann af umhverfisástæðum, segir í skýrslunni.

Úr Finnafirði. Hér má sjá dæmi um hvernig bóndinn á Felli hefur nýtt reka sinn til uppbyggingar á aðstöðu fyrir sjósundgesti. Mynd / R.S.

Flyst með sjávarstraumum og hafís

Dr. Ólafur Eggertsson, sérfræðingur hjá Skógrækt ríkisins, segir að síðustu þrjá áratugi um það bil hafi mun minni reki borist að Íslandsströndum miðað við áratugina þar á undan.

„Á síðustu öld var mest um reka frá sirka 1950 til 1980,“ segir Ólafur. „Rekinn hefur minnkað, aðallega vegna þess að skógariðnaðurinn í Rússlandi hefur tekið miklum breytingum. Um miðja síðustu öld var viðurinn bundinn saman í fleka og honum fleytt niður árnar (norður að Íshafi) að næstu sögunarmyllu eða uppskipunarhöfn, þá tapaðist mikið af við út í Íshafið. Í kringum 1990 var byrjað að setja viðinn á pramma og draga með dráttarskipum niður árnar. Frá því í kringum 1950 hefur skógarhögg í Rússlandi aðallega farið fram á vatnasvæði Yenisey-fljóts í Síberíu og í Evrópuhluta Rússlands.“

Ólafur segir að önnur ástæða fyrir minni reka við strendur Íslands sé að hafís norðurskautsins fari sífellt minnkandi vegna hlýnunar loftslags og sjávar. „Viður getur ekki flotið á opnu hafi nema í takmarkaðan tíma en timbrið verður þá vatnsósa og sekkur. Eftir því sem hafísinn minnkar þarf viðurinn að fljóta lengur á opnu hafi. Forsenda þess að viðurinn nái til Íslands er að hann sé sem lengstan tíma frosinn fastur í hafísinn. Þegar viðurinn berst inn í Íshafið frá ánum í Rússlandi frýs hann fastur í ísinn og ferðast með honum þar til hann bráðnar en það gerist þegar ísinn berst inn í Atlantshafið með Austur-Grænlandsstraumnum,“ segir hann.

Árið 1993 birti Ólafur greinina Uppruni rekaviðar við Íslandsstrendur; tímatalsárhringjafræðileg rannsókn (Origin of the driftwood on the coasts of Iceland; A dendrochronological study, Jökull, no 43, 1993./Flottími).

Þar segir: „Við frá fjarlægum löndum rekur sífellt að ströndum landsins. Útbreiðsla hans er breytileg en segja má að finna megi rekavið með fram allri strandlengju landsins.“ Fram kemur að tímatalsárhringjarannsóknir hafi lengi verið notaðar til að áætla uppruna rekaviðar. Í niðurstöðum Ólafs segir að rekaviður sem falli til við strendur Íslands samanstandi einkum af furu og greni; söguðum trjábolum. Stór hluti af rekanum sé þó lerki af náttúrulegum uppruna sem hafi rofist úr bökkum fljóta í Austur-Síberíu. „Í okkar fyrstu rannsóknum á reka við Ísland fundum við ekki reka frá Alaska né Kanada,“ segir Ólafur og heldur áfram: „Síðar fundum við greni sem komið hafði frá Mackenzie-fljóti í Kanada og frá Yukon í Alaska en mjög sjaldgæft.“

Ekki hefur verið áætlað hversu mikill reki berst til landsins á hverjum tíma, að sögn Ólafs.

Rekinn var lífsbjörg

Reki hefur þekkst frá öndverðu. Fornmenn nýttu rekavið á Íslandsströndum og hefur hann væntanlega bjargað þeim mörgum frá bráðum bana vegna kulda og vosbúðar og nýst sem eldsmatur og til skálabygginga. Í þá tíð var láglendið þakið birkiskógi en skógarhögg til eldiviðar og einnig beit gekk fljótt á hann. Þá varð rekaviðurinn mikilvægasta efnið fyrir hús, báta brýr, landbúnaðartæki og búsáhöld.

Elsta kerfisbundna rannsókn á hérlendum reka var gerð um 1780 af Olaviusi þegar hann ferðaðist fyrir hönd dönsku krúnunnar um landið til að kanna efnahag landsmanna. Hann lýsti gerð rekaviðar, magni, notagildi og uppruna.

Dr. Ivar Samset, fv. prófessor við norska landbúnaðarháskólann í Ási, gerði árið 1990 magnmælingar á reka í Skjaldbjarnarvík. Árlegt viðarmagn reyndist að meðaltali 38 rúmmetrar á hvern hektara fjörunnar. Af rekaviðnum reyndust 42% vera lengri en 3 metrar, 23% gildari en 20 cm og 70% stærri en 0,1 rúmmetri. „Það eru ekki margir skógarteigar í Noregi sem státa af slíku viðarmagni,“ skrifaði Samset. Elsta tré sem hann aldursgreindi eftir árhringjum var 365 ára gamalt lerkitré á Gálmaströnd í Steingrímsfirði, en fjöldi trjáa var 200–300 ára gamall.

Fyrr á tíð merktu þeir sem áttu rekafjörur gjarnan reka sinn með persónulegu marki og varð þá óhægara um vik að stela rekavið úr fjörum annarra.

Fjöldinn allur af íslenskum örnefnum bera vott um rekavið, svo sem Reki, Rekavík, Rekavatn, Rekaá og mögulega Keflavík og Bolungarvík, svo eitthvað sé nefnt. Þá eru allmörg rekaviðartengd orð í málinu, eins og til dæmis keflareki, plankareki, raftur, rekafjara, rekaítak, rekapláss og jafnvel vogrek.

Skylt efni: rekaviður

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...