Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Bensínstöðin Select tryllti lýðinn á tíunda áratugnum.
Bensínstöðin Select tryllti lýðinn á tíunda áratugnum.
Mynd / timarit.is
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan alþýðumat. Smurbrauð, kjötsúpa, mjólkurglös, kaffisopi og ilmandi bakkelsi var selt á áningarstöðum í upphafi aldarinnar sem leið.

Einhverjir gæddu sér á brennivínstári, harðfiski og kexi með niðurskornum sjólaxi (reyktum ufsa), og enn aðrir minnast drykkju maltöls, rjúkandi kóteletta og kremkex frá Fróni sem gjarnan er kallað Sæmundur í sparifötunum. Yngri kynslóðir neyta helst hamborgara eða kjúklingavefja en allt á þetta sammerkt að fylla maga farandmanna.

Verðlagið óútreiknanlegt

Eitthvað þótti fólki verðlagið ekki alltaf til sóma en í dagblaðinu Vísi árið 1966 í greininni „Íslensk hótel: Verð og gæði“ kemur fram að „Hér á landi er nefnilega ekki gerður nægur greinarmunur á verði, með tilliti til gæða. Söluskáli við þjóðveginn selur kaffi og vínarbrauð á næstum því sama verði og beztu hótelin í Reykjavík. Það er eins og þeim, sem tjasla saman sóðalegum veitingaskála úti á landi, þyki sjálfsagt að setja upp sömu prísa og mestir gerast í Reykjavík.“

Í tilkynningu Jóhannesar Gunnarssonar, fyrrum formanns Neytendasamtakanna, árið 2014 kemur hið sama fram, en haft er eftir honum að yfirgengilegt sé hversu hátt verðlag sé í vegasjoppum og mætti helst líkja því við að snæða á fimm stjörnu veitingahúsi.

En þetta var – og er – þó ekki alveg algilt hringinn í kringum landið. Á árum áður mátti vel fá sér ríflega af kjötsúpu fyrir nokkrar krónur og þegar kom að bakkelsi og kaffisopanum voru matseljur oft ósínkar á ábót.

Samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í DV árið 2012 var verðlag þá nokkuð mismunandi ef tekið var mið af ódýrasta skyndibitanum. Pylsu í lægsta verðflokki var að finna í Víkurskála á 280 kr., stórt prins póló á 169 kr. í Staðarskála og ódýrasta hamborgaratilboðið var þá hjá Hamraborg á Ísafirði, sem hefur verið í rekstri í yfir hálfa öld, eða 699 kr. fyrir borgara og hálfs lítra gos. Í dag hafa þessar tölur auðvitað aðeins hreyfst til. Söluskáli SJ selur einungis pitsu, brauðstangir og pylsur, hamborgari í Hamraborginni kostar 1.649 kr. og gosið 345 kr. Víkurskálinn býður upp á pylsur fyrir 545 kr. stykkið og stórt prins póló í Staðarskála kostar nú 199 kr.

Staðarskáli hefur haldið
vinsældum sínum í tímanna rás.
Áfram veginn á vagninum ...

Lífaldur vegasjoppanna er misjafn eins og getur nærri, en lifa þó í minningum ferðalanga um langt skeið þótt sumir séu ekki í rekstri lengur.

Litla kaffistofan er ein þeirra sem allir muna. Hún opnaði í júníbyrjun árið 1960 og þar hefur lengst af verið boðið upp á ilmandi kjötsúpu, smurbrauð og kjarngóðan bita. Í ágúst 2021 keyptu eigendur veitingastaðarins Hlöllabáta reksturinn og á meðan nýir eigendur hafa haldið í gamla matseðilinn að nokkru leyti, bjóða þeir einnig upp á hina vinsælu samloku „Hlöllabát“. Hana má fá af hinum ýmsu stærðum og gerðum, enda í hámælum sem skyndibiti um langt skeið og samnefndur veitingastaður einn elsti íslenski skyndibitastaður landsins.

Að hausti til árið 1967 nutu gestir Ferstiklu nærveru nektardansmeyjarinnar Leslie Caroll, en óvíst er hvort þetta var fastur liður.

Hinn vinsæli Staðarskáli, sem í dag býður upp á heimilismat, grillrétti og skyndibita af ýmsu tagi, birti auglýsingu í Tímanum árið 1969 og auglýsti þar einstakt úrval til verslunar, bæði matarkyns og annars. Var þar m.a. talið upp franskar kartöflur, beikon, skinka og egg, heitar pylsur, ávextir, ís, öl, tóbak og svo myndavélar, filmur, sólgleraugu, tjöld, svefnpokar, gastæki og ýmislegt fleira. Hálfrar aldar saga Staðarskála hefur haldið velli í gegnum árin en umskipti urðu á húsnæðinu árið 2008. Var það vegna breytingar á veglínu að gamli skálinn fór úr alfaraleið og því byggður nýr þar sem mætast hringvegurinn og vegurinn norður á Hólmavík og Strandir og til Norðurlands vestra.

Ferstikla, Tryggvaskáli, Hreðavatnsskáli, Botnsskáli og Bjarkarlundur eru í minnum margra en gaman er að geta þess að oft áttu ferðalangar það til að leggja leið sína í útibú Kaupfélags Skálaness. Var það aðallega vegna harðfisksins sem þar mátti versla og þótti einstaklega bragðgóður enda vel þekktur út fyrir Breiðafjörðinn. Vinsælt var að kaupa hann óbarinn og berja á steininum sem stóð fyrir framan verslunina með roðið snúið niður, þar sem hundar í nágrenninu sættu færis um að sleikja steininn. Sá Jón Einar Jónsson, bóndi á Skálanesi, lengst af og farsællega um reksturinn, dældi olíu og bensíni á bíla og seldi ferðafólki sælgæti og matvöru með bros á vör.

Gosið Valash var afar móðins í denn og þótti afskaplega hressandi.
Minningar um mat

„Jú, mér þótti alltaf gott að fá mér pylsu á ferðum mínum um landið og þá allra best var að drekka með henni appelsínugosdrykkinn Valash,“ segir ljóðskáldið Einar Georg Einarsson, sem fæddur er árið 1941 og kann vel við sig bak við stýrið enn þann dag í dag. 

„Svo var nú skemmtilegt að einhvern tíma var elsti drengurinn minn með mér, hann Örvar, þá lítill snáði, sem lét nú aldeilis í sér heyra þegar kom að því að borga fyrir matinníeinhverrisjoppunni, rétt eins og þokulúður. Í boði var venjulegur heimilismatur eins og tíðkaðist og sá stutti hafði auðvitað aldrei vitað til þess að borga þyrfti fyrir slíkan mat. En við borguðum auðvitað.“ Einar segir annars sviðakjammana hafa verið algengasta skyndibitann úr sjoppunum eftir böll og jafnvel eftir fiskveiðar sínar í Hafnarfirði er liðið var á nótt, var komið við þar sem opið
var og borðaður kjammi.

Aðspurður segir fyrrnefndur Örvar Einarsson í dag smurbrauð með hangikjöti sér efst í huga þegar hann stoppar á vegum úti en lítt fyrir að hækka róminn þegar gera þarf upp. Er Örvar hins vegar vel þekktur sem raddsterkur söngvari hljómsveitarinnar Aþenu sem gerði garðinn frægan í Atlavík árið 1983 þegar hún var valin efnilegasta hljómsveitin, skrefi á undan kvennahljómsveitinni Dúkkulísunum.

Fleiri eiga minningar af skyndibita sér hugleiknum, en á meðan eldri kynslóðin man helst eftir því að gæða sér á sviðakjömmum, tengir skáldið Steinunn Ásmundsdóttir vel við Bogarúllurnar sálugu sem trylltu lýðinn í kringum 9. áratuginn. Var um að ræða asískt nýnæmi, vorrúllur í boði Boga Jónssonar, sem opnaði söluvagn með góðgætinu árið 1985 í Keflavík. Fleiri vagnar litu dagsins ljós, t.a.m. á Lækjartorginu í Reykjavík þar sem Steinunn kaus helst óheyrilegt magn chilisósu með sínum rúllum, en í boði voru bæði pitsa og kínarúllur auk kínverskra pönnukaka. Voru Bogarúllurnar afar vinsælar og þóttu exótískar og spennandi nýjung í skyndibitaflóruna.

Hér stendur hús útibús Kaupfélagsins á Skálanesi, en þar fékkst besti harðfiskur landsins. Hinum megin við veginn rétt glittir í stein sem gott þótti að berja fiskinn á. Mynd / ál

Kartöflusalat á Select

Bensínstöðvar hafa þjónað og gjarnan samtvinnast hlutverki vegasjoppa í gegnum árin, enda ófáir sem hafa hámað í sig góðgæti innan þeirra veggja, jafnt á Kópaskeri og í Árbæjarhverfinu.

Þannig má segja að vegasjoppan teygi anga sína í gullaldarár kynslóðarinnar sem olli hvað helstum usla tíunda áratugarins á höfuðborgarsvæðinu. Voru þetta um það bil síðustu unglingarnir sem fóru um lífið tiltölulega eftirlitslausir enda fátt sem hafði gætur á stjórnleysi þeirra. Eftir útiveru að næturlagi um helgar komst það upp í vana hjá mörgum að fá sér snarl á heimleiðinni, þá helst á bensínstöðvum Select.

Í kringum 1990 varð nefnilega sú nýjung að boðið var þar upp á pylsur með rækjusalati annars vegar og kartöflusalati hins vegar. Uppi varð fótur og fit yfir þessum kræsingum og á meðan færri skelltu í sig rækjusalatspylsum hóf pylsa með kartöflusalati vegferð sína, enda unaður þeirra vandfundinn eftir langt næturbrölt.

Lýsir matgæðingurinn Haraldur Jónasson, fæddur 1976, upplifun sinni sem byltingarkenndri er hann setti fyrst pylsu með kartöflusalati inn fyrir sínar varir. Átti hann gjarnan leið um Select í Asparfelli og þróaði þar persónulegan matseðil sem hann átti eftir að grípa til á síðkvöldum næstu árin. „Ég er mikill pylsumaður og er í sannleika sagt gráti næst vegna þróunar pylsa sem finna má í vegasjoppum nú til dags. Hér fyrr á tímum fékk maður volga soðna pylsu umvafða meðlæti í mjúku brauði, en í dag er nær undantekningarlaust boðið upp á brauð sem er pressað í grilli, pylsan bragðlaus og vond auk þess sem meðlætið er á sérstakri ásetningarstöð. Þetta er raunin á öllum stöðvum N1 sem yfirtekið hafa landið og mjög miður enda skemmir það steminguna að sama skapi. Haraldur bendir einnig á að kjötinnihald SS pylsanna vinsælu séu í dag rétt yfir helmings prósentum (65%) en þess í stað bættar sojapróteini o.fl.

Hann minnist Select-stöðvar Asparfellsins með ljóma í augum. „Ég er eiginlega viss um að þarna í Asparfellinu hafi Select verið með það sem hægt væri að kalla fyrsta „air-fryerinn“. Það voru seldar þarna ótrúlega vondar franskar, hitaðar í einhverju loftshitajúniti, einkennilega gular að lit og skrýtnar, en samt – eins og kemur stundum fyrir, á sinn hátt góðar. Góð-vondar og pössuðu ótrúlega vel með pylsum með kartöflusalati. Þar ofan á kaus ég franskt sinnep og kannski smá lauk. Þetta var minn matseðill í  langan tíma.“

Sölustaðurinn Fröken Reykjavík var annars minn staður í denn þegar kom að pylsu sem skyndibita en þar var hægt að finna SS pylsur gerðar eftir séruppskrift fyrir staðinn. Náttúrulegt hylki var utan um pylsurnar þannig þær poppuðu þegar bitið var í ... segir hann dreyminn enda virðist bæði himinn og haf á milli þess sem boðið er upp á í dag og var þá.

Skyndibitinn mun lifa en mætti fara aftur í heimilisgírinn

Skyndibiti vegasjoppunnar lifir enn og er þáttur í ferðalögum margra. Sammælast þó flestir um að gaman væri að endurlífga minni staði með persónulegri þjónustu, mismunandi úrvali og heimilislegri upplifun matgæða á næstkomandi áratugum.

Eitt verður að minnast á í lokin sem kemur ferðalöngum skemmtilega á óvart, en það er sjálfbær kók-sjálfsali í eigu Kristins nokkurs Kristmundssonar sem staðsettur er á heiðinni á Bóndastaðahálsi í Hjaltastaðaþingá. Sjálfsalinn, sem er stórkostleg áningarstöð, er bæði sólarorku- og vindknúinn og um að gera að koma þar við, enda framtak hugsjónamanns en ekki stórfyrirtækja.

Stórkostleg og vel þörf áningarstöð Kristins Kristmundssonar, betur þekktur sem Kiddi Vídeófluga. Mynd/ál

Saltfiskur fyrir fjóra
Líf og starf 23. maí 2024

Saltfiskur fyrir fjóra

Saltaður þorskur er mjög vinsæll hjá þjóðum Suður-Evrópu og tengist þar um slóði...

Hjón hlutu samfélagsverðlaun
Líf og starf 22. maí 2024

Hjón hlutu samfélagsverðlaun

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í níunda sinn við setningu Sæluviku Sk...

Þarfasti þjónninn
Líf og starf 22. maí 2024

Þarfasti þjónninn

Bændablaðið fékk til prufu rafmagnaða útgáfu af minnsta Weidemann skotbómulyftar...

Friðrik, Bjarki og Helga Ragna hlutu garðyrkjuverðlaun
Líf og starf 21. maí 2024

Friðrik, Bjarki og Helga Ragna hlutu garðyrkjuverðlaun

Garðyrkjuverðlaun voru veitt á hinni árlegu hátíðarathöfn Garðyrkjuskólans á sum...

Skáldið, framsóknarmaðurinn og fimm granda meldingin
Líf og starf 20. maí 2024

Skáldið, framsóknarmaðurinn og fimm granda meldingin

Þeir voru ekki margir sem komust í slemmu með spil austur-vestur á Kjördæmamótin...

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...