Skrímsl á landsliðsæfingu
„Hér er eitt skrímslaspil frá æfingamótinu.“ Þannig hóf Frímann Stefánsson, stórmeistari að norðan, sögu sína eftir að hafa veitt landsliðspörum keppni á æfingu nýverið. Upp kom ansi öflug hönd og Frímann þurfti að taka ákvörðun.
Norður gefur, allir á hættu. Allt spilið:
Frímann tók upp norðurspilin, sem vel má líkja við skrímsl, af fegurri gerðinni kannski. Hvaða opnunarsögn myndu lesendur Bændablaðsins velja til að hefja leik í norður? Vel þarf að vanda til verka, því ekki er víst að mikið svigrúm gefist til vísindalegra rannsókna í næstu sagnhringjum!
Að minnsta kosti einn spilari á landsliðsæfingunni valdi að opna á ásaspurningu sem spyr um sérstaka ása. Þá er svarað ásalitnum ef ás er að finna. Dæmi: Ef spilari á spaðaás, meldar hann 5 spaða við opnun á 4 gröndum. Sá sem á engan ás meldar 5 lauf sem þýðir að ef svarhönd á laufás verður hún að melda 6 lauf. Og ef þannig vill til að svarhönd eigi tvo ása er svarað á fimm gröndum.
Sjálfur valdi Frímann að opna á 6 tíglum sem hefði skilað 1370 kalli á hættunni ef andstaðan hefði ekki hólkað sér í 6 spaða fórn. Aðeins +500 í NS.
Á hinum borðunum var ýmist opnað á einum tígli, sterku laufi eða sterkum tveimur. En á einu borði var opnað á 4NT „specific aces“ líkt og fyrr segir. Hér vill norður nefnilega vita hvaða ás makker á. Það skiptir öllu.
Eða var það kannski ekki þannig?
Einn spilari slysaðist í 7 tígla. Andstaðan engdist en spilaði svo út „vitlausum“ ás. 2140 í húsi!
Veizla handan við hornið
„Þetta er einhver besta þátttaka hér innanlands sem við munum eftir fyrir Briddshátíð,“ segir Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands.
Briddsveislan ógurlega hefst í lok janúar, Reykjavik Bridge Festival. Íhaldssamir Íslendingar kalla mótið einfaldlega Briddshátíð, en spilað er í Hörpu líkt og síðari ár. Munu kannski færri komast að en vilja, svo mikil er þátttakan. Fyrst er tveggja daga tvímenningur, svo tveggja daga sveitakeppni. Margir sterkir erlendir spilarar koma á mótið. Áður en Briddshátíð fer fram verður haldið ofurmót í Hörpu með nokkrum af bestu spilurum heims.