Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hér sér yfir Hallormsstað.
Hér sér yfir Hallormsstað.
Líf og starf 3. janúar 2022

Skáld gróandans og gleðinnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Það var um fagurt sumarkvöld í byrjun aldarinnar sem ungur maður sté fæti sínum inn fyrir gróinn svörð Hallormsstaðaskógs og ákvað að þarna í trjálundi skyldi hann dvelja í tjaldi sumarlangt.

Sumrin urðu fleiri en eitt og fleiri en tvö, árin liðu og ungi maðurinn óx úr grasi en hélt ávallt þeim vana sínum að heimsækja skóginn sinn. Bjartar næturnar fönguðu hjarta hans og á þessum stundum orti hann sín fegurstu ljóð, þar sem tilfinningarnar fengu að njóta sín óhindrað. Þessi ungi maður bar nafnið Þorsteinn Valdimarsson, sem í minningargrein var kallaður skáld gróandans og gleðinnar, eitt besta ljóðskáld okkar Íslendinga og einn af frumkvöðlum íslenskrar limru.

Þorsteinn Valdimarsson.

Þorsteinn fæddist á Brunahvammi í Vopnafirði á þrítugasta og fyrsta degi októbermánaðar, árið 1918, elsti sonur hjónanna Péturs Valdimars Jóhannessonar og Guðfinnu Þorsteinsdóttur. Þorsteinn varð snemma skáldmæltur enda átti hann ekki langt að sækja sköpunargáfuna. Móðir hans var afar skáldhneigð, ljóð og tungumál voru henni snemma hugleikin og eftir hana liggja falleg verk, bæði frásöguhættir og ljóðabækur undir nafninu Erla skáldkona.

Árið 2013 var verkum hennar safnað saman og útgefið, fimm binda ritsafn sem telur yfir nítján hundruð blaðsíður.

Guðfinna, ásamt manni sínum, Pétri Valdimar Jóhannessyni hóf búskap á heiðarbýlinu Bruna- hvammi, en eftirfarandi vísu, Kvöld í sveit, orti Guðfinna á býlinu sínu og má gera sér í hugarlund þá hugarró og tilfinningar er bærðust innra með henni.

Hofsá rennur hægt að sævi,
hvamminn fyllir nið.
Fuglakvak í kjarri rýfur
kvöldsins þögn og frið.

Önnur vísa, laglega með farin og myndræn þó stutt sé:

Sólin skín á sundin blá,
senn er mál að rísa.
Við mér blasa víð og há
veldi morgundísa.

Á Brunahvammi fæddist þeim hjónum barnahópur sem flest voru bæði hagyrt og næm á umhverfi sitt og upplifanir. Guðrún Valdimarsdóttir, næstelst systkinanna og þeirra langlífust býr stálslegin og ern á Eyrarbakka – en hún gaf út ljóðabókina Bláklukkur 91 árs að aldri. Bláklukkur innihalda ljóð og lausavísur af fegurstu gerð þó ekki hafi Guðrún flíkað skáldagáfu sinni, en hún hefur ort kvæði og vísur síðan um ellefu ára aldur.

Þorsteinn bróðir hennar, sem gaf út fyrstu bók sína, Villta vor, árið 1942, var af mörgum talinn hefðbundið og snjallyrt skáld, hlotinn styrkri málkennd en þó með rómantísku ívafi. Í þessari fyrstu bók brá þó við tilfinningasömum geðsveiflum ungs manns, bæði þunglyndislegum sem glaðværum.

Limruháttur

Þorsteinn var óhræddur við að bregða á leik og er einn þeirra fyrstu íslensku skálda er ruddu brautina þegar kom að limruforminu. Árið 1965 gaf Þorsteinn út ljóðabók sína Limrur og mátti sjá nýjan brag á kveðskap hans. Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna voru öll kvæðin undir því sem kallast limruháttur, fimm lína bragarháttur þar sem skop og háð er haft í fyrirrúmi. Eru limrur Þorsteins engin undantekning og er kveðskapurinn „Fríháls“ gott dæmi:

Ég aðhefst það eitt sem ég vil
og því aðeins að mig langi til.
En langi þig til
að mig langi til
þá langar mig til svo ég vil

Helstu ljóðabækur Þorsteins eru annars upptaldar með ártali; Villta vor 1942, Hrafnamál 1952, Heimhvörf 1957, Heiðnuvötn 1962, Limrur, 1965, (endurútg. 1981 og 1988), Vegastafrófið (barnavísur) 1966 og endurútg. 1968, Fiðrildadans 1967, Draumvísa 1969 og Yrkjur 1975. Þegar hann lést árið 1977 hafði hann að fullu búið til prentunar ljóðabók er hann nefndi Smalavísur.

Smalavísurnar áttu að koma út á afmælisdegi móður hans, 26. júní, en vegna tafa hjá útgáfu fór það svo að almenningur leit þær ekki augum fyrr en í lok septembermánaðar sama árs. Þorsteinn hafði sjálfur haft ríka hönd í bagga er viðkom helst öllu hvað varðaði bókina sína, hafði sterkar skoðanir á bæði umbroti, leturgerð og stærð, tegund pappírs bæði á síðum og bókarkápu.

Í minningargrein er eftir því tekið að honum var órótt þegar líða tók á haustið og átti það til að hvessa sig vegna seinagangs þeirra sem að útgáfunni komu. Virðist liggja á þó fáir viti af hverju, slíkt er ólíkt honum, en sjálfur ræðir hann ekki sín hjartans mál. Útgáfuna hafði hann enn í sínum höndum er hann lést aðeins 59 ára gamall, en Smalavísur komu út haustið 1977, nokkrum vikum eftir dauða hans.

Árið 1976 hafði verið ákveðið að stofna Erlusjóð til minningar um Guðfinnu Þorsteinsdóttur, móður hans, sem átti að þjóna hvers konar líknar- og menningarmálum. Útgáfa Smalavísna var til styrktar þessum sjóði og þarna jafnframt hinsta kveðja Þorsteins.

Samkvæmt dagblaðinu Tímanum, árið 1977, var Þorsteinn auk þess að vera skáld, gífurlega afkastamikill þýðandi m.a. á söngleikja- og óperutexta sem margir hverjir eru hrein meistaraverk að mati kunnáttumanna. Einnig þýddi hann ógrynni sönglaga fyrir kóra og einstaklinga og auk þess er til ógrynni af lausavísum eftir hann sem ef til vill aldrei eiga eftir að komast í bók. Til viðbótar má geta þess að hann þýddi einn frægasta texta Bob Dylans um tímana sem breytast. (´The times they are a-changin')...

Te & hunangsdrykkja

Þorsteinn var þekktur fyrir gestrisni sína sem og örlátur veitandi allra handa þó hann væri nokkur einfari að eðlisfari. Hann bauð gjarnan upp á te og hunang til drykkjar ef gestkvæmt var auk þess að kveikja ætíð á kertaljósi, jafnvel þó bjart væri af degi og rafmagnsljós í lofti. Eftir honum er haft að „best væri að hafa lifandi ljós líka og hafa það hjá okkur“.

Hann hélt sér jafnan utan við alfaravegi lífsins, var barnlaus og ókvæntur en á allan hátt þekktur fyrir ljúfmennsku og hrifnæmi og þótti kært að vera til liðs þegar
á þurfti.

Þorsteinn var tíður gestur í Hallormsstaðaskógi Austurlands eins og áður sagði og bera ljóð hans mörg hver vitni um ást hans á náttúrunni. Þó hefur eitt þeirra verið helgað baráttu herstöðvaandstæðinga enda var Þorsteinn bæði friðarsinni og með öllu andvígur hernaði. Ljóðið sem hér um ræðir heitir „Þú veist í hjarta þér“ og samið árið 1976.

Þennan fallega texta tók hljómsveitin Hjálmar upp á arma sína á plötunni Ferðasót sem gefin var út árið 2007 og hefur lagið hlotið mikið lof í útsetningu þeirrar hljómsveitar. Færri vita þó að söngvari og textasmiður Hjálma, Þorsteinn Einarsson, ólst upp í grónu umhverfi Hallormsstaðar – einnig þekktur fyrir fallega og oft angurværa texta þess, sem viðkvæmni náttúrunnar hefur alið frá unga aldri.
Þorsteinn Valdimarsson liggur
nú í sinni hinstu hvílu í Hallorms- staðaskógi og hefur verið reistur minnisvarði honum til heiðurs í trjálundinum fagra þar sem hann hafði fyrir venju að slá upp tjaldinu sínu.

Í minningargrein um hann kemur fram að á Hallormsstað hafi enginn frekar átt heima, umvafinn kyrrð og hlýju náttúrunnar, skáldið tilfinningaríka sem var í senn eldhugi og öðlingur í öllu sínu lífi.

Valdísarkonur tóku karla í bakaríið
Líf og starf 21. júní 2024

Valdísarkonur tóku karla í bakaríið

Fjöldi briddsspilara tók þátt í keppni á landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri um...

Femínískur krosssaumur
Líf og starf 20. júní 2024

Femínískur krosssaumur

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur vakið athygli með litlum útsaumsverkum þar se...

Grilluð lambaspjót
Líf og starf 20. júní 2024

Grilluð lambaspjót

Smellum í einfaldan lambarétt sem hentar vel á grillið hvort sem er heima eða í ...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 18. júní 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur verið óvanalega ánægður með sjálfan sig undanfarið og öruggur ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 14. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Nýr listrænn stjórnandi
Líf og starf 11. júní 2024

Nýr listrænn stjórnandi

Celia Harrison er nýr listrænn stjórnandi Skaftfells, listamið-stöðvar Austurlan...

Hrossagaukur
Líf og starf 11. júní 2024

Hrossagaukur

Hrossagaukur er meðalstór og nokkuð algengur vaðfugl. Það er áætlað að hér séu y...

Geitur til gleði og nytja
Líf og starf 10. júní 2024

Geitur til gleði og nytja

Á Lynghóli í Skriðdal er myndarbýli með um 350 fjár, 80 geitum og 60 nautum. Þeg...