Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Nemandi Náttúruskólans aðstoðaður yfir á við Kleif í Fljótsdal.
Nemandi Náttúruskólans aðstoðaður yfir á við Kleif í Fljótsdal.
Mynd / Náttúruskólinn
Líf og starf 13. september 2023

Náttúran umgjörð sjálfsvinnu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Náttúruskólinn í Múlaþingi hefur að markmiði að efla börn og ungmenni til umhyggju og árvekni gagnvart sjálfum sér og náttúrunni og bjóða upp á áskoranir og skapandi tækifæri til reynslunáms.

Piltar úr Fellaskóla draga sig á kláfi yfir Jökulsá í Fljótsdal.

Áhersla skólans er á útivist, átthagafræðslu, heilbrigðan lífsstíl, sjálfseflingu, samskipti og samvinnu. Unnið er með börnum frá efstu deildum í leikskóla og upp á framhaldsskólastig. Skólinn var stofnsettur í ársbyrjun 2022 af hópi náttúru- og útivistarunnenda í Múlaþingi.

Höfuðstöðvar skólans eru í Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal. Skólinn hefur auk þess aðgengi að skálanum í Laugarfelli á Fljótsdalsheiði, Blöndalsbúð í Einarsstaðaskógi og skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Víknaslóðum. Samstarf er við Skógrækt ríkisins á Hallormsstað þar sem skólinn er að byggja upp lítið skólarjóður og aðstöðu.

Nýmæli á Íslandi

Hildur Bergsdóttir, félagsráðgjafi og fjallageit, er ein af stofnendum Náttúruskólans og formaður stjórnar. Aðspurð hvort til sé fyrirmynd að skólanum hér heima eða erlendis segir hún svo ekki endilega vera en horft hafi verið í ýmsar áttir í leit að innblæstri og hugmyndum.

„Flest eigum við sem að skólanum stöndum til að mynda sterkar rætur í skátastarfi og þeirra áhrifa gætir í sumum verkefnum okkar,“ segir Hildur. „Að auki hefur kennarateymi skólans unnið saman við ýmiss konar útivistarþjálfun hjá Ungmennafélaginu Þristinum sem starfrækt er á Héraði og sú reynsla og lærdómur flæða sannarlega inn í Náttúruskólann. Við höfum einnig litið til þess sem aðrir eru að gera vel í þessum efnum hér á landi, svo sem Miðstöð útivistar og útináms í Reykjavík og Náttúrubarnaskólinn á Ströndum.

Sömuleiðis höfum við horft yfir hafið, t.d. til Outward Boundsamtakanna sem starfa víða um heim. Sjálf hef ég svo þvælst víða um Evrópu og lært náttúrumeðferð og reynslunáms-nálgun og sá kjarni er einnig sterkur í starfi skólans.“

Útipúkar baka eldlummur við Blöndalsbúð í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum.

Reynslutímabili lokið

Skólinn hefur að sögn Hildar verið á nokkurs konar reynslu- og undirbúningsstigi í nokkur ár og átt í góðu samstarfi bæði við Fellaskóla og UMF-Þrist í að prófa sig áfram og reyna ýmsar nálganir, staðsetningar og útfærslur í starfinu sínu. Hún segir það hafa verið afar dýrmætt og gengið mjög vel. „Það má því segja að síðasta skólaár hafi verið fyrsta formlega starfsár skólans, að loknu þessu undirbúnings- og reynsluskeiði. Á þessu ári höfum við fengið skóla af svæðinu til okkar, bæði í lengri og styttri heimsóknir. Flestir koma í dagsheimsókn þar sem við leggjum áherslu á að þátttakendur öðlist jákvæða og hvetjandi náttúruupplifun, fái í gegnum reynslu- og samvinnunám að spreyta sig á ýmsum viðfangsefnum tengdum náttúru og útivist og jafnvel uppgötva nýja styrkleika og áhuga,“ segir Hildur.

Þau hafa einnig verið í lengri verkefnum. Náttúruskólinn fór, svo dæmi sé nefnt, til Ólafsfjarðar með fjögurra daga námskeið fyrir nemendur
í Menntaskólanum á Tröllaskaga. „Þar fengu nemendur að reyna sig í vinnusmiðjum í tálgun, listsköpun í náttúrunni, súrri og skýlagerð, útieldun, línuvinnu og hnútum, klettasigi og svo auðvitað leikjum og almennri útiverugleði,“ heldur Hildur áfram. „Það var mjög skemmtilegt verkefni og mikil reynsla,“ bætir hún við. Náttúruskólinn hefur einnig verið í samstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum og tekið þátt í náttúrumeðferðar- og útiveruáfanga sem þar er kenndur, nemendur þaðan komu að sögn Hildar t.d. í vel heppnaða og viðburðaríka óbyggða- og ævintýraferð í Óbyggðasetrið síðastliðið haust.

„Unglingastig Fellaskóla fór með okkur í ógleymanlegan tjaldleiðangur í vor, en þá var gengið frá Óbyggðasetrinu upp með Jökulsá í Fljótsdal, með viðkomu í Gjárhjalla. Gist var í tjöldum á leiðinni og sigrast á ýmsum áskorunum.“

Hildur Bergsdóttir og Míló.

Styrkleikar, hugrekki og hæfni

„Náttúruskólinn stóð síðastliðið haust fyrir kennaranámskeiði þar sem starfsfólki grunn- og leikskóla gafst færi á að dvelja með okkur eina helgi í Óbyggðasetrinu og kynna sér reynslu- og útinám frá ýmsum hliðum. Það var virkilega skemmtilegt og vel lukkað. Í vor buðum við í samstarfi við Múlaþing upp á sjálfseflingarnámskeið fyrir stúlkur á unglingastigi þar sem við fléttuðum saman aðferðum náttúru- og listmeðferðar til að efla og styrkja sjálfsmynd og samskiptahæfni.

Náttúruskólinn sá um barnadagskrá á Skógardeginum mikla á Hallormsstað í sumar og þar renndu í gegnum dagskrá hjá okkur örugglega ein 500 börn á öllum aldri svo það var mikið fjör. Svo það má með sanni segja að fyrsta starfsárið okkar hafi verið fjölbreytt og farsælt,“ segir Hildur jafnframt. Nóg hefur því verið um að vera hjá Náttúruskólanum og hér aðeins nefnt brot af því sem verið hefur á dagskrá.

„Það eru einhvern veginn svo falleg forréttindi að sjá styrkleika, hugrekki, hæfni og áhuga barna og ungmenna spretta fram í náttúrunni og virðingu og umhyggju þeirra fyrir henni eflast. Því þar gefast svo ótal mörg dýrmæt tækifæri til að vinna alla þessa þætti og náttúran býður okkur líka alltaf upp á eitthvað óvænt sem er ýmist til þess fallið að ýta út fyrir þægindarammann eða bjóða fegurð og töfra sem hitta beint í hjartastað,“ segir Hildur.

Spennandi tímar fram undan

Haustið og veturinn fram undan segir Hildur vera spennandi. Allir nemendur 3. og 9. bekkja hinna sex skóla Múlaþings komi daglangt í skólann og kennaranámskeið fyrir leik- og grunnskólakennara verði endurtekið. Þá styrki mennta- og barnamálaráðuneytið námskeið með aðferðum náttúru- og listmeðferðar fyrir börn af erlendum uppruna nú í vetur og ýmislegt fleira sé á döfinni.

„Það hefur alltaf verið sýn Náttúruskólans að vera með einum eða öðrum hætti fastur liður í skólagöngu barna hér á svæðinu og jafnvel víðar og styðja við og dýpka enn frekar þá útikennslu sem þar er í gangi,“ segir hún og heldur áfram: „Við sjáum fyrir okkur að nemendur komi fyrst til okkar í styttri dagsheimsóknir í eldri árgöngum leikskóla og fái síðan að spreyta sig í vaxandi verkefnum og viðfangsefnum hjá okkur eftir því sem grunnskólagöngunni vindur fram, það er á yngsta stigi og miðstigi, og endi svo grunnskólagönguna á lengri leiðangri þegar á unglingastig er komið.

Jafnframt viljum við gjarnan vera hluti af starfi framhaldsskólanna og geta boðið námskeið og leiðangra sem styrkja við útivistar- og sjálfseflingaráfanga og starf í framhaldsskólunum. Aukin heldur sjáum við fyrir okkur að bjóða í auknum mæli upp á sérsniðin námskeið úti í náttúrunni þar sem áherslan er á að geta unnið í lengri tíma samfellt en skólaheimsóknir gefa kost á og geta þá unnið dýpra með sjálfseflingu, samskipti, seiglu- og styrkleikaþjálfun hvers og eins, t.d. með aðferðum náttúrumeðferðar og listmeðferðar eins og við höfum verið að prófa okkur áfram með, með góðum árangri.“

Einnig er á teikniborðinu sumarnámskeið í einhvers konar sumarbúðaformi og er verið að leita að heppilegu húsnæði fyrir slíkt.

„Okkur í Náttúruskólanum skortir því sannarlega ekki sýn og hugmyndir til framtíðar!“ segir Hildur að lokum.

Valdísarkonur tóku karla í bakaríið
Líf og starf 21. júní 2024

Valdísarkonur tóku karla í bakaríið

Fjöldi briddsspilara tók þátt í keppni á landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri um...

Femínískur krosssaumur
Líf og starf 20. júní 2024

Femínískur krosssaumur

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir hefur vakið athygli með litlum útsaumsverkum þar se...

Grilluð lambaspjót
Líf og starf 20. júní 2024

Grilluð lambaspjót

Smellum í einfaldan lambarétt sem hentar vel á grillið hvort sem er heima eða í ...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 18. júní 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur verið óvanalega ánægður með sjálfan sig undanfarið og öruggur ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 14. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Nýr listrænn stjórnandi
Líf og starf 11. júní 2024

Nýr listrænn stjórnandi

Celia Harrison er nýr listrænn stjórnandi Skaftfells, listamið-stöðvar Austurlan...

Hrossagaukur
Líf og starf 11. júní 2024

Hrossagaukur

Hrossagaukur er meðalstór og nokkuð algengur vaðfugl. Það er áætlað að hér séu y...

Geitur til gleði og nytja
Líf og starf 10. júní 2024

Geitur til gleði og nytja

Á Lynghóli í Skriðdal er myndarbýli með um 350 fjár, 80 geitum og 60 nautum. Þeg...