Lopapeysa, hönnuð í tilefni fundar þeirra Reagans og Gorbachev.
Lopapeysa, hönnuð í tilefni fundar þeirra Reagans og Gorbachev.
Mynd / timarit.is
Líf og starf 4. nóvember 2024

Lopi leiðtoganna

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Íslenska ullin hefur lengi verið aðaluppistaðan í klæðnaði hérlendis og staðið af sér bæði veður og önnur harðindi.

Fyrst fór fólk höndum um vefstólana og óf sér klæði, en talið er að um miðja sautjándu öld hafi prjónakunnátta verið orðin almenn. Sérstaða íslensku ullarinnar er sú að hún er með tvenns konar þræði – ytri kallast tog og þeir innri þel. Ytri þræðirnir eru langir og harðgerir á meðan þeir innri eru fíngerðir, mjúkir og einangrandi. Önnur sérstæða ullarinnar okkar er að hægt er að prjóna úr óspunninni ull eða lopastrengjum, þá tvö-, þre- eða fjórföldum, en farið var að reyna slíkt hérlendis í kringum 1920. Þelið og togið var nefnilega ekki hægt að aðskilja með vélum og því blandað saman, en þannig varð til sá lopi sem við þekkjum í dag.

Skærlitar peysur úr lopa voru það heitasta árið 1988. Auglýsing frá árinu 1967 þegar hespu- lopinn kom á markað.
Upphaf ullarframleiðslu

Ullarframleiðslan Álafoss, fyrsta vélknúna klæðisverksmiðjan hérlendis, er vel kunn bæði innan og utan landsteinanna.

Björn Þorláksson, bóndi á Varmá, við fossinn Álafoss – sem er stundum nefndur Tungufoss – stofnaði verk- smiðjuna um aldamótin 1900. Klæðaverksmiðjurnar Iðunn og Gefjun bættust svo í hópinn en allar ófu þær og kembdu ull, spunnu og þess háttar fyrir þá sem þurftu. Árið 1919, eftir kaup Sigurjóns Péturssonar á Álafossi, hófst ullarvinnsla hérlendis í stórum stíl eins og kemur fram í rannsóknarskýrslu Ásdísar Jóelsdóttur lektors um uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar.

Þar segir einnig að: „Vinsældir tvíbanda- og útprjónaðra peysa til útivistar með fallegum stílhreinum munstrum og litasamsetningum í sauðalitunum jukust til muna á sjötta og sjöunda áratugnum og vöruheitið „Íslensk lopapeysa“ varð til fyrir tilstuðlan ferðamanna sem hingað komu ...“

Munstraða lopapeysan sem við þekkjum í dag kom nefnilega ekki fram á sjónarsviðið fyrr en þarna á sjötta áratugnum. Minjagripaverslanir voru þá þegar farnar að skjóta upp kollinum og í auglýsingu frá Álafoss í Alþýðublaðinu árið 1969 eru „húsmæður“ hvattar til þess að prjóna lopapeysur og selja minjagripaverslunum eða útflytjendum. Tekið er fram að hespulopa og prjónauppskriftir Álafoss séu þar nauðsyn, sérstaklega fyrir byrjendur. Mörg húsmóðirin tók fram prjónana og reyndi fyrir sér við þennan vinsæla söluvarning enda hespulopinn nýmóðins þarna eins og kom fram í auglýsingu fyrirtækisins.

„Höfum hafið framleiðslu á nýrri gerð af lopa – hespulopa – tvinnaður, þveginn, mölvarinn og lyktarlaus. Eykur afköstin um helming, slitnar ekki, engin afföll, enginn þvottur...“

Afskaplega ómóðins

Munstraður eða ekki, þá þótti þessi alíslenski klæðnaður ekki alltaf sérlega móðins. Árið 1988 birtist þó lífsstílsgrein í DV sem boðaði endurkomu flíkurinnar. Fer greinarhöfundur mikinn og útlistar hversu ósmört þessi þjóðlega gersemi hefur þótt, en þarna, rétt í lok níunda áratugarins, virðist hún vera á hægri uppleið. Helst þóttu sauðalitirnir kauðslegir og segir í fréttinni:

„Íslensku lopapeysurnar í sauðalitunum hafa af mörgum verið taldar hallærislegar og eingöngu nothæfar í skítverk. Tískusinnaðir Íslendingar hafa ekki látið sjá sig á götum úti í þessum flíkum og ef íslensk lopapeysa var til á heimilinu var hún yfirleitt geymd í kassa niðri í kjallara.“

Stærsta breytingin þarna á níunda áratugnum var að litadýrð lopapeysanna var í algleymingi. Á meðan dekkri litir voru í forgrunni voru mynstrin í skærum fjólubláum, bleikum og gulum tónum, að minnsta kosti í kventískunni. Karlmenn máttu enn við una að hafa grárri og brúnni tóna í sínum en þó birtust blátóna munstur hér og þar. Nokkuð var um að ullarfyrirtækin hönnuðu dragtir, pils og kápur og segir í frétt DV að: „Álafoss-Sambandið framleiðir dragtir í dekkri haustlitum, brúnu, ryðrauðu og gráu.“

Einnig segir greinarhöfundur frá því að þótt Íslendingar telji sauðalitina heldur púkalega séu lopapeysur í sauðalitunum þó enn vinsælastar hjá ferðamönnum.

Ekki leiðum að líkjast

Leiðtogafundur Reagans og Gorbachev árið 1986 hefur mögulega kynt undir fiðringi ferðalanga fyrir lopavörum, en í tilefni fundarins lét Álafoss hanna lopapeysu með andlitum þeirra kappa með orðunum ICELAND 1986 undir. Fengu þeir félagar hvor sína peysuna en að auki voru 500 stykki handprjónuð og hafa sjálfsagt rokið út. Eitthvað býsnaðist fólk yfir verðlaginu, þá í kringum 2.000 krónur sem þótti heldur mikil álagning, en þær kostuðu 900 kr. í heildsölu samkvæmt Þjóðviljanum þetta sama ár. Mögulega eiga einhverjir þessa gæðaflík í fórum sínum og spurning hversu hátt væri hægt að verðmerkja hana í dag.

Íslenskur lopi hefur verið okkur landsmönnum ein helsta stoð frá upphafi, hvort sem er við að koma okkur á framfæri eða halda á okkur hita. Svo er lopafatnaður afar endingargóður og vel hægt að nýta áfram með því að rekja upp það sem einu sinni var föðurland og prjóna úr því húfur. Eða dunda sér við að stagla í sokka yfir sjónvarpsglápi.

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...

Vefnaður úr kasmír
Líf og starf 2. desember 2024

Vefnaður úr kasmír

Hlýlegir treflar, sjöl og peysur úr kasmír er eitthvað sem okkur flestum þykir ó...

Kjötbókin 30 ára
Líf og starf 2. desember 2024

Kjötbókin 30 ára

Kjötbókin er 30 ára á þessu ári. Hún kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1994 o...

Skákþrautir á netinu
Líf og starf 2. desember 2024

Skákþrautir á netinu

Gríðarlegur fjöldi skákþrauta standa skákáhugafólki til boða til að æfa sig á á ...

Sveitabúðin Una
Líf og starf 28. nóvember 2024

Sveitabúðin Una

Hjónin Rebekka Katrínardóttir og Magnús Haraldsson hafa rekið sveitabúðina Unu n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...