Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Bændahópur skoðar kornakur.
Bændahópur skoðar kornakur.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 19. desember 2023

Farsælir bændahópar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Frá ársbyrjun hefur Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins (RML) staðið fyrir nýrri nálgun ráðgjafar sem snýst um samvinnu og samtal milli bænda þar sem þeir miðla þekkingu sinni og reynslu undir handleiðslu ráðunauta. Verkefnið hefur lagst vel í bændur.

„Ég kom til starfa hjá RML 1. september 2020 og eitt af fyrstu símtölunum sem ég fékk frá bónda var frá Þórarni Leifssyni í Keldudal. Erindið var að benda á frétt sem þá hafði birst í norska blaðinu Buskap þar sem mjög góðum árangri var lýst meðal bænda sem höfðu verið í stýrðri hóparáðgjöf í Finnlandi sem þá var verið að innleiða í Noregi. Þórarinn benti á mikilvægi þess að þannig ráðgjöf stæði íslenskum bændum til boða og brýndi nýja starfsmanninn að gera eitthvað til þess að svo yrði,“ segir Þórey Gylfadóttir, sem hefur haldið utan um verkefnið ásamt Eiríki Loftssyni og Sigurði Torfa Sigurðssyni.

„Til að stytta mjög sögu um leit að fjármagni og umsóknarskrif og neitanir úr Matvælasjóði og Tækniþróunarsjóði að þá fékkst fjármagn m.a. úr þróunarfé nautgriparæktarinnar.

Eiríkur Loftsson ræðir við hóp bænda um tegundir á firnaköldum vordegi á Suðurlandi.

RML leitaði til finnsks sérfræðings, Anu Ella, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði, til þess að koma að innleiðingu þessarar gerðar ráðgjafar sem á ensku gengur undir discussion groups en við ákváðum að nefna bændahópa. Anu hefur komið að kennslu og þjálfun afmarkaðs hóps starfsmanna RML í gegnum netfundi og fjórir starfsmenn RML farið til Finnlands til að fylgjast með hópum þar og Anu komið tvisvar til Íslands til að þjálfa starfsmenn RML.

Þessi gerð ráðgjafar krefst annarrar færni en sú hefðbundna ráðgjöf sem við almennt þekkjum og mikilvægt er að ná að tileinka sér það sem til þarf svo að bestur árangur náist.“

Lögðu áherslu á jarðrækt og fóðuröflun

Í bændahópum er beitt aðferðarfræði sem tengir faglega ráðgjöf við jafningjafræðslu í afmörkuðum hópum.

„Það er mikil og góð reynsla af þessari gerð ráðgjafar erlendis en fyrirkomulagið er aðeins breytilegt eftir löndum. Ákveðið var að leggja áherslu á þætti tengda jarðrækt og fóðuröflun svo sem bætta nýtingu áburðarefna en hægt er að aðlaga þessa gerð ráðgjafar að hvaða viðfangsefni sem er. Tveir ráðunautar eru með hverjum hóp sem samanstendur af einstaklingum frá tíu búum. Fleiri en einn getur mætt frá hverju búi en nauðsynlegt er að alltaf komi sami aðili frá búi til þess að samfella náist í vinnunni. Ráðunautarnir tveir skipta með sér ólíkum og fyrir fram ákveðnum hlutverkum, annar er lóðsi meðan hinn aðstoðar. Í upphafi velur hópurinn saman þau viðfangsefni sem hann vill leggja áherslu á, á þeim fimm fundum sem hópurinn hittist yfir árið. Mikið er lagt upp úr skipulagi þannig að í upphafi eru dagsetningar fundanna líka ákveðnar sem og tímasetningar þannig að hægt sé að skipuleggja fram í tímann enda getur verið mjög erfitt að ætla að finna sameiginlegar dagsetningar jafnóðum eins og fólk þekkir. Dagsetningar taka að hluta mið af störfum tengdum viðfangsefninu þannig að fundur er t.d. ákveðinn þegar líklegt er að menn séu byrjaðir að huga að jarðvinnslu að vori og því með hugann við þætti tengdum þeim vorverkum. Fyrsti fundurinn er í fundarsal en annars er hist á bæ einhvers úr hópnum. Skipulagður fundur hverju sinni eru 3 klukkustundir og er sú tímalengd ákveðinn í samræmi við reynslu erlendis frá.“

Hægt er að hafa fyrirkomulag hópanna með aðeins mismunandi hætti en það tengist þá líka þróun þeirra í verkefninu þegar hópur hefur verið starfandi saman í aðeins lengri tíma.

Þórey Gylfadóttir og Sigurður Magnússon frá Hnjúki skoða innihald í ólíkum heyrúllum.

Mikilvægt að fá innsýn í búskap kollega

RML bauð upp á fyrstu tvo hópana í ársbyrjun 2023.

„Vel hefur gengið og það hefur verið gaman að taka þátt í vinnu með þessum hópum og líka gaman að koma að því að geta boðið íslenskum bændum upp á nýja gerð ráðgjafar sem þeir kölluðu eftir. Erfitt er að sýna fram á mælanlegan árangur af eins árs verkefni þegar um er að ræða jarðrækt en við erum þess fullviss að bændur hafi haft bæði gagn og gaman af vinnunni í hópunum enda erum við mjög bjartsýn á að þessir tveir hópar muni halda áfram á næsta ári. Erlendis hafa sumir hóparnir haldið saman lítið breyttir í yfir tíu ár og hafa náð mjög góðum árangri.

Eftir því sem tengsl verða betri og traust milli bænda eykst þá næst betur að greina hvað vel er gert og eins hvaða vandamál menn eru að glíma við sem oft eru svipuð á milli búa.“

Þórey segir að bæði bændur og ráðunautar hafi lært inn á ný vinnubrögð. „Það er mjög gaman að upplifa breytinguna á hvorum hóp frá fyrsta fundi til þess síðasta. Þar sem meirihluti funda er haldinn á búum þá gefst gott tækifæri til að skoða og sjá hjá hver öðrum sem er mjög gott og það hefur sýnt sig að bændur hafa haft mikinn áhuga á því og finnst það vera mikilvægur þáttur.“

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 18. júní 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur verið óvanalega ánægður með sjálfan sig undanfarið og öruggur ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 14. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Nýr listrænn stjórnandi
Líf og starf 11. júní 2024

Nýr listrænn stjórnandi

Celia Harrison er nýr listrænn stjórnandi Skaftfells, listamið-stöðvar Austurlan...

Hrossagaukur
Líf og starf 11. júní 2024

Hrossagaukur

Hrossagaukur er meðalstór og nokkuð algengur vaðfugl. Það er áætlað að hér séu y...

Geitur til gleði og nytja
Líf og starf 10. júní 2024

Geitur til gleði og nytja

Á Lynghóli í Skriðdal er myndarbýli með um 350 fjár, 80 geitum og 60 nautum. Þeg...

Þörungar, þang og þari
Líf og starf 10. júní 2024

Þörungar, þang og þari

Aukin vakning hefur verið undanfarin ár í vinnslu heilsuafurða úr þörungum, þar ...

Þegar Siggi Dan vann Larsen
Líf og starf 10. júní 2024

Þegar Siggi Dan vann Larsen

Í maí árið 1972 tefldi danski stórmeistarinn Bent Larsen fjöltefli í sænsku borg...

Snillingar og hálfvitar
Líf og starf 7. júní 2024

Snillingar og hálfvitar

Bridds er skemmtileg hugaríþrótt sem reynir á rökhugsun, minni, stærðfræði, taln...