Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Horft yfir Búðardal.
Horft yfir Búðardal.
Mynd / Eysteinn Guðni Guðnason, Wikipedia
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, sem fest er í sessi sem aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun 2018–2024.

Merkja má ýmis jákvæð áhrif verkefnis Brothættra byggða á borð við aukna virkni og samstöðu íbúa hérlendis. Er markmiðið að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarkjörnum landsins og er m.a. unnið í samvinnu við íbúa, landshlutasamtök, sveitarfélög og aðra með það fyrir augum að ráða bót á þessum vanda.

Litið er til örðugra viðfangsefna sem eiga við á fleiri en einum stað á landinu, gætt er þess að stilla saman strengi yfirvalds og íbúa og á allan hátt efla mótstöðuafl brothættra byggða. Fá íbúar hvers byggðarlags fyrir sig kost á að forgangsraða málefnum sem þeim þykja áríðandi og sjá verkefnastjórar Byggðastofnunar um að virkja frumkvæði og samtakamátt íbúanna, enda mikilvægar raddir í hverju samfélagi og lausnir málefna að sama skapi mikilvægar.

DalaAuður

Sveitarfélagið Dalabyggð er eitt þeirra byggðarlaga sem kusu að taka þátt í verkefninu, frá fyrri hluta árs 2022, en áætlað er að þátttaka þeirra vari til loka árs 2025 hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar. Í Dalabyggð búa um 660 manns þar sem sauðfjárrækt er helsta landbúnaðargreinin, en í sveitarfélaginu eru reyndar nokkur stærstu fjárbúa landsins. Um ræðir mikið sögusvæði allt frá landnámi og eiga mörg þekkt skáld sterk tengsl við héraðið, Theodóra Thoroddsen, Stefán frá Hvítadal, Steinn Steinarr, Jóhannes úr Kötlum og fleiri.

Íbúaþing vegna verkefnis Brothættra byggða, undir heitinu DalaAuður, var haldið í lok mars árið 2022, en þar kom sterklega fram að nauðsynlegt væri að auka fjölbreytni atvinnutækifæra og efla það sem fyrir er. Bættir innviðir, þá vegir, fjarskipti, þriggja fasa rafmagn og aukið framboð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.

Önnur málefni voru tekin fyrir á borð við byggingu íþróttahúss og sundlaugar auk staðar sem hýst gæti félagsstarf og minni viðburði. Atvinnumál og nýsköpun voru einnig rædd og lagt var til að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í allri atvinnuuppbyggingu með umhverfisvottun að markmiði.

Kraftur og elja einkennir íbúafundi Dalabyggðar. Myndir / Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir

Ábúendur framtíðarinnar

Skilaboð barna og unglinga komu skýrt fram á þinginu, helst er varða skólamál, en áhugi er á að styrkja enn frekar kosti Dalabyggðar sem barnvæns samfélags.

Nemendur Auðarskóla fengu tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum en einnig framtíðarsýn sinni í gegnum verkefnavinnu, þar sem þau veltu meðal annars fyrir sér hvaða störfum þau langaði að sinna í sinni byggð sem fullorðnir einstaklingar, hvaða áhugamál væru helst á baugi og hvernig þeim fyndist að bæta mætti samfélagið.

Einnig kom fram að efla þyrfti heima- og stoðþjónustu eldri borgara og bæði íbúðum og rýmum á dvalarheimilum aldraðra þyrfti að fjölga. Samkvæmt samantekt var niðurstaða fundarins að „gera skyldi Dalabyggð eftirsóknarverða“ en þarna væri um blómlega byggð að ræða sem átt hefði undir högg að sækja m.a. vegna breyttra atvinnuhátta. Ríkuleg saga er ein af auðlindum svæðisins, mikil tækifæri eru í skógrækt og nálægðin við Breiðafjörð skapar ýmsa möguleika. Stærstu hagsmunamál íbúanna væru þó að bæta þyrfti innviði og samgöngur samkvæmt forgangsröðun málefna sem tekin voru fyrir.

Litið var til þess að byggðarmynstur Dalabyggðar væri fremur óvenjulegt, en rúm 60% íbúanna búa í dreifbýli utan Búðardals. Samfélagið er fámennt á stóru landsvæði sem segja má að sé að ganga í gegnum miklar breytingar. Ákveðið var að styrkja Búðardal sem kjarna byggðar og verður uppbygging íþróttahúss og sundlaugar liður í því.

Yngsta kynslóðin leggur á ráðin um framtíðina en allar raddir samfélagsins fengu vægi.

Styrkveitingar

Í dag svarar heildaryfirlitum styrkja til verkefnis DalaAuðs 24,5 milljónum sem skiptist niður á 42 verkefni. Helming þeirra árið 2022 og hinn helminginn árið 2023. Fóru styrkveitingar í hin ýmsu málefni, allt frá ræktun aspargræðlinga, byggingu áfangaheimilis og kaupum á rúllutætara til aðstöðu sjúkraþjálfara, tónleikahalds, uppbyggingar fræhallar og aðstöðu Dýragarðsins á Hólum svo fátt eitt sé nefnt. Rebecca Ostenfeld, forsvarsmaður dýragarðsins, segir fjárveitinguna hafa komið sér vel en þeim var veittur ein milljón króna í styrk árið 2022 til hönnunar á nýrri og bættri aðstöðu fyrir bæði dýr og gesti.

Dýragarðurinn á Hólum er einkarekið athvarf, en þar sem um sjálfboðavinnu er að ræða má nærri geta að kostnaður við fóður og uppihald er allnokkur og innkoman helst á sumrin þegar gesti ber að garði.

Því eru styrkir, jafnvel í formi fóðurs og fersks grænmetis fyrir dýrin, vel þegnir.

Framvinda verkefnis

Í framhaldi vinnslu verkefnis DalaAuðs var íbúafundur haldinn um miðjan nóvember síðastliðinn. Kom fram að mikill kraftur hefur einkennt alla þá er að verkefninu koma, íbúa jafnt sem hagaðila, enda röggsamlega stýrt af Lindu Guðmundsdóttur verkefnastjóra. Einnig er talið til fyrirmyndar samstarf þeirra Bjarka Þorsteinssonar sveitarstjóra, þá með tilliti til þess hvernig slíkt samstarf getur skilað vel unnum starfsmarkmiðum.

Gerð var grein fyrir framvindu verkefnisáætlunarinnar og stöðu styrktra verkefna. Fundargestum var skipt í fjóra umræðuhópa eftir meginmarkmiðum verkefnisins auk þess sem sérstaklega voru tekin fyrir málefni eldri borgara og menningarmál.

Á fundinum kynntu tveir styrkþegar verkefni sín, sem bæði eru nýsköpunarverkefni. Þóra Sigurðardóttir kynnti listsetrið Nýp á Skarðsströnd þar sem byggð var sýningaraðstaða fyrir myndlist og hönnun árið 2018. Sótt var um styrk til þess að auka fjölbreytni starfseminnar og fékkst úthlutuð 1,1 milljón króna í stofnstyrk fyrir búnað og aðföng fyrir grafíkverkstæði árið 2023. Svo steig á svið Berghildur Pálmadóttir og sagði frá verkefni sínu, Áfangaheimilinu á Dunki, sem hlaut 900.000 króna styrk. Sáu aðstandendur þess verkefnis fyrir sér að hefja starfsemina á því að endurbyggja gestahúsið Möggukot, staðsettu rétt við íbúðarhúsið á Dunki. Stærð hússins var áætluð um 28 fm, sem híbýli fyrir einn einstakling. Nú á nýju ári hefur verkefnið þróast frá því að styrkurinn var veittur og samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa fyrstu skjólstæðingarnir nú dvalið að Dunki og því myndast reynsla í verkefninu.

Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri segir almenna jákvæðni gagnvart verkefninu og aðspurð tekur Berghildur svo sannarlega undir það.

Samstarf Bjarka Þorsteinssonar sveitarstjóra tv. og Lindu Guðmundsdóttur verkefnisstjóra hefur skilað góðum árangri.

Að lokum

Samhljóða niðurstaða fundar var að heilmikið hefði áunnist í framfaramálum byggðarlagsins og hvatti fundarstjóri gesti til þess að halda áfram með jafnvirkum hug og hætti og áður hefði verið raunin.

Að sama skapi kom fram að opnað væri fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð DalaAuðs frá og með 15. febrúar 2024 og íbúar hvattir til að sækja um.
Sem fyrr veitir Linda verkefnisstjóri íbúum aðstoð vegna undirbúnings umsókna eins og óskað er eftir en taka skal fram að frestur þeirra rennur út fimmtudaginn 29. febrúar þannig nú er um að gera að láta ríða á vaðið.

Skylt efni: Búðardalur

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...