Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ungar plöntur verða mun hraustlegri og vaxa betur í moltublandaðri mold
Mynd / Pétur Halldórsson
Fréttir 12. október 2016

Ungar plöntur verða mun hraustlegri og vaxa betur í moltublandaðri mold

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Molta úr jarðgerðarstöð Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit lofar góðu við trjáplönturækt hjá Sólskógum í Eyjafirði. Birkiplöntur sem settar voru í moltublandaða mold sýna t.d. minni merki um birkiryð en jafngamlar plöntur í hefðbundinni mold.
 
Katrín Ásgrímsdóttir og Gísli Guðmundsson, eigendur Sólskóga, voru í sumar með til sölu moltu frá Moltu ehf. og voru viðtökur viðskiptavina góðar. Þau gerðu, að því er fram kemur á vef Skógræktarinnar, óformlegar tilraunir með moltuna og segja hana lofa góðu. Ýmsar trjá- og blómplöntur hafa verið settar í jarðveg sem mismunandi mikið hefur verið blandaður moltu, jafnvel í hreina moltu eða moltu með fimmtungsblöndu af sandi.
 
Tvenns konar molta framleidd
 
Molta ehf. framleiðir aðallega tvenns konar moltu, svokallaða kraftmoltu sem er unnin úr ýmiss konar lífrænum úrgangi, þar á meðal kjöt- og fiskúrgangi, en einnig safnhaugamoltu sem eingöngu er unnin úr gróðurleifum, garðaúrgangi frá heimilum, stofnunum og fyrirtækjum. Katrín og Gísli gerðu tilraun með þá moltu á liðnu sumri.Kraftmoltan hentar hins vegar mjög vel á grasflatir og sem yfirlag í blómabeð til að mynda næringarforða og bægja frá illgresi sem á erfitt með að spíra í moltunni.
 
Verða stinnari og hraustlegri
 
Niðurstöður þessara óformlegu tilrauna eru á þann veg að í moltublandaðri mold verði ungar trjáplöntur að gerðarlegri trjám. Hæðarvöxtur verður gjarnan minni enda minna nitur í moltunni en í tilbúnum áburði. Trén greina sig hins vegar meira, eru stinnari og hraustlegri að öllu leyti en sambærileg tré í hefðbundnum jarðvegi sem fengið hafa tilbúinn áburð. Ekki síst er blaðlitur þeirra dekkri og blöðin virðast þykkri og stinnari.
 
Tilraunirnar eru að því er fram kemur ekki vísindalegar enn sem komið er en Katrín og Gísli hafa áhuga fyrir að setja upp marktækari tilraunir, til dæmis í samstarfi við Skógræktina og Moltu ehf. Rætt er um að kanna yfirvetrun trjáa í moltu í vetur, jafnvel sáningu í plöntubakka með moltublöndu og fleira. 

Skylt efni: molta | Molta ehf. | Sólskógar