Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Tíðni banvænnar mæðuveiki eykst
Fréttir 17. júlí 2014

Tíðni banvænnar mæðuveiki eykst

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Tíðni mæðiveiki í sauðfé hefur verið að aukast í Bretlandi. Mæðiveiki og visna er sjúkdómurinn sem fyrst var skilgreindur hérlendis í kjölfar rannsókna dr. Níelsar Dungal. Ber sjúkdómurinn þess vegna íslenskt nafn og er á ensku nefndur „maedi visna“. Er nafnið lýsandi fyrir sjúkdóminn, sem leiðir til þess að sauðféð visnar upp og drepst. Mæðiveikivírusinn barst hingað til lands á fjórða áratugnum ásamt garnaveiki og kýlapest með karakúlfé sem kom hingað frá Þýskalandi en á uppruna að rekja til Úsbekistan. Var mæðiveikinni útrýmt hér með gríðarlega kostnaðarsömum niðurskurði um og upp úr 1950. Sjúkdómurinn barst einnig til Bretlands með innfluttu fé.

Tíðin hefur tvöfaldast á 18 árum

Í nóvember á síðasta ári var greint frá því að mæðiveikitilfelli í Bretlandi hafi tvöfaldast á 18 árum eða úr 13% í 24%. Þá var talið að um 109.000 fjár í Bretlandi væri sýkt í stofni sem telur í heild rúmlega 14,7 milljónir dýra. Greinilegt er af nýjustu fréttum að sýkingum fer ört fjölgandi. Sjúkdómurinn er útbreiddur um allt meginland Evrópu enda nær óheftur tilflutningur á fé milli landa. Þar hafa menn skýlt sér að bak við það að fénu fylgi vottorð frá viðkomandi löndum en sagan sýnir að slík vottorð hafa reynst afar haldlítil.

Tölur frá Skotlandi, Englandi og Wales sýna mikla fjölgun smittilfella í sauðfé. Hefur sjúkdómurinn þegar valdið umtalsverðu tjóni og í einni hjörðinni var dauðatíðnin komin í 8%. Í annarri hjörð hefur sjúkdómurinn leitt til 20-40% minni frjósemi, sem hefur valdið tjóni sem talið er nema um 30-50 þúsund pundum.

Vítin til að varast

Eins og fyrr segir var þessum sjúkdómi útrýmt á Íslandi með miklum niðurskurði á fé, einkum á árunum frá 1950 til 1955. Var þá meðal annars öllu fé á Suðurlandi fargað og gengið kyrfilega úr skugga um að engin kind slyppi og var mikið haft fyrir að elta uppi hverja einustu kind af Suðurlandi á afréttum. Sauðfjárrækt var síðan aftur tekin upp á svæðinu með flutningi á líffé af öðrum ósýktum landssvæðum. Þessi staðreynd er m.a. einn af þeim þáttum sem hefur knúið menn til að fara mjög varlega í innflutningi á hráu kjöti og lifandi dýrum.

Vottanir hafa reynst haldlitlar

Athygli vekur að í umræðu um óheftan innflutning á hráu kjöti hafa menn einmitt beitt röksemdum um að allt sé það vottað með opinberum pappírum sem mörg dæmi eru um að sé lítils virði. Kom það berlega í ljós í hneykslinu sem upp kom varðandi sölu á nautakjötsafurðum í Evrópu á árunum 2012 og 2013, þar sem lítið reyndist vera að marka stimpla og pappíra um innihalds- og upprunamerkingar. Þar reyndist stórfyrirtækið Findus ekki barnanna best þrátt fyrir að það væri margvottað af opinberum aðilum. Í frétt BBC frá 7. febrúar 2013, kom m.a. fram að nautakjöts-lasagna frá Findus innihélt ekkert nautakjöt, aðeins 100% hrossakjöt.

Dýralæknar skora á bændur að vera á varðbergi

Í breska bændablaðinu Farmers Weekly var birt frétt um málið 25. júní síðastliðinn undir fyrirsögninni „Aukning á mæði/visnu sýkingum í sauðfé“. Þar segir að dýralæknar reyni nú að höfða til bænda um að vera á varðbergi vegna vaxandi ógnar sem stafar af hinum banvæna sjúkdómi, mæðiveiki.

Sérfræðingar frá Skoska dreifbýlisháskólanum (Scotland Rural College – SRUC) segja að hátt hlutfall sýkinga af þessum ólæknandi sjúkdómi hafi fundist í nokkrum sauðfjárhjörðum. Þá sé staðfest að aukin fjöldi sýkingartilfella sé í öllum sauðfjárstofninum, líka í Wales og í Suðvestur-Englandi.

Í sýnum sem dýralæknaþjónustu SRUC barst úr 12 kindum úr einni hjörðinni reyndust 11 ær vera sýktar. Í 48 sýnum úr annarri hjörð reyndust 41 kind vera sýkt.

Má ekki vanmeta sjúkdóminn

„Framleiðendur hafa ekki efni á að vera andvaralausir og van­meta þennan sjúkdóm,“ segir Ian Pritchard, stjórnandi heilsufarsáætlunar SRUC. Hann segir að sjúkdómurinn sé illskeyttur og erfitt að greina hann. Nokkur einkenni eru þó þekkt sem fylgifiskur sjúkdómsins eins og þyngdartap, lungnabólga, slæmt skrokkástand, léleg frjósemi, júgurbólga, liðabólga og útlimalömun.

Dýralæknar segja að allt líffé sem bændur kaupi ætti að setja í sóttkví og taka úr því sýni til rannsókna áður en slíku fé er hleypt inn í hjörð viðkomandi bónda. Yfir 2.600 þátttakendur eru í sérstöku mæðuveikiverkefni og taka þeir reglulega sýni úr fé og fylgja ströngum reglum sem settar hafa verið. Hvetur Ian Pritchard alla þá sem selja líffé að taka þátt í þessu verkefni. 

Afleiðing taumlausrar markaðshyggju og vottorðatrúar

Bændablaðið bar þessa frétt Farmers Weekly undir dr. Ólaf R. Dýrmundsson, ráðunaut hjá Bændasamtökum Íslands, en hann bjó í Wales frá 1966-1972 þar sem hann stundaði búvísindanám við Háskólann í Aberystwyth. 
 
„Mæði/visna var ekki mikið vandamál á Bretlandseyjum fyrir 50 árum, var til en lítt útbreidd, og voru m.a. stundaðar rannsóknir á þess háttar sjúkdómum í Edinborg. Þar sá ég kind með votamæði vorið 1978 sem þátttakandi í British Council-námskeiði um sauðfé og sauðfjársjúkdóma. Bretland gekk í Evrópusambandið 1973 og þá voru allar gáttir opnaðar fyrir frjálsa verslun, m.a. með búfé af ýmsum kynjum,“ segir Ólafur. 
 
„Skemmast er frá því að segja að í kjölfarið hafa mæðiveiki og ýmsir aðrir búfjársjúkdómar átt greiða leið inn á Bretlandseyjar og þessi válegu tíðindi benda til þess að sjúkdómavarnir ESB sem byggjast aðallega á vottorðum og pappírseftirliti virki alls ekki eins og til var ætlast. Karakúlfénu,sem flutt var til Íslands frá Dýra­lækninga­stofnuninni í Halle í Þýskalandi árið 1933, fylgdu hin ágætustu vottorð sem ekki reyndust pappírsins virði því að með fénu komu a.m.k. votamæði, þurramæði, visna og garnaveiki.
 
Sporin hræða, því að vottorð duga skammt eins og reynslan hefur sýnt og vottorðatrú getur reynst skammvinnur vermir. Við sem erum að reyna að berjast gegn frjálsum innflutningi hrás kjöts, hvað þá heldur búfjár, verðum allt of oft vör við tómlæti um þessi efni en til mikils er að vinna. 
 
Ísland hefur mikla sérstöðu, er laust við fjölda smitsjúkdóma í búfé sem þekktir eru í nágrannalöndunum. Útbreiðsla mæði/visnu á Bretlandseyjum á seinni árum er vissulega víti til varnaðar. Íslendingum tókst, eftir kostnaðarsama of erfiða þolraun að útrýma mæði/visnu, þ.e. votamæði 1952 mæði/visnu 1965. Eflaust vildu breskir sauðfjárbændur standa núna í sporum íslenskra stéttarbræðra. Þeir fá þó ekki vörnum við komið vegna taumlausrar markaðshyggju og vottorðatrúar Evrópusambandsins sem fyrir löngu hefur gengið sér til húðar í öllu matvæla- og sjúkdómaeftirliti eins og dæmin sanna.“

 

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...