Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hrafn frá Efri-Rauðalæk er með hæstu aðaleinkunn kynbótahrossa inn á Landsmót í ár, 8,84. Knapi er Daníel Jónsson.
Hrafn frá Efri-Rauðalæk er með hæstu aðaleinkunn kynbótahrossa inn á Landsmót í ár, 8,84. Knapi er Daníel Jónsson.
Hross og hestamennska 29. júní 2016

Skrautsýning hrossaræktar fram undan

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Hæst dæmdu kynbótahross vorsýninga verða saman komin á Hólum í Hjaltadal í næstu viku. Verður þar um auðugan garð að gresja fyrir ræktendur og unnendur íslenskra hrossa, enda kemur það besta í íslenskri hrossarækt fram. Hér verður stiklað um sýningarskrá Landsmóts hestamanna.
 
Kynbótasýningum fyrir Landsmót lauk þann 10. júní síðastliðinn og hafa 166 hross áunnið sér rétt til að koma fram á kynbótasýningum á Landsmóti hestamanna sem haldið verður að Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní til 3. júlí. 
 
 
Árið 2014 hlutu 280 lágmarkseinkunnir til þátttöku á Landsmóti hestamanna og komu þá 231 hross til dóms. Í ár er kerfið breytt, þar sem fjöldi hrossa í hverjum flokki er takmarkaður. Meðfylgjandi tafla sýnir breidd einkunna í hverjum flokki fyrir Landsmót í ár í samanburði við einkunnarlágmörk og hæstu einkunnir sem gefnar voru í hverjum flokki á Landsmóti hestamanna árið 2014. Lægsta einkunn hrossa í hverjum flokki hefur hækkað í öllum flokkum nema einum, í flokki 5 vetra hryssna. 
 
Fjölbreyttur hópur kynbótahrossa kemur fram í ár. Ættir þeirra liggja í fjölmargar áttir sem sýnir sig ekki síst í því að hrossin eru undan 93 stóðhestum. Álfur frá Selfossi á flest afkvæmi í hópnum, ellefu talsins. Átta hross eru afkvæmi Orra frá Þúfu, en enn fleiri eru undan Orrabörnum svo áhrifa hans gætir víða. Stáli frá Kjarri og Álffinnur frá Selfossi eiga 6 afkvæmi hvor, en Ómur frá Kvistum og Spuni frá Vesturkoti eiga 5 afkvæmi hvor í hóp kynbótahrossa í ár. 
 
Einnig er áhugavert að skoða hryssurnar sem standa baki kynbótahrossunum. Ellefu hryssur eiga fleiri en eitt afkvæmi í hópnum. Ber þar helst að nefna heiðursverðlaunahryssurnar Álfadís frá Selfossi, sem á fjögur afkvæmi, og Þoku frá Hólum, sem á þrjú afkvæmi.
 
Fjölhæfir einstaklingar
 
Aðeins tíu stóðhestar koma fram í elsta flokki. Hæstu einkunn allra kynbótahrossa í vor hlaut Hrafn frá Efri-Rauðalæk. Hrafn er undan Markúsi frá Langholtsparti og Hind frá Vatnsleysu. Hrafn hlaut 9,03 fyrir kosti á kynbótasýningu í Spretti á dögunum, 8,55 fyrir sköpulag og 8,84 í aðaleinkunn. Þetta er þriðja Landsmót sem Hrafn verður sýndur, en hann varð í 2. sæti 4 vetra stóðhesta í Reykjavík árið 2012 og í 3. sæti 6 vetra stóðhesta á Hellu 2014. Þjálfari hans og sýnandi er Daníel Jónsson. 
 
Miklar hæfileikasprengjur voru sýndar í flokki 6 vetra stóðhesta í vor en tuttugu stóðhestar hlutu þátttökurétt á Landsmóti. Konsert frá Hofi er þar efstur á blaði. Hann var af mörgum talinn hestur Landsmóts hestamanna árið 2014. Kom hann þá fram 4 vetra, hlaut 8,72 í aðaleinkunn, þar á meðal einkunnina 10 fyrir tölt. Hann hlaut 8,78 í aðaleinkunn á kynbótasýningu í Spretti, 8,56 fyrir sköpulag og 8,78 fyrir kosti. Konsert er undan Ómi frá Kvistum og Kantötu frá Hofi en Jakob Svavar Sigurðsson er nú sýnandi hans.
 
Efstur 5 vetra stóðhesta inn á mót er Draupnir frá Stuðlum undan Kiljan frá Steinnesi og heiðursverðlaunahryssunni Þernu frá Arnarhóli. Hann hlaut 8,68 þegar hann var sýndur á Sörlastöðum í Hafnarfirði í vor, 8,55 fyrir sköpulag og 8,77 fyrir kosti. Trausti frá Þóroddsstöðum var hæst dæmdi 4 vetra stóðhestur síðasta árs og er nú næstefsti 5 vetra hestur inn á Landsmót. Trausti er undan Þresti frá Hvammi og Snót frá Þóroddsstöðum Hann var sýndur í Spretti í Kópavogi í vor og hlaut þá 8,52 í aðaleinkunn, 8,30 fyrir sköpulag og 8,67 fyrir kosti.
 
Fimmtán 4 vetra stóðhestar koma fram á Hólum. Hæstu einkunn þeirra í vor hlaut Valgarð frá Kirkjubæ undan Freistingu frá Kirkjubæ og Sjóði frá Kirkjubæ, sem einmitt er skráður til leiks í A-flokki gæðinga á mótinu. Valgarð var sýndur á Mið-Fossum í Borgarfirði af Guðmundi Friðriki Björgvinssyni og hlaut þá 8,44 í aðaleinkunn. Hann hlaut 8,31 fyrir sköpulag og 8,52 fyrir kosti. Næstur á lista er Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk, undan Fáfni frá Hvolsvelli og Sveiflu frá Lambanesi. Sirkus hlaut 8,35 í aðaleinkunn þegar hann var sýndur á Hlíðarholtsvelli á Akureyri, 8,17 fyrir sköpulag og 8,47 fyrir kosti.
Sextán hryssur koma fram í flokki 7 vetra og eldri. Efst inn á mót er Þota frá Prestsbæ undan heiðursverðlaunahrossunum Orra frá Þúfu og Þoku frá Hólum. Þota hlaut 8,73 þegar hún var sýnd á Mið-Fossum í Borgarfirði í vor, 8,61 fyrir sköpulag og 8,81 fyrir kosti. Þórarinn Eymundsson sýnir Þotu. Nípa frá Meðalfelli er önnur inn á mót í flokknum en hún er jafnframt með hæstu einkunn allra hrossa fyrir kosti fyrir mót. Nípa, sem er undan Orra frá Þúfu og Esju frá Meðalfelli, hlaut 9,05 fyrir kosti þegar hún var sýnd í Spretti í Kópavogi í vor. Hún hlaut 8,70 í aðaleinkunn og 8,16 fyrir sköpulag.
 
Þrjátíu sex vetra hryssur verða sýndar á Landsmótinu á Hólum. Hæst inn á mót er efsta 4 vetra hryssa Landsmótsins á Hellu, Hamingja frá Hellubæ. Hamingja er undan Aðli frá Nýjabæ og Þulu frá Hellubæ. Hún var sýnd á Gaddstaðaflötum í vor og hlaut þá 8,59 í aðaleinkunn, 8,61 fyrir sköpulag og 8,58 fyrir kosti. Bergur Jónsson er sýnandi hennar.
 
Alls verða 35 hryssur sýndar í 5 vetra flokki og fjölbreytnin er mikil. Hæst inn á mót er Viðja frá Hvolsvelli, undan Frakki frá Langholti og Vordísi frá Hvolsvelli. Viðja er með 8,50 í aðaleinkunn, 8,29 fyrir sköpulag og 8,63 fyrir kosti. Elvar Þormarsson sýnir hana.
 
Tuttugu 4 vetra hryssur koma fram á Hólum. Hæst er Stefna frá Torfunesi, undan Vita frá Kagaðarhóli og Bylgju frá Torfunesi. Stefna hlaut 8,46 þegar hún var sýnd á Hólum í vor. Hún hlaut þá 8,33 fyrir sköpulag og 8,55 fyrir kosti. Gísli Gíslason sýndi hryssuna.
 
Úrvalssýning kynbótahrossa
 
Auk kynbótasýningar og verðlaunaveitingu afkvæmastóðhesta mun á Landsmóti vera boðið upp á úrvalssýningu kynbótahrossa á laugardeginum kl. 16. Þar er hugmyndin að virða fyrir sér bestu hross landsins fyrir ákveðna eiginleika og kynna fjölhæfni og fegurð hestsins um leið. Á þessa sýningu koma fram hross sem hlutu einkunnina 9,5–10 fyrir tölt, brokk, skeið, stökk og fegurð í reið í vor, óháð því hvort þau unnu sér þátttökurétt á Landsmóti sem einstaklingar eða ekki.
 
Til gamans má geta að sextán hross hlutu einkunnina 9,5 fyrir tölt á Íslandi í vor, en engin hefur enn hlotið einkunnina 10. Átta hross hlutu einkunnina 9,5 fyrir brokk og fimm hross 9,5 fyrir stökk. Þrjú hross hlutu einkunnina 10 fyrir skeið, Örvar frá Gljúfri, Stáss frá Ytra-Dalsgerði og Eðall frá Torfunesi, en 21 hross hefur  hlotið 9,5. Níu hross hlutu 9,5 fyrir fegurð í reið. 

6 myndir:

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa
Fréttir 2. desember 2022

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa

Þar sem fjöldi skráðra grágæsa á talningastöðum á Bretlandseyjum er 30% færri en...

Minkur til Danmerkur
Fréttir 1. desember 2022

Minkur til Danmerkur

Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja...

Frummenn vildu vel steiktan fisk
Fréttir 30. nóvember 2022

Frummenn vildu vel steiktan fisk

Rannsóknir á beinaleifum vatnakarfa sem fundust þar sem í dag er Ísrael benda ti...

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins
Fréttir 30. nóvember 2022

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins

Steypustöðin gekk nýlega frá samningi við steypudælu og -bílaframleiðandann Putz...

Ný sálmabók tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2022

Ný sálmabók tekin í notkun

Þann 13. nóvember sl. var ný útgáfa sálmabókarinnar tekin í notkun í kirkjum lan...

Fljúgandi bolabítur
Fréttir 28. nóvember 2022

Fljúgandi bolabítur

Skömmu eftir miðja nítjándu öld lýsti Alfred Russel Wallace, sem var samtímamaðu...

Hjólreiða- og göngustígur milli Hellu og Hvolsvallar?
Fréttir 28. nóvember 2022

Hjólreiða- og göngustígur milli Hellu og Hvolsvallar?

Nú eru uppi hugmyndir um að leggja hjólreiða- og göngustíg á milli Hellu og Hvol...

Sólarorkuver á fjósþaki
Fréttir 25. nóvember 2022

Sólarorkuver á fjósþaki

Á Eystri-Leirárgörðum var nýlega sett upp raforkuver á útihús. Þetta er hluti af...