Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri er bjartsýnn á að íþróttakeppni sem viðbót við dagskrá Landsmóts hestamanna muni laða að gesti. Hér er hann ásamt Sölva frá Stuðlum sem er ríkjandi Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og mun því kannski keppa á mótinu.
Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri er bjartsýnn á að íþróttakeppni sem viðbót við dagskrá Landsmóts hestamanna muni laða að gesti. Hér er hann ásamt Sölva frá Stuðlum sem er ríkjandi Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og mun því kannski keppa á mótinu.
Mynd / ghp
Fréttir 21. febrúar 2022

Skipuleggur stórhátíð á yfirferðargangi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Landsmót hestamanna fer fram á Rangárbökkum hjá Hellu dagana 3.–10. júlí næstkomandi. „Búið er að ákveða að það verði sól og blíða,“ segir Magnús Benediktsson, nýr framkvæmdastjóri mótsins.

„Fyrir mánuði síðan var óvissan slík að við vissum ekki hvort við værum að fara að halda mót með eða án gesta. En nú virðist faraldurinn vera á undanhaldi og allt að lifna við. Þá er lítið annað að gera en að setja kassann fram og fara áfram á yfirferðargangi fram að móti. Það er allt að hrökkva í gang og ég finn það sérstaklega á símanum, daglega hringja til mín veitingamenn, listamenn og erlendir hestamenn og það er auðheyranleg jákvæðni í öllum og mikil spenna fyrir mótinu,“ segir Magnús jafnframt.
Þrátt fyrir að vera nýr í stöðu framkvæmdastjóra Landsmóts er Magnús öllum hnútum kunnugur þegar kemur að hrossum og viðburðarhaldi. Hann er m.a. framkvæmdastjóri og einn eigenda hestatímaritsins Eiðfaxa, auk þess að hafa gefið út Stóðhestabókina frá árinu 2011. Hann er hugmyndasmiður að útfærslu Áhugamannadeildarinnar í hestaíþróttum og var fram­kvæmdastjóri Fjórðungsmóts Vestur­lands í Borgarnesi í fyrra.

Hann þekkir einnig vel til svæðisins, enda Rangæingur, alinn upp í Skarði í Landsveit og hefur verið viðloðinn hestamennsku frá unga aldri. „Keppnissvæðið er rótgróið, hér var fyrst haldið Fjórðungsmót árið 1967 og Landsmót hestamanna árið 1986. Þetta er svæði sem fólk þekkir og veit að hverju það gengur. Það eru engar stórar framkvæmdir áætlaðar fyrir mótið en á svæðinu er heilmikil gatnagerð í gangi núna þar sem til stendur að færa hesthúsabyggðina ofan úr Helluþorpi niður á Rangárbakka.“

Séð yfir Landsmótssvæðið við Rangárbakka. Keppnissvæðið er rótgróið, þar var fyrst haldið Fjórðungsmót árið 1967 og Landsmót hestamanna árið 1994.

Keppnissvæðið hefur löngum verið gagnrýnt fyrir skort á inniaðstöðu fyrir keppnishross. „Allir Landsmótsstaðir hafa sinn sjarma. Sumum finnst slæmt að hafa hrossin inni í hesthúsi á hávaðasömu svæði allan sólarhringinn og kjósa frekar að keyra þau til og frá keppnissvæðinu. Það er raunin með þetta svæði. Aftur á móti höfum við ákveðið að hafa Rangárhöllina alfarið fyrir keppendur. Þar verður upphitunaraðstaða og „græna herbergið“ sem hugsað er sem hvíldar- og veitingaaðstaða fyrir knapa.“

Keppt bæði í gæðinga- og íþróttakeppni

Sú nýlunda er á efnisskrá mótsins að keppt verður í íþróttagreinunum fjórgangi, fimmgangi, gæðingaskeiði og slaktaumatölti. „Landsmót fyrir mér er hátíð þar sem allir bestu hestar landsins eiga að vera mættir. Gæðingakeppnin verður alltaf drottning mótsins en með því að bæta íþróttakeppninni inn í dagskrána er hægt að sjá hvað íslenski hesturinn býr yfir mikilli breidd,“ segir Magnús.

Sala miða á mótið hófst í raun árið 2020, en þegar ljóst var að fresta þurfti Landsmóti bauðst kaupendum að halda miðunum sínum, sem Magnús segir að flestallir hefðu þegið. Rúmlega 2.000 miðar eru nú seldir og gerir Magnús væntingar til að um 10–15.000 manns láti sjá sig á Rangárbökkum. „Með tilkomu annarra viðburða, bæjarhátíða og íþróttamóta um allt land og hverja einustu helgi erum við auðvitað með meiri samkeppni en þekktist áður fyrr. Einnig eru beinar útsendingar frá mótum og kynbótasýningum tvíeggja sverð að því leyti að flestir hafa séð hrossin í braut áður en þau mæta á Landsmót.“
Hann segist þó búast við firnasterkri keppni og óviðjafnanlegri veislu fyrir áhorfendur, sérstaklega á laugardeginum þegar allir bestu hestar mótsins etja kappi.
Þá hefur verið gerður samn­ingur við Jón Gunnar Geirdal hjá fyrirtækinu Ysland um markaðssetningu á mótinu. „Við viljum leggja upp með einstaka stemningu og réðum þess vegna þaulvanan mann og mikinn hugmyndasmið. Hann mun sjá um alla skemmtidagskrá og hliðarviðburði og hefur nú þegar bókað fólk úr efstu hillum skemmtanabransans.“

Magnús stefnir einnig á að gera dagskrá Landsmótsins fjölskylduvænni. „Við vitum það alveg sem eigum börn að við fáum ekki rými til að sitja í brekkunni daglangt og horfa. En við stefnum á að hafa afþreyingargarð fyrir börn á planinu milli valla þannig að börn sem og foreldrar geti átt góða stund hérna.“

Forsala framlengd

Keppnisvellir Rangárbakka eru beggja vegna hæðar þar sem þjónustusvæði hefur alla jafna verið staðsett. Austan megin er hringvöllur og vestan megin er kynbótabraut en aðeins 50 metrar eru á milli svæðanna.

Drög að dagskrá mótsins hafa verið birt á vefsíðunni landsmot.is. Dagskrá er með hefðbundnu sniði, framan af vikunni fara fram forkeppnir og kynbótadómar. Á fimmtudegi verður setningarathöfn, hópreið, kappreiðar og B-úrslit keppnisgreina. Verðlaunaafhendingar kynbótahrossa fara fram á föstudeginum ásamt úrslitum í tölti og kappreiðum og á lokakeppnisdeginum á laugardegi fara fram A-úrslit allra keppnisflokka ásamt flugskeiði.
Engin eiginleg dagskrá verður á Rangárbökkum á sunnudeginum en hrossabændur á Suðurlandi munu þá opna hús sín fyrir gesti sem gefst þá kostur á að heilsa upp á ræktendur, tamningafólk og keppnishross.

Forsala aðgöngumiða á Landsmót hestamanna hefur verið framlengd til 1. maí. „Á tímum óvissu vegna Covid er ekki hægt að krefja fólk um að ákveða hvað það gerir við sumarið sitt núna. Við viljum bara fá sem flesta og viljum að fólk geti skipulagt sig sem best.“

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu
Fréttir 4. júlí 2025

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu

„Kannski sýnir þessi samruni hversu gríðarlega stærðarhagkvæmni er í söfnun og v...