Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Vilborgu Ástráðsdóttur á Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er ýmislegt til lista lagt og hannar meðal annars föt undir merkinu Híalín
Vilborgu Ástráðsdóttur á Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er ýmislegt til lista lagt og hannar meðal annars föt undir merkinu Híalín
Mynd / Erla Gunnarsdóttir
Fréttir 20. ágúst 2020

Silkiprentar fjölbreytt og falleg mynstur náttúrunnar

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Vilborg Ástráðsdóttir, leikskóla­kennari, myndlistarkona og silki­prentari á Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hannar föt undir merkinu Híalín þar sem hún teiknar mynstur sem innblásin eru úr náttúrunni og silkiprentar á kjóla, boli, töskur og húfur. Ásamt þessu er hún meðal annars forfallin hestakona, safnar hauskúpum dýra í gríð og erg og skemmtir sér dátt yfir kaffibolla með Þingborgar-vinkonum sínum einu sinni í viku.
 
Vilborg býr á Skarði með manni sínum, Sigurði U. Sigurðssyni verk­fræðingi, en nú um mundir er hún í leyfi frá leikskólakennslunni og starfar fyrir mann sinn. Þau eiga fjögur börn og eru frístundabændur að hennar sögn, með 60 naut í fjósi í samstarfi við nágrannabónda, 60 hross í haga, fáeinar kindur, hunda og ketti. Fyrir utan myndlistina og silkiprentunina er Vilborg forfallin hestaáhugamanneskja og þegar blaðamaður Bændablaðsins leit við til hennar í kaffisopa á dögunum var hún nýkomin úr níu daga hestaferð af Fjallabaki. 
 
 
Ein elsta aðferð prentunar
 
Vilborg var í einkanámi í myndlist til margra ára hjá Katrínu Briem, myndlistarkonu og fyrrverandi skólastjóra við Myndlistaskólann í Reykjavík, og þar kviknaði áhugi hennar á að koma sköpun sinni enn frekar á framfæri. 
„Þetta var heillangt tímabil og þó að ég hafi ekki fengið formlega gráðu úr þessu þá var þetta mikið nám. Hún á í mér hvert bein og ég væri ekki í þessu í dag án hennar. Ég fékk allt aðra hugsun í gegnum Katrínu, sem lést fyrir nokkrum árum því miður. Við vorum miklar vinkonur og ræddum reglulega um þennan heim. Hún kenndi mér meðal annars að mikilvægt væri að læra formin á hauskúpum og þaðan fæ ég þann söfnunaráhuga, en ég á orðið nokkrar hér í safni sem ég skreyti heimilið með eins og af hreindýri, hrossum, hrútum, tófu, hrafni, fuglum, rottu og músum. Þetta hef ég til skrauts hjá mér en velti líka fyrir mér að fræsa í þær en ég er ekki komin þangað enn þá,“ útskýrir Vilborg. 
 
Fyrir nokkrum árum fékk Vilborg bakteríuna fyrir silkiprentun og eftir námskeið hjá Söru Maríu í Forynju varð ekki aftur snúið. Hún hefur því ekki tekið formlegt nám í iðninni en hefur myndlistina í bakgrunni sem kemur sér mjög vel. 
„Sara er mikill mótunaraðili að mínu silkiprenti því ég lærði allt hjá henni. Silkiprentun er ein elsta aðferð prentunar og má finna ummerki um það frá 9000 fyrir Krist. Nafnið er dregið af því að upprunalega voru notaðir silkiþræðir í netið til að silkiprenta ramma með þéttofnu neti. Í rammann/netið er borin ljósnæm kvoða sem síðan er látin þorna í algjöru myrkri. Því næst er myndin teiknuð á gegnsæjan pappír. Ramminn með ljósnæmu kvoðunni er tekinn úr myrkrinu og lagður ofan á myndina á sérstakt ljósaborð. Á nokkrum mínútum herðist og lokast ljósnæma kvoðan alls staðar annars staðar heldur en þar sem teikningin er. Þá er maður kominn með gat þar sem lit er þrykkt í gegn og þannig verður til mynd.“
 
 
Hver og ein flík einstök
 
Í dag rekur Vilborg vinnustofuna Híalín heima hjá sér og selur vörur sínar undir því merki. Þar leggur hún áherslu á listræna nálgun silkiprentsins þar sem það er handunnið frá grunni, allt frá blýanti yfir í tilbúinn silkiprentsramma. Kjólarnir, húfur, töskur og legginssniðið, saumað og silkiprentað.  
 
„Ég er hvorki fatahönnuður né klæðskeri og tek það jafnan fram við viðskiptavini mína og aðra en teikna sjálf allar myndir og bý til silkiprentið. Það er síðan viðskiptavinarins að velja úr einföldum klassískum sniðum og móta sinn eigin kjól, það er eiginlega einfaldi parturinn í ferlinu, konur vita alveg hvað fer þeirra vaxtarlagi best en síðan velja þær úr þeim silkiprentsmunstrum sem ég á til þá stundina og velja liti sem ég nota til að silkiprenta munstrið á kjólana þeirra. Það myndi aldrei ganga að fjöldaframleiða þessar vörur því hver kjóll er svo einstakur eða sérmótaður. Konur eru misjafnar, sumar vilja hafa rúnað hálsmál, aðrar v-laga og síðan er einnig mismunandi hvaða lengd þær vilja hafa á ermunum og sídd á kjólunum. Þannig að segja má að hver og ein kona sé að búa til sinn eigin kjól og mótar þannig flíkina fyrir sig. Sumar konur eru mínímalískar í mynstur- og litavali á meðan aðrar vilja fá sterka og mikla liti á kjólana,“ útskýrir Vilborg og segir jafnframt:
 
„Það er frekar sjaldgæft að ég eigi einhvern lager nema ef vera skyldu stuttermabolir, en það er eitt af því fáa sem ég sauma ekki sjálf heldur kaupi af góðum heildsala. Vörurnar sel ég um allt land en ég auglýsi ekki neitt enda arfa léleg í markaðsmálum. Það er nóg að gera í þessu en ég velti því stöðugt fyrir mér hvort ég eigi að gefa enn frekar í eða ekki.“
 
Reynir að efla sköpunarkraftinn
 
Vilborg er leikskólakennari að mennt og fyrir nokkrum árum fór hún í meistaranám í list- og verkgreinum við Háskóla Íslands í fjarnámi. 
„Ég ætlaði aldrei að verða leikskólastjóri en varð það eiginlega óvart frekar snemma á starfsferlinum, en ætlaði aldrei að vera það lengi og vildi sérhæfa mig frekar í að efla sköpunarkraftinn hjá börnunum, en var það í tæp 10 ár við Leikholt í Brautarholti. Mín sérhæfing í leikskólanum var að efla sköpunarkraftinn hjá börnunum. Á sama tíma og ég tók námskeiðið hjá Söru Maríu var ég í meistaranáminu þar sem ég gerði listrannsókn með fjögur náttúrumynstur. Þessi náttúrumerki eru meira og minna uppistaða í að skapa óð til náttúrunnar,“ segir Vilborg og bætir við:
„Ég er alin upp í sveit í Flóanum og hef alltaf verið í sveit svo náttúran er mér mjög hugleikin. Ég er stöðugt að horfa í form og línur í náttúrunni. Í meistaraverkefninu gerði ég sem sagt fjögur náttúrumynstur sem voru hæðarlínur af jarlhettum, árfarveg, mosaskófir og sjónlínu apalhrauns sem kom skemmtilega út.“
 
Meistaraverkefnið blyantur.is
 
Meistaraverkefni Vilborgar var heimasíðan blyantur.is þar sem hún vildi færa sérfræðiþekkingu á efnivið til myndlistar nær hinum almenna notanda, börnum, foreldrum og kennurum sem hafa ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði. 
„Mér finnst mikilvægt að efla sköpunarkraft barna og ekki að stýra þeim í því sem þau taka sér fyrir hendur í myndsköpun. Þau eru fullfær um það sjálf ef þau fá tækifæri til þess og leiðsögn í að nota verkfærin eða efniviðinn. Annað mál er að vekja áhuga, spyrja opinna spurninga sem hvetja þau til að sjá umhverfi sitt með opnum huga og gagnrýnum augum. Hér er átt við umhverfi í stærra samhengi en hið náttúrulega umhverfi sem umlykur okkur. Í umhverfi okkar eru einnig mannfólk, dýr, hlutir, byggingar, tækni, margmiðlun, orð, hljóð, tilfinningar, hreyfing og svo mætti lengi telja.“
 
Margir boltar á lofti
 
Það er ljóst að Vilborg situr sjaldan auðum höndum og er alltaf með nokkra bolta á lofti í sköpuninni. Hún hefur meðal annars verið tilnefnd til hönnunarverðlauna á Hrafnagili með prjónavesti sem var skírskotun í íslenska þjóðbúninginn og hefur átt uppskriftir í Prjónaperlubókunum svo fátt eitt sé nefnt. Síðan hóf hún samstarf við Katrínu Andrésdóttur, fyrrum héraðsdýralækni, fyrir þremur árum undir merkinu Móða þar sem Katrín prjónar flíkur í prjónavél og Vilborg silkiprentar á þær. 
 
 
„Ég má ekki drekka kaffi daginn sem ég silkiprenta á ullina eða neitt sem eykur á stressið því hún er mjög viðkvæmt efni og það er mikið áhættuatriði að prenta á hana. Sú vinna er mjög krefjandi og ég er eiginlega skíthrædd við ullina því maður getur eyðilagt peysu á augabragði ef ekki er rétt að staðið. Við erum að safna í sýningu núna fyrir Ullarvikuna sem verður á Þingborg í haust en þá munum við sýna 12 peysukjóla sem hafa skírskotun í gömlu mánaðarheitin svo það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út,“ segir Vilborg og bætir við:
 
„Við Katrín þekktumst áður en samstarfið hófst og þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Hún er búin að pota mér í Þingborgarhópinn en við erum með kaffisamsæti flest fimmtudagssíðdegi og þar er 99 prósent hlegið allan tímann. Það er alveg rosalega gaman að vera með þessum konum og þessar stundir veita gleði og innblástur líkt og náttúran hefur allt tíð gert fyrir mig.“