Sérdeild innan bresku lögreglunnar rannsakar matvælaglæpi
Sérdeild innan bresku lögreglunnar, sem verið er að setja á laggirnar, mun eingöngu rannsaka glæpi sem tengjast matvælaiðnaði. Svik og prettir í matvælaiðnaði komust í hámæli í Bretlandi og víðar fyrir nokkrum árum þegar kom í ljós að hrossakjöt frá Austur Evrópu hafði verið selt sem nautakjöt víða í Evrópu.
Í kjölfar rannsókna vegna hrossakjötssvindlsins kom í ljós að pottur er víða brotinn hvað varðar merkingar og innihaldlýsingar á matvælum.
Er maðkur í mysunni?
Matarlöggunni er meðal annars ætlaða að fylgjast grannt með uppruna matvæla og tryggja að innihald þeirra sé það sem það á að vera. Stefnt er að því að koma upp neti tengiliða og auðvelda almenningi að koma á framfæri upplýsingum ef fólk telur að það sé maðkur í mysunni eða eittvað annað óhreint í matvælum. Einnig er deildinni ætlað að deila upplýsingum með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum.
Ætlunin er að fylgjast með matvælaframleiðslu á öllum stigum; eldi, ræktun, notkun sýklalyfja og annarra vaxtarhvata, skordýraeiturs og illgresislyfja, slátrun, vinnslu, dreifingaraðilum, í verslunum og á veitingahúsum.
Eitraðir drykkir
Mörg alvarleg mál, auk hrossakjötsvindlsins, hafa komið upp í Evrópu undanfarin ár sem tengjast sviknum eða hreinlega eitruðum matvælum eða drykkjum. Ári 2012 létust til dæmis 40 manns í Tékklandi eftir að hafa drukkið vodka og romm sem hafði verið þynnt út með tréspíritus.