Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Rafmagn dýrara í dreifbýli
Fréttir 12. júní 2014

Rafmagn dýrara í dreifbýli

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Rafmagnsverð er hæst hjá notendum RARIK í dreifbýli. Í þéttbýli er rafmagnsverð einnig hæst á orkuveitusvæði RARIK. Hæsta verð í dreifbýli er 51% hærra en lægsta verð í þéttbýli. Í þéttbýli er hæsta verð 16% hærra en lægsta verð. Lægst er rafmagnsverðið á Akureyri.

Þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar, sem fékk Orkustofnun til að reikna úr kostnað við raforkunotkun og húsahitun á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og á nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 351 m3. Gjöldin eru reiknuð út samkvæmt gjaldskrá hinn 1. apríl 2014. Fram kemur að við útreikningana sé almenn notkun og fastagjald tekið saman annars vegar og húshitunarkostnaður hins vegar.

Rafmagnsverð hjá notendum RARIK í dreifbýli reyndist vera 102.537 krónur á ári. Á orkuveitusvæði sama fyrirtækis í þéttbýli var kostnaðurinn 78.489 krónur. Kostnaður notenda á Akureyri er 67.859 krónur, en þar er verðið sem áður segir lægst á landinu.

Mikill verðmunur milli dreifbýlis og þéttbýlis

Þegar kemur að húshitunar-kostnaðinum er munurinn öllu meiri. Þar er hæsti kyndingarkostnaðurinn á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli og Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli kr. 204.817. Í þéttbýli er kostnaðurinn hæstur á dreifiveitusvæði OV þar sem rafmagnshitun er við lýði s.s. Hólmavík kr. 195.092 og dreifiveitusvæði RARIK s.s. í Grundarfirði, Neskaupstað og Vopnafirði kr. 192.965. Lægsti húshitunarkostnaðurinn er á Sauðárkróki, kr. 83.857. Hæsta verð í dreifbýli er 144% hærra en lægsta verð í þéttbýli. Í þéttbýli er hæsta verð 133% hærra en lægsta verð.


Ef horft er til heildarkostnaðar er kostnaðurinn hæstur í dreifbýli á orkuveitusvæði RARIK kr. 307.354. Heildarkostnaður í þéttbýli er hæstur á dreifiveitusvæði OV s.s. á Hólmavík kr. 272.329 og dreifiveitusvæði RARIK s.s. í Grundarfirði, Neskaupstað og Vopnafirði kr. 271.463. Lægstur er heildarkostnaðurinn á Akureyri, kr. 158.774. Hæsta verð í dreifbýli er því 94% hærra en lægsta verð í þéttbýli. Í þéttbýli er hæsta verð 72% hærra en lægsta verð.


Hafa ber í huga að á nokkrum stöðum er veittur afsláttur af gjaldskrá hitaveitu þar sem ekki er hægt að tryggja lágmarkshita vatns til notanda.