Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ráðgert að bændur kaupi 24 prósenta hlut í Ístex
Fréttir 6. nóvember 2014

Ráðgert að bændur kaupi 24 prósenta hlut í Ístex

Höfundur: Hörður Kristjánsson / Sigurður Már Harðarson

Í júní var greint frá því í Bændablaðinu að þrír stærstu eigendur ulllarvinnslunnar Ístex hafi hafnað kauptilboði fjárfesta í 34% hlut þeirra í félaginu. Talið var að tilboðið hafi komið frá erlendum krónueigendum í gegnum verðbréfafyrirtækið Virðingu, en nú er komið í gang ferli um að bjóða íslenskum sauðfjárbændum að kaupa þennan hlut.

Hugmyndin gengur út á að selja 24 prósenta hlut í Ístexi til bænda en að félagið kaupi sjálft 10% hlut. Þetta verði gert með þeim hætti að bændum, sem leggja inn ull, verði boðið að setja innlegg sitt sem greiðslu upp í hlutabréfakaup. Þá er miðað við að þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í slíku, undirriti samning um hlutabréfakaup til fjögurra ára gegn því að fá 15% hærra verð fyrir sína ull. Á móti leggi þeir sjálfir fram jafn háa upphæð til  hlutabréfakaupa.

Þarna er um að ræða hluti  Guðjóns Kristinssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Jóns Haraldssonar framleiðslustjóra og Viktors Guðbjörnssonar í félaginu sem hefur haft umsjón með tæknimálum og viðhaldi Ístex, en samanlagt eiga þeir 34% hlut. Heildarverðmæti Ístex er metið á tæpar 550 milljónir. Auk þremenninganna eiga Landssamtök sauðfjárbænda 15,5% hlut í Ístexi. Þá eiga nú- og fyrrverandi starfsmenn 13%, fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki eiga um 7% hlut og 1.800 nú- og fyrrverandi ullarinnleggjendur eiga síðan það sem út af stendur.

Guðjón sagði í Bændablaðinu í júní að þeir þremenningar hafi í sjálfu sér ekki unnið markvisst að því að selja sinn hlut, en ljóst væri að þeir væru farnir að eldast.

„Við höfðum fengið tilboð í hlutinn áður en síðan kom tilboð án allra skuldbindinga. Ég bar það undir stjórnarformanninn sem aftur bar það undir forystu Landssamtaka sauðfjárbænda. Þar á bæ leist mönnum ekki vel á að okkar hlutur færi í hendur annarra og óskuðu eftir að við höfnuðum tilboðinu sem við gerðum. Við gerðum það í ljósi þess að bændur stefndu að því sjálfir að kaupa okkur út úr fyrirtækinu.“

Stjórnarformaður félagsins er Ari Teitsson, fyrrum formaður Bændasamtaka Íslands. Hann hefur síðan í sumar unnið markvisst að þeirri hugmynd að bændur kaupi sjálfir umræddan hlut í félaginu, fremur en að hann renni til ótengdra fjárfesta.

Æskilegt að endurnýja hlut bænda í fyrirtækinu

„Þegar Ístex var stofnað tóku bændur þátt í þeirri stofnun með því að leggja fram um einn þriðja af hlutafé félagsins. Markmiðið var að bændur, lykilstarfsmenn og ullarkaupendur – sem þá voru aðallega kaupfélögin, væru þátttakendur í þessu, þannig að enginn ætti meirihluta,“ sagði Ari í samtali við Bændablaðið.

„Á þessum tíma hefur orðið sú breyting að líklega tæplega helmingur þeirra sem tóku þátt í þessu í upphafi er ekki lengur að framleiða ull. Þannig hefur hlutur hinna raunverulegu ullarframleiðenda þynnst mjög. Vegna markmiða stjórnar fyrirtækisins – um að safna, vinna og markaðssetja íslenska ull, var það mat hennar að það væri æskilegt að endurnýja hlut bænda í fyrirtækinu. Nú þegar lykilstarfsmenn, sem áttu rúm 44 prósent í félaginu frá stofnun, eru að hverfa frá störfum, þá var það mat okkar að ullarframleiðendur skyldu áfram eiga öflugan hlut í félaginu.

Ég vona að sem flestir bændur sjái sér hag í því að vera með. Félagið stendur vel um þessar mundir og hefur greitt arð síðustu fimm til sex árin. Bændur ættu þarna að vera að fjárfesta í tiltölulega góðu fyrirtæki og tryggja um leið framtíð ullarvinnslu.“

Formanni sauðfjárbænda líst vel á hugmyndina

Þórarni Inga Péturssyni, formanni Landssamtaka sauðfjárbænda, líst vel á þann farveg sem málið er í. „Ef þetta næst hjá okkur þá verður það bara virkilega ánægjulegur áfangi – að fyrirtækið verði þá að meirihluta í eigu bænda. Þetta mun virka þannig hjá okkur að það verður að sjálfsögðu enginn neyddur til að taka þátt í þessu, en við stefnum á að reyna að ná á bilinu 70–90 prósent, þeirra sem leggja inn ull, inn í þetta – og 70 prósent að lágmarki. Við eigum alveg eftir að kynna þetta, en það er í raun alveg nýlega sem fór að sjá fyrir endann á þessu. Þetta hefur verið í umræðunni í nokkurn tíma hjá stjórn Ístex og þeim sem eru að selja – og við sauðfjárbændur höfum svo sem verið að blanda okkur í þær. Við teljum mikilvægt að afsetning ullar og ullariðnaðurinn sé í höndum bændanna sjálfra – því þannig getum við betur tryggt framtíð greinarinnar. Það eru því kannski ekki fjárfestingarsjónarmiðin sem hér vega þyngst,“ segir Þórarinn.

Rekið með hagnaði

Ístex var reist úr rústum Álafoss fyrir rúmum tuttugu árum. Fyrirtækið er hið eina á landinu sem tekur við ull frá bændum. Ístex rekur ullarþvottastöð á Blönduósi og verksmiðju í Mosfellsbæ. Rekstur Ístex hefur á undanförnum árum gengið vel eftir að hafa verið í járnum framan af. Á síðasta ári var það rekið með 46 milljóna króna hagnaði.

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...