Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Nauðsynleg skilvirkni veiða  eða aðför að smærri byggðum
Mynd / VH
Fréttir 12. október 2020

Nauðsynleg skilvirkni veiða eða aðför að smærri byggðum

Höfundur: Guðjón Einarsson

Ef lagafrumvarp sjávarútvegsráðherra um að fella grásleppuveiðar inn í aflamarkskerfið nær fram að ganga er grásleppan ein af síðustu verðmætu fisktegundunum við Ísland til þess að verða kvótasett. Mjög skiptar skoðanir eru meðal grásleppukarla með þessa fyrirhuguðu ráðstöfun. Er ýmist talað um nauðsynlega skilvirkni og sveigjanleika eða aðför að smærri byggðum landsins vegna samþjöppunar veiðiheimilda.

Umræðan um nauðsyn kvótasetningar á grásleppu fór á flug í vor þegar vertíðin var skyndilega stöðvuð í miðjum klíðum vegna þess að leyfilegur afli var uppveiddur. Veiðarnar hefjast jafnan fyrst á norðausturhorni landsins og þar fiskaðist svo vel fyrstu vikurnar að þegar grásleppan gekk upp að landinu fyrir vestan nokkru síðar var svo lítið eftir af hámarksaflanum að sumir náðu ekki að nýta leyfi sín og sátu uppi með fjárhagslegan skell.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra lýsti því þá þegar yfir að hann vildi breyta fyrirkomulagi grásleppuveiða þannig að í stað þess að stýra veiðunum með ákveðnum fjölda samfelldra veiðidaga yrði sérhverjum grásleppubáti úthlutað kvóta sem menn gætu nýtt þegar hverjum og einum hentaði. Þeir sem andvígir voru þeirri hugmynd bentu á að unnt hefði verið að koma í veg fyrir uppákomuna síðastliðið vor með því að svæðaskipta aflanum og fylgjast betur með framvindu veiða og grípa fyrr inn í þannig að allir fengju eitthvað að veiða.

Veiðireynsla ráði

Samkvæmt frumvarpi ráðherrans skal kvóti hvers báts miðast við veiðireynslu á þremur bestu veiðitímabilunum á sex árum, frá 2013 til 2018. Sú skýring er gefin að vertíðir grásleppuveiða standi yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geti því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu báts það ár. Þá séu aflabrögð misjöfn milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnist út með lengra viðmiðunartímabili. Miðað er við „veiðireynslu“ veiðileyfisins ef það hefur skipt um hendur á tímabilinu.

Grásleppuleyfi hafa verið bundin við þá báta sem voru með slíkt leyfi árið 1997 eða báta sem komið hafa í þeirra stað síðan. Alls eru þetta 450 leyfi og hefur verið hægt að selja þau eða leigja en þó þannig að ekki má vera nema eitt leyfi á hverjum báti. Ekki nærri öll leyfin hafa verið nýtt. Á síðustu vertíð tóku til dæmis 201 bátar þátt í veiðum, en þeir voru 240 árið 2019 og 222 á vertíðinni 2018. Leyfishafar, sem ekki hafa nýtt leyfi sín á tímabilinu 2013-2018, munu ekki eiga tilkall til kvótaúthlutunar.

2% kvótaþak

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sameina megi tvo eða fleiri grásleppukvóta á einn bát öfugt við það sem leyfilegt er í núverandi kerfi hvað dagana áhrærir. Til þess að sporna gegn of mikilli samþjöppun veiðiheimilda og fækkun báta er miðað við að enginn einstaklingur eða félag megi eiga hærra hlutfall af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%. Bent er á að hlutdeild aflahæsta grásleppubátsins á árunum 2013-2018 hafi verið á bilinu 1,0%-1,40%. Þess séu dæmi að menn geri út 2-3 báta til þessara veiða og því segi hámarksafli á bát ekki endilega hver sé hámarksafli á útgerð.

Þá er ráðherra heimilt, samkvæmt frumvarpinu, að ákveða staðbundin veiðisvæði fyrir grásleppuveiðar þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti.

Ókostir núverandi kerfis

Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að kostirnir við kvótasetningu grásleppuveiða séu ótvíræðir: ábyrgari og fyrirsjáanlegri fiskveiðistjórnun, meiri sveigjanleiki fyrir þá sem stundi veiðarnar og einfaldari stjórnsýsla. Ókostirnir við núverandi kerfi felist í því að erfitt sé að halda veiðinni innan leyfilegs heildarafla. Þá séu veiðarnar bundnar ákveðnum samfelldum dögum sem þýði að þegar leyfi sé virkjað á bát byrji dagarnir að telja óháð veðri sem geti ýtt undir að veitt sé þótt veður séu slæm eða óæskilegur meðafli sé mikill, svo sem fugla og sjávarspendýra sem aftur leiddi til þess að veiðarnar hafi misst umhverfisvottun. Þá sé ekki unnt að taka tillit til bilana, veikinda eða annarra ófyrirsjáanlegra tafa. Auk þess sé breytilegt milli ára hversu margir virki leyfi til veiðanna.

„Auðlindaþjófnaður“

Frumvarp sjávarútvegsráðherra var í samráðsgátt stjórnvalda 4.-18. september síðastliðinn og bárust alls 64 umsagnir. Af þeim voru 37 jákvæðar gagnvart kvótasetningu, 22 neikvæðir og 5 á báðum áttum. Einna harðasta gagnrýnin á frumvarpið kom frá smábátafélaginu Hrollaugi á Hornafirði. Þar er frumvarpið lýst sem „aðför að nýliðun og auðlindaþjófnaður, svo ekki sé meira sagt.“

Í umsögninni segir ennfremur: „Það eru ekki almannahagsmunir að kvótasetja grásleppu heldur sérhagsmunir ætlaðir örfáum aðilum. Sagan segir okkur að samþjöppunin hefst á fyrsta degi og aðgengi sjávarbyggða og íbúa þeirra að nýtingu auðlinda sinna hverfur skref fyrir skref. Örfáir aðilar munu njóta ávinningsins en heildin ekki.“

Það er álit félagsins að eina breytingin sem gera þurfi á núverandi kerfi sé að svæðaskipta heildarafla grásleppu og miða við fjölda báta innan hvers svæðis á hverju ári.

Álit Landssambands smábátaeigenda

Síðasti aðalfundur Lands­sambands smábátaeigenda (LS) í október 2019 lýsti sig mótfallinn kvótasetningu grásleppu. Árið áður leiddi skoðunarkönnum sem LS gerði meðal félagsmanna í ljós að 54,8% svarenda vildu áfram núverandi veiðistjórnun en 45,2% vildu kvóta. Í umsögn LS um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda er bent á að málið sé áfram til umræðu innan samtakanna og framundan séu aðalfundir svæðisfélaga og aðalfundur LS boðaður 15. október n.k.

Í umsögninni er þess getið að LS hafi á undanförnum árum lagt til ýmsar lagfæringar á fyrirkomulagi veiðanna, m.a. að sameina leyfi, en á milli 25 og 35 bátar geri út 2 báta eða fleiri á hverri vertíð. Við sameiningu yrði þess gætt að hún myndi ekki leiða til sóknaraukningar með því að dagafjöldi ykist aðeins um 50% þegar leyfi tveggja jafnstórra báta yrði að einu.

Annar þáttur hagræðingar fyrir grásleppusjómenn fælist í því að hægt yrði að gera hlé á veiðum með því að taka upp netin. Dagar sem liðu þar til þau yrðu lögð aftur teldust ekki til veiðidaga. Með því mætti minnka hættu á netatjóni fyrirsjáanlegrar brælu, draga úr hættu á óæskilegum meðafla og taka tillit til veikinda og bilana svo eitthvað væri nefnt.

LS segir að sjávarútvegsráðherra hafi ekki orðið við óskum LS um þessi tvö atriði.

Þá bendir LS einnig á í umsögn sinni að veiðistjórn m.t.t. aflaráðgjafar Hafró hafi tekist prýðilega. Á 10 ára tímabili 2011 – 2020 hafi samanlög ráðgjöf Hafró verið 50.100 tonn á móti 50.000 tonna afla.
Á komandi aðalfundi Lands­sambands smábátaeigenda verða vafalaust heitar umræður um þetta umdeilda frumvarp sjávarútvegsráðherra.