Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Mengunaráhrif frá eldgosi á búfé, matjurtir, drykkjarvatn og fóður
Mynd / Daði Harðarson
Fréttir 29. september 2014

Mengunaráhrif frá eldgosi á búfé, matjurtir, drykkjarvatn og fóður

Höfundur: smh

Matvælastofnun (MAST) hefur gefið út leiðbeiningar um meðferð búfjár, matjurta, drykkjarvatns og fóður á áhrifasvæðum eldsumbrotanna í Holuhrauni – vegna hugsanlegrar mengunar frá ryki og gosefnum.

Þar kemur fram að MAST hafi skoðað hvort hætta muni stafa af matjurtum og fóðri vegna losunar brennisteinsdíoxíðs (SO2). Neysla matjurta á áhrifasvæði eldgossins mun þannig ekki vera hættuleg fólki í því magni sem hér um ræðir og eru áhrif innöndunar brennisteinsdíoxíðs mun meiri. Hins vegar eru súlfít, sem verður til þegar brennisteinsdíoxíð kemst í snertingu við vatn, þekktur ofnæmisvaldur og geta matjurtir af svæðinu þar af leiðandi verið varasamar fólki með óþol fyrir súlfítum í matvælum.

MAST hvetur fólk sem fyrr til að skola matjurtir og ber vel með vatni fyrir neyslu til að fjarlægja ryk og gosefni sem gætu hugsanlega verið til staðar, svo sem súlfít, flúor og önnur snefilefni.

Í tilkynningu MAST kemur fram að þegar litið er til dýra á beit þá stafar þeim mun meiri hætta af innöndun brennisteinsdíoxíðs frá eldgosinu en af því litla magni sem sest á gróður.

Á vef MAST eru nánari upplýsingar að finna varðandi mengunarhættu  frá eldgosinu.

Þar segir eftirfarandi varðandi öskufall:

  • Tryggja öllum dýrum hreint drykkjarvatn, svo sem kostur er. Sjá til þess að skepnur á útigangi hafi aðgang að rennandi vatni eða færa þeim hreint vatn reglulega og koma í veg fyrir að þær drekki úr stöðnu vatni. Kanna ástand vatnsbóla og sjá til þess að yfirborðsvatn berist ekki í þau.
  • Forða skepnum undan öskufalli, hýsa þær ef aðstæður eru fyrir hendi eða flytja annað.
  • Takmarka beit á þeim svæðum þar sem öskufall er mikið, gefa lystugt fóður vel og oft, og tryggja aðgang að selenríkum saltsteinum eða stömpum. Gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aska falli á fóðrið.
  • Hafa daglegt eftirlit með öllum skepnum, sér í lagi lambfé og folaldshryssum. Hryssum og ám getur verið hætt við klumsi eða doða og ungviðinu við skorti á E-vítamíni og seleni.
  • Breiða yfir fiskeldisker, þar sem því verður við komið og tryggja gott vatnsstreymi í kerin.
  • Sama gildir um gæludýr og aðrar skepnur. Mikilvægast er að þau drekki ekki úr stöðnu vatni og best að halda þeim sem mest innandyra.

Um loftmengun segir:

  • Tryggja svo sem kostur er að skepnur gangi ekki á landi nálægt gosstöðvum þar sem hætta er á loftmengun. Koltvísýringur sest í lægðir og getur valdið köfnun.
  • Forðast álag á skepnur þegar loftmengun er mikil, t.d. hlaup og streituvaldandi aðstæður. Brennisteinsdíoxíð veldur m.a. ertingu í öndunarfærum og augum. Þetta er rétt að hafa í huga m.a. við smölun þá daga sem mengun er mikil, því meðal þess sem þarf að varast eru mikil hlaup og streita.

Aska og flúor

Gosefni sem berast með vindi geta mengað gróður og vatn og borist ofan í skepnur. Öskukornin eru oddhvöss eins og örsmá glerbrot. Þau særa augu, öndunarfæri og meltingarveg. Þau geta valdið niðurgangi, tannsliti og fótsæri. Flúor loðir við yfirborð kornanna. Magn flúors eykst því eftir því sem askan er fínni. Fín aska langt frá eldstöð er því ekki síður hættuleg skepnum en aska sem fellur nær.

Flúor bindur kalsíum í torleyst sambönd og stuðlar þannig að kalkskorti. Bráð eitrun getur valdið doða í ám og kúm, og klumsi í hryssum, einkum seint á meðgöngu og um burð eða köstun. Langvinn eitrun getur leitt af sér alvarlegt misslit á jöxlum (gadd), sem gerir skepnunum erfitt að tyggja, sem og óeðlilegar beinmyndanir á fótleggjum, sem valda helti.

Hætta vegna eldgoss er breytileg eftir árstíð, dýrategund, aldri, magni flúors og annarra efna í öskunni og hvert askan berst. Hindra skal ef unnt er öskufall á skepnurnar og í fóður þeirra og sjá til þess að þær hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni. Ef aska fellur á óslegið tún á heyskapartíma, er vissara að bíða með slátt þar til rignt hefur, sama gildir um beitiland. Flúorinn þynnist fljótt og eitrunarhætta dvínar, þegar rignir.

Falli flúormenguð aska á hey þarf að meta magn flúors, sem gæti borist í skepnurnar og taka ákvörðun um nýtingu heysins á grundvelli þess.

Mikill munur er á því hvort magn flúors sé hátt yfir langan tíma eða skamman. Bráð eituráhrif geta komið fram í nautgripum, sauðfé og hrossum ef magn flúors í þurrefni í fóðri fer yfir 250 mg/kg. Algengustu einkenni eru doði í kúm og kindum, og klums í hryssum, en einnig ýmis einkenni frá taugakerfi og meltingarfærum. Ef magn flúors í fóðri og drykkjarvatni er yfir mörkum í langan tíma geta komið fram einkenni í tönnum og beinum.

Jafnframt ber að hafa í huga að ýmsir þættir hafa áhrif á þolmörkin, s.s. aldur dýrsins, almennt næringar- og heilbrigðisástand og streita. Ung dýr, dýr í lélegu ásigkomulagi og dýr sem eru undir álagi vegna lélegs aðbúnaðar eða annarra þátta eru mun viðkvæmari. 

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...