Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Halldór Jökull Ragnarsson.
Halldór Jökull Ragnarsson.
Fréttir 18. febrúar 2015

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna 25 ára

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna (MFK) heldur upp á 25 ára afmæli sitt nú um helgina en félagið var stofnað 10. febrúar 1990. Stofnfélagar voru 23, en félagsmenn í dag eru nú 86.

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu:  Þorvaldur Guðmundsson, Síld og fiski, formaður, Björn Ingi Björnsson, Höfn á Selfossi, varaformaður, Gísli Árnason, Afurðasölu Sambandsins, ritari, Leifur Þórsson, Sláturfélagi Suðurlands, gjaldkeri og Tómas Kristinsson, Kjötsölunni, meðstjórnandi.

Árið 2009 voru félagarnir samtals 39 en þá var ákveðið að opna félagið meira og var fólk með meistararéttindi hvatt til að ganga í félagið.

Meistarafélag kjötiðn­aðarmanna er félagssamtök kjötiðnaðarmeistara, sem hafa stjórnunar­ábyrgð á sínum vinnustað eða reka sitt eigið kjötvinnslu­fyrir­tæki. Þeir hafa réttindi til að taka nema á námssamning og kunnáttu til að kenna þeim. Félagið er ekki eiginlegt hagsmunagæslufélag sem hefur launabaráttu á stefnuskrá sinni en þau mál eru á könnu MATVÍS, félags iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum.

„Þetta er bara hópur af fólki sem hefur áhuga á því að gera kjötiðnaðinn betri,“ segir Halldór Jökull Ragnarsson, formaður MFK.

„Við stefnum að því að félagatalan verði komin í 100 eftir eitt til tvö ár. Þá höfum við bætt nýju tákni við einkennisbúninginn okkar sem við notum við hátíðleg tækifæri. Það er svartur kúluhattur sem við setjum upp í staðinn fyrir hvítu hattana og verðum með á afmælishátíðinni sem haldinn verður á Reykjavík Natura Hotel.“ Þar feta íslenskir kjötiðnaðarmeistarar í smiðju kollega sinna í Bretlandi og í Danmörku. 

Ötulir við að grilla í þágu bænda

Félagar í MFK hafa verið mjög sýnilegir á undanförnum árum, m.a. verið á þönum um allt land með grillvagn Landssamtaka sauðfjárbænda (LS). Þannig hafa félagar MFK verið áberandi á ýmsum útihátíðum yfir sumartíma á Íslandi. Hafa þeir verið í náinni samvinnu við LS við að kynna íslenska lambakjötið með þessum hætti. Afstaða þeirra til þessa verkefnis er að sem kjötiðnaðarmenn, þá sé það ekki síður þeirra hagur en bænda að framleiðsla lambakjöts gangi sem best. Þannig sé þeim tryggt hráefni til að vinna úr.

„Það hefur tekist mjög góð samvinna með okkur og sauðfjárbændum varðandi grillvagninn. Svo er þetta bara svo skemmtilegt,“ segir Halldór Jökull. „Fyrsta grill MFK á þessu ári verður við setningu Búnaðarþings við Hörpuna 1. mars. Á sama tíma í fyrra stóðu 13 kjötiðnaðarmeistarar við grillið við setningu Búnaðarþings.“

Til hjálpar þeim sem minna mega sín

MFK stendur fyrir kynningu á íslenskum jólamat í samstarfi við kjötvinnslur ár hvert.

Félagarnir hafa líka verið ötulir við að veita samfélagsþjónustu. Hluti af því göfuga starfi er úrbeining á hangikjöti fyrir hver jól fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Hafa félagar í MFK staðið að því verkefni í sjö ár í röð.

Kjartan Bragason, fyrrverandi formaður MFK, segir að tilurð þessarar úrbeiningar mætti rekja til neyðarástandsins sem skapaðist í kjölfar efna­hagshrunsins haustið 2008. Þá hafi þeim félögum fundist að þeir yrðu að leggja eitthvað af mörkum til að hjálpa fólki í vanda. Þá hafi komið upp sú hugmynd að reyna að fá afurðastöðvar og kjötiðnaðarfyrirtæki til að gefa hangikjöt sem félagarnir síðan úrbeinuðu og gerðu klárt til afhendingar til

Mæðrastyrksnefndar. Undirtektir fyrirtækjanna voru strax miklu betri en menn þorðu að vona og hefur þetta síðan verið árlegur viðburður. Undanfarin ár hafa þeir góðfúslega fengið að nýta vel búið kennslueldhús hótel- og matvælagreina í Menntaskólanum í Kópavogi.

Öflugt námskeiðahald

MFK hefur staðið fyrir mörgum námskeiðum í samvinnu við Félag íslenskra kjötiðnaðarmanna (FÍK) og fyrirtæki sem þjóna og selja vörur, tæki til kjötiðnaðar. Sem dæmi um námskeið má nefna:  Hrápylsugerð, Framsetning í kjötborð verslunar, Nauta- og svínakjötsúrbeining og Skinkugerð.

Félagið hefur einnig staðið fyrir mörgum fyrirlestrum um málefni er tengjast kjötiðnaði. Eins  hefur félagið staðið fyrir hópferðum á sýningar erlendis fyrir fagmenn og meistara.

Fagkeppni kjötiðnaðarmanna

Þá hefur MFK staðið fyrir fagkeppni kjötiðnaðarmanna undanfarin 22 ár. Fyrsta fagkeppni sem meistarar tóku þátt í var í Herning 1992. Í framhaldi var haldin fagkeppni hér heima annað hvert ár með danskan meistara (Jens Munck) sem yfirdómara, í framhaldi á fagkeppnum hefur íslenskur meistari séð um yfirdómarahlutverkið.

Þá má geta þess að nú vinnur Ásgeir Gunnar Ásgeirsson að ritun á sögu kjötiðnaðar á Íslandi í samvinnu við FÍK.

Vakning í aðsókn í kjötiðnaðargreinar

Endurnýjun í stétt kjöt­iðnaðar­manna hefur verið nokkuð sveiflukennd í gegnum tíðina. Halldór segir að haustið 2012 hafi nýnemar í kjötiðn hjá MK verið 24, síðan 37 árið 2013 og 34 haustið 2014. 

„Það er greinilega einhver vakning í gangi núna og mér sýnist að endurnýjun í menntuðum kjötiðnaðarmönnum á Íslandi sé nú í þokkalega góðum málum. Þetta unga fólk heldur síðan áfram og hefur verið duglegt í vöruþróun nýrra matvæla á markaðnum. Þar hjálpar fagkeppni Meistarafélagsins til sem við höldum á tveggja ára fresti. Þar höfum við krýnt í hvert sinn kjötmeistara Íslands, en þessa keppni höfum við haldið síðan 1992.

Fyrirtækin í kjötiðnaði hafa tekið mjög góðan þátt í þessari keppni. Í síðustu keppni sem fram fór á síðasta ári var metþátttaka með nýjar vörur. Það voru 148 vörur sem komu inn í keppnina sem er töluvert mikil aukning frá því við byrjuðum aftur eftir hrun. Við slepptum keppninni sem átti að vera 2008 vegna ástandsins í þjóðfélaginu en höfðum síðan keppni 2010, 2012 og 2014.   

Vandmeðfarin verðlaunavara í síðustu keppni

Halldór segir að það hafi komið mjög áhugaverðar og flottar vörur út úr þessari keppni. Á síðasta ári vann mjög athyglisverð vara sem lítur út eins og camembert eða sambærilegur hvítmygluostur. Enda heitir varan „Salami Camemberti“ og var jafnframt valin besta varan í flokki hrossa- eða folaldakjöts. Höfundurinn, Jón Þorsteinsson, hjá Sláturfélagi Suðurlands, hlaut fullt hús stiga fyrir þessa vöru og hlaut jafnframt titilinn kjötmeistari Íslands 2014.

Þessi einstaka vara þótti sérlega góð en er afar vandmeðfarin í framleiðslu. Til stóð að hefja fjöldaframleiðslu á „Salami Camemberti“, en vandinn er að ekkert kjötiðnaðarfyrirtæki var tilbúið að hleypa slíkri framleiðslu inn í sitt rými, þar sem hluti af dæminu er myglusveppur. Engin ostagerð var heldur til í að hleypa mönnum inn með kjötvörur í sitt rými. Því þyrfti líklega sérhæfða lokaða aðstöðu fyrir framleiðslu á þessari mjög svo sérstöku vöru.

Undirbúningur hafin að næstu keppni

Þegar er hafin undirbúningur að næstu fagkeppni kjötiðnaðarmanna sem haldin verður í byrjun næsta árs. Verður keppnin haldin í  Menntaskólanum í Kópavogi þar sem Hótel- og Matvælaskólinn er einnig til húsa. Þá segir Halldór að hugmyndin sé að vera þá einnig með minni keppni sem verður meira stíluð á fyrirtækin í greininni frekar en einstaka kjötiðnaðarmenn. Fyrirmyndin er sótt til Danmerkur og er fyrirfram ákveðið að fyrirtækin keppi um eina ákveðna vörutegund eins og t.d. lambakæfu. Matið felst svo eingöngu í bragðprófun og er meiningin að draga þar félög annarra fagmanna í matvælageiranum að borðinu. Þau þrjú fyrirtæki sem komast með sína vöru í úrslit geta svo skreytt sig með þeim árangri.

Heimaframleiðsla komin víða en oft skortur á eftirliti

Eftir efnahagshrunið 2008 fór af stað ákveðin vakning um að kjötframleiðendur hjálpuðu sér meira sjálfir og er Beint frá býli m.a. afrakstur af því. Halldór segir að ákveðnar reglugerðir séu um slíka heimaframleiðslu bænda. Ef menn hafa farið á námskeið og séu með alla aðstöðu í lagi þá megi þeir framleiða ákveðnar vörur sjálfir og selja ef íbúafjöldinn á þeirra markaðssvæði er ekki meiri en um 100 manns. Ef selja eigi á stærra markaðssvæði þá er gerð krafa um að við framleiðsluna starfi sveinn eða meistari í greininni.

Samkvæmt iðnaðarlögum eru kjötiðnaðarmenn lögvernduð starfsgrein. Halldór segir að þegar bændur eru komnir í meiri framleiðslu en fyrir 100 manna svæði þá sé eftirlitið með því brotakennt. 

„Það er sýslumaður eða lögregluvaldið á hverjum stað sem á að annast eftirlit með að löggiltir fagmenn stundi framleiðsluna. Þar skortir  talsvert á og við það erum við að berjast í dag,“ segir Halldór. Þá bendir hann á að í verslunum í Reykjavík megi líka finna kjötvörur sem standist ekki þær kröfur sem heilbrigðiseftirlitið eigi að fylgjast með að séu uppfylltar.  Telur Halldór brýnt að vanda þar betur til verka. 

Skylt efni: Kjötiðnaðarmenn.

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun