Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson, bændur og ábúendur í Seglbúðum í Landbroti og eigendur nýja sláturhússins.
Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson, bændur og ábúendur í Seglbúðum í Landbroti og eigendur nýja sláturhússins.
Mynd / Óli Þór Hilmarsson
Fréttir 10. október 2014

Lítið handverkssláturhús hefur starfsemi í Landbroti

Höfundur: smh

Þungamiðjan í klasaverkefni Matís, Sjálfbær sauðfjárrækt í Skaftárhreppi, var að stofnsetja lítið sláturhús og kjötvinnslu í Seglbúðum í Landbroti. Það er skilgreint sem handverkssláturhús og er það fyrsta sláturhúsið af þessum toga á Íslandi.

„Það eru fjögur ár síðan við byrj­uðum að vinna að þessum hugmyndum um að reisa hér sláturhús í Seglbúðum,“ segir Erlendur Björnsson, bóndi í Seglbúðum.

„Við verðum með jaxla héðan úr sveitinni sem munu starfa hjá okkur, en þeir störfuðu áður á Kirkjubæjarklaustri þegar sláturhús var þar rekið af Sláturfélagi Suðurlands fyrir um tíu árum. Alveg síðan það hætti hefur þessi hugmynd í raun verið að gerjast í okkur. Bændur hafa þurft að senda fé sitt til slátrunar á Selfoss eða Höfn – sem er að lágmarki um 200 kílómetra leið.

Við komum til með að slátra fé frá fjórum bændum – að okkur meðtöldum. Við kaupum af tveimur bændum og vinnum það hér, ásamt kjötinu frá okkur. Sigfús Sigurjónsson á Borgarfelli leggur inn hjá okkur kjötið og tekur síðan heim til frekari vinnslu, en hann er nýbúinn að setja upp kjötvinnslu hjá sér.
Við erum að vinna í því að markaðssetja afurðirnar okkar héðan úr sláturhúsinu, bæði í héraðinu en einnig utan þess. Þetta er auðvitað ekki mikið magn – þar sem dálítið er liðið á vertíðina – en við þurfum samt að vinna í því að skapa okkur sérstöðu. Hér er mikil gróska í ferðaþjónustu sem við munum til að mynda líta til fyrir okkar afurðir.

Til að byrja með munum við slátra annan hvern dag og stefnum þá á tæplega 140 lömb á viku. Ferlið tekur lengri tíma hjá okkur, enda er allt gert í höndum og svo látum við skrokkana hanga lengur en tíðkast venjulega, til að kjötið meyrni betur. Þetta hefur enda verið nefnt handverkssláturhús. Við reiknum með að það verði tveir til þrír starfsmenn að störfum í einu, auk okkar. Að vissu leyti er verið að varðveita handverk og ég held að það megi alveg segja að þarna sé unnið í anda Slow Food-hreyfingarinnar. Við leggjum upp úr ákveðinni visthyggju sem felst í því að fé er slátrað á svæðinu og úr því unnar afurðir úr héraði.

Náin samvinna nokkurra aðila

Við höfum unnið náið með ýmsum aðilum á þessum fjórum árum. Við höfum verið í miklum samskiptum við Matvælastofnun, en þeir hafa sett stíf skilyrði og gert kröfur um aðbúnað og aðstöðu. Það hefur auðvitað verið okkur erfitt að ýmsu leyti að við erum frumkvöðlar í því að byggja og setja á fót slíkt sláturhús – og því hefur ekkert regluverk verið til staðar. Við höfum þurft að mæta ýtrustu kröfum og eina undanþágan frá reglum sem gilda um stóru húsin, er að við fengum samþykki fyrir bekkfláningu.
Við höfum notið mikils velvilja og aðstoðar margra aðila síðustu misseri. Matís hefur verið okkar hægri hönd í þessu verkefni og leitt okkur í gegnum ferlið. Einnig hafa bændurnir á Gróustöðum hjálpað okkur gríðarlega mikið. Við höfum fengið styrki í verkefnið frá Bændasamtökum Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og svo kom Eignarhaldsfélag Suðurlands inn í þetta og á hlut í þessu ásamt okkur í Seglbúðum,“ segir Erlendur.

5 myndir:

Vænn valkostur fyrir bændur og loftslagsbókhald Íslands
Fréttir 16. júní 2025

Vænn valkostur fyrir bændur og loftslagsbókhald Íslands

Raunhæfir kostir til lífgasframleiðslu gætu skilað á bilinu 3-5% af markmiðum Ís...

Frárennsli á við fjórfalt rennsli Elliðaáa
Fréttir 16. júní 2025

Frárennsli á við fjórfalt rennsli Elliðaáa

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Samherja fiskeldi ehf....

Úthlutað úr Matvælasjóði
Fréttir 16. júní 2025

Úthlutað úr Matvælasjóði

Fjörutíu verkefni hlutu styrk úr Matvælasjóði á dögunum. Hanna Katrín Friðriksso...

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði
Fréttir 13. júní 2025

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verðlag á matvöru almennt hækkað ört á síðu...

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni
Fréttir 13. júní 2025

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni

Enginn deilir um það að Donald Trump vann kosningasigur í nóvember 2024 í flestu...

Vorhretið vægara en í fyrra
Fréttir 13. júní 2025

Vorhretið vægara en í fyrra

Tjón varð víða á Norðurlandi í norðanáhlaupi í byrjun júní. Annað árið í röð þur...

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024
Fréttir 13. júní 2025

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2024 er áætlað 93 milljarðar sem er ...

Heimsmet í skráningum
Fréttir 12. júní 2025

Heimsmet í skráningum

Hið árlega Reykjavíkurmeistaramót Fáks fer fram nú í vikunni í Víðidalnum. Þetta...