Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lengi lifi íslenska sauðkindin
Fréttir 2. desember 2014

Lengi lifi íslenska sauðkindin

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson

Fyrir um áratug síðan hóf Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu að halda héraðssýningu á lambrútum síðla hausts þegar haustönnum sauðfjárræktarinnar er að mestu lokið. Sýningartími var helgin á mörkum hausts og vetrar. Fljótt þróaðist þetta í víðtækara starf.

Um þessa helgi hafa þeir því haldið haustfagnað með fjölbreyttri dagskrá. Fjöldi fólks vítt að sækir þetta öfluga samkomuhald og er héraðssýningin aðeins í dag einn þáttur þess. Félagið óskaði eftir að koma á framfæri; „þökkum til allra þeirra sem tóku þátt og aðstoðuðu að gera þennan viðburð jafn eftirminnilegan og raun varð á. Þökkum öllum styrktaraðilum og fyrirtækjum fyrir gott samstarf, síðast en ekki síst öllum þeim frábæru gestum sem skemmtu sér með okkur. Lengi lifi íslenska sauðkindin.“

Tvískipt sýning

Í þessum pisli er ætlunin að beina sjónum að sýningahaldi lambhrútanna haustið 2014. Dalasýslu er skipt á tvö varnarhólf eins og í öðrum sýslum, sem halda uppi slíkum viðburðum, og verða því að tvískipta sýningu. Sýningin í nyrðra hólfinu var föstudaginn 24. október og voru sýningargripir þar 53. Sú sýning var að Skerðingsstöðum í Hvammssveit. Að morgni laugardagsins var sýningin í suðurhólfinu að Kvennabrekku í Miðdölum. Þar var mættur 31 lambhrútur til leiks. Dómarar á sýningunni voru Friðrik Jónsson ásamt þeim sem setur saman þennan pistil.

Lambahópurinn á sýningunni var eins og ávallt að talsvert stórum hluta tilkominn við sæðingar eða samtals 54 af þeim 84 lömbum sem þarna voru. Feður þessara lamba voru margir en samt nokkrir áberandi hálfbræðrahópar. Flestir voru synir Baugs 10-889 eða sjö talsins og mótuðu þeir því mjög kollótta hrútahópinn á sýningunni. Guffi 08-869 átti þarna sex syni sem einnig settu verulegan svip á sýninguna eins og síðar kemur fram. Þeir Garri 11-908 og Grámann 10-884 áttu síðan þarna fimm syni hvor.

Aldrei hefur mætt jafn sterkt úrval gripa

Ég hef komið að flestum héraðs­sýningunum á svæðinu. Í mínum huga þá er enginn vafi á því að á þessu svæði hefur aldrei mætt jafn sterkt úrval gripa og að þessu sinni. Lambahópurinn hafði komið betur undan haustinu en oftast áður, en stundum hefur það verið vandamál hve sum sýningarlömb misgengust á þeim langa tíma sem leið frá skoðun þeirra á heimagrund til sýningarinnar sem er mjög síðla hausts. Breyting í áranna rás, eins og á öðrum sambærilegum sýningum, er samt langmest vegna þess hve úrtökugóðum gripum hefur stórfjölgað. Fyrir áratug var algengast að einn eða tveir úrvalsgripir stæðu í sérflokki. Núna telst fjöldi slíkra ofurstirna í tugum á hverri sýningu og toppurinn orðinn margfalt breiðari og jafnari en áður var.

Besti hrúturinn var lamb 70 á Skerðingsstöðum

Hér á eftir verður í stuttu máli gerð örstutt grein fyrir lömbunum sem skipuðu efstu sætin í hverjum sýningaflokki.

Kollóttir hvítir hrútar voru fæstir eða 20 samtals. Besti hrúturinn í þessum flokki var lamb 70 á Skerðingsstöðum. Hrútur þessi er sonur Kropps 10-890 en móðurfaðir lambsins hét því virðulega nafni Betóven 06-267 og mun hafa komið frá Gestsstöðum á Ströndum á síðustu árum fjárbúskapar þar. Lambið er með örlitla hnýfla. Það er klettþungt miðað við stærð. Gerð þess öll mjög góð og vöðvafylling framúrskarandi. Bar öll einkenni sterkræktaðs kjötsöfnunarfjár.

Annað sætið í þessum flokki skipaði lamb 985 á Hróðnýjarstöðum. Faðir þessa hrúts er heimahrútur sem Illur 12-532 heitir og er það sonur Svala 10-862 en móðurfaðir lambsins er Spakur 03-976. Þetta lamb var með sívalann, mjög vel gerðan bol og öll vöðvafylling hjá því mikil en fita mjög lítil.

Í þriðja sætinu kom síðan lamb 4076 á Sauðafelli. Faðir lambsins er Rosi 11-899 en móðurfaðir þess Ormur 03-933. Þessi hrútur er gríðarlega vænn og bollangur. Skrokkbygging er ákaflega sterkleg og vöðvafylling mikil. Mjög föngulegt lamb á velli.

Stórt heljarstökk í gæðum dökkra mislitra hrúta

Dökkir og mislitir hrútar voru samtals 22 á sýningunni. Enginn einn sýningarflokkur hefur á síðasta áratug tekið jafn stórt heljarstökk í gæðum og þessi. Megnið af þessum lömbum voru framúrskarandi að gerð og holdfyllingu. Allstór hópur litaðra úrvalshrútanna á stöðvunum ræður hér mestu um breytinguna og sérstaklega eru áhrif Grábotna 06-833 að þessu leyti greinileg.

Efst var lamb 196 á Hallsstöðum

Efsta sæti í þessum flokki skipaði lamb 196 á Hallsstöðum. Faðir þess er Vonar 13-212 sem á síðasta ári skipaði efsta sæti í þessum sýningaflokki en hann er sonur Drífanda 11-895. Móðurfaðir lambsins er Dökkvi 07-809. Lamb þetta er svart að lit og hyrnt. Það er hreint djásn að allri gerð. Klettþungt miðað við stærð. Öll vöðvafylling þétt og mikil.

Annað sætið kom í hlut lambi 41 á Háafelli. Faðir þess er Salamon 10-906 og móðurfaðirinn Grábotni 06-833. Hann hefur sömu útlitseinkenni og hrúturinn í fyrsta sæti, er svartur og hyrndur. Þetta er þroskamikið og klettþungt lamb með gríðarmikla holdfyllingu, sérstaklega samt í lærum eins og sjá mátti hjá mörgum hálfbræðra hans um allt land í haust.

Þriðja sætið skipaði síðan lamb 226 á Skerðingsstöðum. Faðir þess er Fans 12-246 en móðurfaðir Blakkur 07-865 og má ætla að lambið erfi þaðan að einhverju leyti fallegan mórauðan lit sinn. Lambið er hyrnt og móbotnótt að lit. Hrútur þessi er jafnvaxinn með gríðarlega góða gerð og afbragðs holdfyllingu. Glæsigripur á velli.

Mest úrvalið í hópi hvítra hyrndra hrúta, lamb frá Rauðbarðaholti efst

Langflestir gripir voru eins og alltaf í hópi hvítra hyrndra hrúta og um leið var úrvalið mest í þeim hópi. Samtals voru þetta réttur helmingur sýningalambanna eða 42. Þar skipaði efsta sætið lamb 1 í Rauðbarðaholti. Faðir lamsins Börkur 12-541 sem er sonarsonur Kropps 05-993 en móðir Barkar er ærin 06-669 sem er einhver mesta hrútamóðir hér á landi á síðari árum, synir hennar m.a. hrútar sem stóðu í efsta sæti á sambærilegum sýningum ár eftir ár fyrir nokkrum árum. Í móðurætt á lambið ættir að rekja til margra af þekktustu sæðingahrútum síðustu áratuga en Lóði 00-871 stendur honum þar næstur. Þetta lamb hefur feikilega víðan, sívalan og vel gerðan bol. Vöðvafylling er frábær og átakið mjög þétt hvar sem á lambinu er tekið. Ákaflega fagur gripur að vallarsýn.

Í öðru sæti var lamb 37 í Stóra-Vatnshorni. Faðir hans er Guffi 08-869 en móðurföðurfaðir er Kveikur 05-965 og lambið því aðeins skyldleikaræktað. Þetta er fádæma mikið lamb, klettþungt og bollangt. Vöðvafylling á baki í mölum og lærum með því albesta sem finnst. Frá föður sínum hefur hann erft full háar herðar. Að útliti minnti þessi glæsigripur mig mikið á mörg afkvæma föðurafa hans, Þráðar 06-996, haustið 2008. Mjög mikið umhugsunarefni var hvernig skipa átti þessum tveim glæsilömbum í röð. Hrúturinn frá Stóra-Vatnshorni hafði mesta kosti allra sýningalamba með vöðvafyllingu í afturhluta skrokksins en hrúturinn frá Rauðbarðaholti enn jafnari á öllum kostum. Hann skipaði því toppsæti sýningarinnar að þessu sinni.

Í þriðja sætinu í flokki hyrndu hrútanna var lamb 372 frá Klifmýri. Faðir þess er Guffi 08-869 og hann því hálfbróðir hrútsins í öðru sæti en móðurfaðir lambsins er Laufi 08-848 og því líklega leitun að lambi meðal sýningagripanna sem hefur jafnsterkt ætternismat sem ærfaðir og þessi hrútur. Þetta lamb prýða mestu kostir góðra kjötframleiðslukinda, hann er jafnvaxinn, ákaflega vel gerður með mikla vöðvafyllingu og litla fitu.

Ær með hæsta kynbótamatið heiðraðar

Dalamenn tóku fyrstir upp þann góða sið að heiðra einnig þær ær í héraði sem hafa hæsta kynbótamatið í þeim árgangi sem fyllir hverju sinni sinn upplýsingagrunn vegna útreikninga á því. Að þessu sinni er þetta árgangur ánna frá árinu 2009.

Tvær efstu ærnar í héraðinu stóðu þar hnífjafnar. Önnur ærin er Aska 09-745 á Klifmýri en hún er dóttir Kalda 03-989 og hefur erft Þokugenið frá föður sínum. Hefur hún því sýnt ofurfrjósemi. Var hún þrílembd gemlingsárið og síðan ætíð átt fjögur lömb á hverju ári. Flest þeirra hafa lifað og Aska skilað vænum dilkum að hausti og mörg afkvæmi hennar sett á. Hin ærin er 09-925 á Sauðafelli. Einnig hún er tilkomin við sæðingar, er dóttir Boga 04-814. Þessi ær hefur verið gríðarlega frjósöm. Hún var tvílembd gemlingurinn en síðan þrílembd eða fjórlembd og lömb hennar einnig nánast öll komist á legg og hafa að hausti verið mjög væn og mörg orðið ásetningsgripir þannig að báðar þessar afurðadrottningar hafa lagt drjúgan skerf til framræktunar á sínu heimabúi. Móðurætt ærinnar á Sauðafelli verður ekki rakin til að staðfesta Þokugen hjá henni. Nánast má samt staðhæfa að slíkt sé eðli hennar vegna þess að móðir hennar bætti um betur en dóttirin með að eiga fimm lömb á sínu síðasta ári.

Sauðfjárframleiðsla veigamikill þáttur atvinnulífsins

Í fáum héruðum hér á landi er sauðfjárframleiðsla jafn veigamikill þáttur atvinnulífsins og í Dalasýslu. Segja má að almennt starf að sauðfjárkynbótum hafi ekki náð flugi á þessu svæði fyrr en undir lok síðustu aldar. Síðustu tvo áratugi hefur hins vegar slíku starfi verið sinnt vel af sauðfjárbændum í sýslunni. Þessi sýning er einn af mörgum þáttum sem sýnir að það starf virðist skila tilætluðum árangri. Skilyrði til framleiðslunnar eru góð á svæðinu og sauðfjárbúin stærri en víða, þannig að mörg ytri skilyrði eru hagstæð árangursríku kynbótastarfi. Þess vegna hlýtur starf, sem sýnir skýrt árangurinn, að verða öllum til hvatningar. Félag sauðfjárbænda á svæðinu á mikið lof skilið fyrir að gæta þessa þáttar. Með markvissu starfi áfram sjá menn vonandi enn meiri árangur á allra næstu árum.

Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.

Esther hættir eftir tólf ára starf
Fréttir 21. febrúar 2024

Esther hættir eftir tólf ára starf

Esther Sigfúsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins á...

Hvítlaukssalt úr Dölunum
Fréttir 21. febrúar 2024

Hvítlaukssalt úr Dölunum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölunum búast við sex til átta tonna uppsker...

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið
Fréttir 21. febrúar 2024

Hámarksgildi heimilaðs kadmíums aukið

Matvælaráðherra hefur með breytingu á reglugerð um ólífrænan áburð gefið bráðabi...

Fuglum fækkar í talningu
Fréttir 19. febrúar 2024

Fuglum fækkar í talningu

Vetrartalning á fuglum dróst út janúar, en hefð er fyrir því að telja í upphafi ...

Gúrkuuppskera aldrei meiri
Fréttir 19. febrúar 2024

Gúrkuuppskera aldrei meiri

Metuppskera var í gúrkuræktun á síðasta ári, eða 2.096 tonn. Stöðugur vöxtur hef...

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins
Fréttir 16. febrúar 2024

Samdráttur í leyfðum kvóta ársins

Leyft verður að veiða alls 800 hreindýr á þessu ári, 403 tarfa og 397 kýr. Þessi...

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps
Fréttir 16. febrúar 2024

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps

Hreppa skyrdrykkur kemur á markaðinn í apríl. Í honum eru, að sögn framleiðanda,...