Landbúnaður í brennipunkti
Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar aðgerðaáætlanir vegna landbúnaðarstefnu annars vegar og matvælastefnu hins vegar, hvort tveggja til 2040.
Í landbúnaðarstefnu er framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni. Meginmarkmið stefnunnar eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Aðgerðaáætlun vegna landbúnaðarstefnu er til fimm ára og er ætlað að ná yfir verkefni stefnunnar á forræði matvælaráðuneytisins sem verða í forgangi á tímabilinu, eins og segir í inngangi að aðgerðaáætluninni. Forsendur einstakra aðgerða séu ekki ljósar í öllum tilvikum og byrjað verði á að draga þær fram til að hægt sé að kostnaðarmeta og fjármagna þær aðgerðir þar sem það eigi við.
Kornrækt, hagtölusöfnun og loftslagsbókhald
Lögð eru fram tíu aðgerðamarkmið með undirflokkum vegna landbúnaðarstefnu. Má þar meðal margs annars sjá tillögur sem varða eflingu kornræktar og lúta að kynbótum, stuðningi, kornsamlögum, búskaparháttum, tryggingum og vörnum gegn fuglum.
Fjallað er um bætta hagtölusöfnun í landbúnaði, ekki síst hvað varðar afkomu. Á að halda áfram þróun Mælaborðs landbúnaðarins.
Fara á í aðgerðir tengdar loftslagsbókhaldi fyrir landbúnað og tengja betur saman þau kerfi sem fyrir eru, svo sem Afurð, skýrsluhaldskerfi landbúnaðarins og landupplýsingakerfi Lands og skógar. Jafnframt á að byggja upp loftslagsráðgjöf fyrir bændur og styrkja loftslagsvæna hvata í landbúnaði auk þess að herða á rannsóknum. Þar má nefna rannsóknir á ræktarlandi, metanlosun búfjár, geymslu búfjáráburðar, framleiðslu og notkun lífkola til kolefnisbindingar og möguleika á metanvinnslu heima á búum.
Varðveisla landbúnaðarlands
Áhersla er lögð á að landnotkun í landbúnaði tryggi verndun og endurheimt viðkvæmra og mikilvægra tegunda og vistkerfa og á m.a. að leita leiða til að tryggja langtímaseiglu í náttúrulegum kerfum sem tryggja fæðuöryggi.
Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu hefur um alllangt skeið verið í vinnslu. Nú á að setja skýr viðmið um land- og beitarnýtingu og horfa frekar til varðveislu landbúnaðarlands. Gera á skráningu beitilands í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu stafræna.
Nýting lífrænna efna og tollamál
Þá á að rannsaka áhrif skjólbelta og skjólskóga á kornrækt og gera langtímarannsóknir á áhrifum skjóls á gæði, þroska og uppskerumagn á byggi, hveiti og höfrum.
Eitt stefnumið aðgerðaáætlunar fyrir landbúnaðinn fjallar um hringrásarhagkerfið. Þar eru sett fram markmið um að styðja þar við með þróun í fullvinnslu og fullnýtingu afurða til að stuðla að minni sóun og minna kolefnisspori. Jafnframt er horft til nýtingar á lífrænum efnum. Sagt er brýnt að nýta mun betur til áburðargjafar þau lífbrjótanlegu efni sem til falla innanlands. Á að framkvæma áhættumat á notkun áður ónýttra lífbrjótanlegra efna til áburðar. Tengist þetta aðgerð í matvælastefnu um nýtingu dýraleifa (ABP). Fjölmargt fleira má finna í drögum að fimm ára aðgerðaáætlun vegna landbúnaðarstefnu. Snertir það t.a.m. alþjóðleg markaðsmál, framleiðendafélög, bætta stafræna umsýslu í tollamálum svo unnt sé að fylgjast m.a. með tollkvótum og nýtingu tollkvóta í rauntíma. Lagðar eru til aðgerðir varðandi neytendamál og betri tengsl og dýnamík milli framleiðenda og neytenda.
Undir liðnum nýsköpun og tækni má sjá aðgerðir varðandi m.a. ræktunaráætlanir gegn riðu í sauðfé, kynbætur í korni og kyngreint nautgripasæði. Þá er fjallað um menntun, rannsóknir og þróun.
Stuðningskerfið óskilvirkt
Lokakafli aðgerðaáætlunar vegna landbúnaðarstefnu fjallar um fyrirkomulag stuðnings við landbúnað. Segir þar m.a. að „Núgildandi búvörusamningar gilda í 10 ár og renna út árið 2026. Í vinnu ráðuneytisstjórahóps sem skipaður var í október 2023 vegna erfiðrar fjárhagsstöðu bænda, kom fram að núverandi stuðningskerfi er óskilvirkt, með óskýr markmið og hvata sem eru ekki í samræmi við áherslur stjórnvalda eða hagsmuni atvinnugreinarinnar í heild. Í ljósi þess var lagt til að þegar í stað yrði ráðist í vinnu við að undirbúa heildarendurskoðun stuðningskerfisins. Gert er ráð fyrir að hefja vinnuna á árinu 2024 með samtali við hagaðila en tímalína í heild liggur ekki fyrir. Vinnan felst í því að móta og útfæra stuðningskerfi landbúnaðarins sem tekur við eftir að gildistíma núverandi kerfis lýkur,“ segir í áætlunardrögunum
Skurkur í söfnun dýraleifa
Aðgerðaáætlun matvælastefnu liggur enn fremur í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er sömuleiðis lögð áhersla á tíu meginviðfangsefni sem verði í forgangi næstu fimm árin. Felast þau í aðgerðum á sviði sjálfbærni matvælaframleiðslu, samfélags og neytenda, fæðu- og matvælaöryggis og rannsókna, nýsköpunar og menntunar.
Meðal annars er þar að finna tillögu að söfnunarkerfi fyrir dýraleifar. Er aðgerðin sögð „mikilvægur liður í hindrun útbreiðslu dýrasjúkdóma líkt og riðu, og að auki liður í því að bæta fyrir þau brot sem íslensk stjórnvöld fengu dæmd á sig í samningsbrotamáli fyrir EFTA-dómstólnum og koma til móts við þær úrbótakröfur sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur beint til íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki um árabil.
Dýraleifum sauð- og geitfjár auk nautgripa úr áhættuflokki 1 verður safnað á landsvísu, smitefni fjarlægð, sýni vegna dýrasjúkdóma (TSE) tekin úr þeim og þau flutt á viðeigandi úrvinnslustöð/líforkuver til frekari meðhöndlunar eða úrvinnslu. Sláturúrgangi sem fellur til á sauðfjár- og nautgripabúum verður einnig safnað og komið í vinnslu. Efnið er unnið og eftir standa fita og kjötmjöl sem hægt er að nýta frekar, eins og t.d. í lífdísil,“ segir í drögunum.
Engar umsagnir um aðgerðaáætlanirnar höfðu verið birtar í samráðsgáttinni þegar Bændablaðið fór í prentun. Opið er fyrir umsagnir til 21. mars.