Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kantarella og kóngssveppur  í útbreiðslu á Íslandi
Mynd / smh
Fréttir 6. september 2016

Kantarella og kóngssveppur í útbreiðslu á Íslandi

Höfundur: smh
Hagstætt tíðarfar í sumar hefur leitt til þess að nokkuð vel lítur út með sveppavertíðina í haust, að sögn Bjarna Diðriks Sigurðssonar skógvistfræðings. 
 
Bjarni Diðrik Sigurðsson.
„Rigningartíðin núna er mjög góð og ætti að gefa von um góða sveppauppskeru á næstu dögum og vikum. Það má segja að þetta fari ágætlega af stað, það sem af er byrjuninni. Fyrstu kóngssveppir komu til dæmis upp að venju um 20. júlí á Vesturlandi og fyrsta stóra skotið af lerkisvepp á Suðvesturlandi kom upp um mánaðamótin júlí-ágúst,“ segir Bjarni.
 
„Sveppavertíðin er þó ennþá bara að byrja og sumar sveppategundir virðast vera aðeins seinni en í bestu árum. Það er væntanlega hinn mikli þurrkur sem var í maí og júní sem hefur hægt eitthvað á þeim, en ég er bjartsýnn með að þær skjóti upp höttunum síðar í þessum mánuði eftir rigningarnar undanfarið,“ bætir Bjarni við.
 
Sveppatínslufólk tínir mest 3–4 tegundir
 
Flestir þeir sem tína sveppi einbeita sér að þeim fáum tegundum sem þeir þekkja og eru öryggir um að séu góðir til átu. „Fólk tínir mest 3–4 tegundir pípusveppa, sem þekkjast vegna svampdýnulegs undirlags undir hattinum, en eru ekki með fanir eða blöð. Þetta eru lerkisveppur, furusveppur og kúalubbi – auk sortulubba, sem flestir greina ekki frá kúalubba. Þetta eru allt fremur auðgreindar tegundir og sem koma oftast 3–5 sinnum upp yfir haustið og því má oft finna þær. Þær endast hins vegar stutt eftir að þær koma upp og eru bara nýtanlegar í fáeina daga eftir það. Það gildir því að fara aftur og aftur á sama svæði og grípa sveppina þegar þeir birtast – oftast 1–2 dögum eftir góða rigningu. Lerki- og furusveppir eru algengastir í tiltölulega ungum lerki- og furuskógum – gott er að finna skógræktarsvæði með 1–4 metra háum trjám á rýru landi. Þar verður uppskeran að jafnaði best. Kúa- og sortulubbi vaxa svo með birki og fjalldrapa,“ segir Bjarni.
 
Talsvert úrval af tegundum sem fáir tína
 
Að sögn Bjarna ætti fólk að gefa fleiri tegundum gaum í leit sinni – víkka aðeins sjóndeildarhringinn. „Það vex hér talsvert af ágætum algengum matsveppum sem eru tiltölulega auðgreindir, en fáir tína. Ég vil þá sérstaklega nefna fansveppinn grænhneflu sem vex bæði með birki og er orðin mjög algeng í eldri barrskógum og einnig má nefna slímgomp, annan augreindan fansvepp, með gulan stafenda sem er að stórauka útbreiðslu sína og vex nú nánast alls staðar þar sem eldri sitkagrenitré vaxa. Báðar þessar tegundir eru mjög góðar í blöndur með öðrum tegundum – og grænheflan er líka mjög góð eintóm. Einnig mætti nefna tegundina vallhnúfu sem vex í graslendi og grasbrekkum, en kemur oftast ekki upp fyrr en í september og má oft tína hana langt fram í október. Hún er sælkerafæða og lengir sveppatímann fyrir þá sem hana þekkja.“
 
Kantarella og kóngssveppur gamlar tegundir hér
 
Kantarella og kóngssveppur teljast meðal eftirsóttustu sveppategunda landsins. Bjarni segir að báðar séu þær gamlar hér á landi. „Þær geta báðar myndað svepprætur með birki, en báðar tegundirnar eiga einnig í eldheitu ástarsambandi við greni – sérstaklega sitkagreni. Báðar tegundirnar kjósa fremur eldri tré til að tengjast. Þær er því einkum að finna á þeim svæðum á Íslandi þar sem birkiskógar eyddust aldrei. Með öðrum orðum þá þýðir þetta að þær eru til dæmis mjög sjaldgæfar á Suðurlandi, sem var nær gjörsamlega skóglaust fyrir 100 árum síðan. 
 
Báðar þessar tegundir eru aðeins farnar að breiðast út og finnast í ræktuðum skógum þar sem ekki voru gamlir birkiskógar fyrir í umhverfinu; þetta á sérstaklega við kóngssvepp en einnig þekki ég nokkur slík tilfelli með kantarellur. Þetta er þó tiltölulega sjaldgæft enn, en mun væntanlega verða algengara á næstu árum og áratugum eftir því sem ræktaðir skógar eldast. Önnur eftirsótt tegund, ein vinsælasta matsveppategundin á meginlandi Evrópu, er keilumorkill. Hann kemur upp á vorin og í byrjun sumars og er enn fremur fátíður á Íslandi, en er greinilega að verða algengari. Af honum er milt og gott sveppabragð sem verður enn betra ef sveppurinn er þurrkaður.“
 
Vinsæl sveppanámskeið
 
Bjarni hefur haldið vinsæl sveppanámskeið undanfarin ár. Núna seinni part ágústmánaðar ætlar hann að halda tvö námskeið; annað 21. ágúst á Hvanneyri á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands og hitt á Keldnaholti í Reykjavík 27. ágúst. Oft komast færri að en vilja á þessi námskeið og útlit er fyrir að svipað verði upp á teningnum að þessu sinni. Bjarni segir að það sé að fyllast á báðum námskeiðunum, en hann muni bæta við námskeiðsdögum ef eftirspurn sé eftir slíku.
 
Bjarni gaf út Sveppahandbókina í fyrra og segir hann viðtökur hafa verið góðar. „Hálft upplagið sem prentað var, seldist strax á fyrsta ári. Áhugi á sveppatínslu og annarri náttúrunýtingu hefur verið sérstaklega mikill, allt frá hruni. Ég veit ekki alveg hvernig það tengdist, en þetta var mjög áberandi bylgja. Ég held að áhuginn sé enn frekar að aukast en hitt. Sveppatínsla er að verða þó nokkuð algeng meðal almennings og það er gaman að mjög mikið af ungu fólki er komið í þetta. Áhugi á sveppatínslu hefur gengið í gegnum nokkra toppa og lægðir á síðustu 30–40 árum, en ég held að með mun breiðara kynslóðabili sem núna er að tína sveppi þá muni þetta bara aukast. 
 
Það er talsvert um að fólk hafi samband við mig og sendi mér myndir af spennandi sveppum. Áður voru þetta einkum þeir sem höfðu verið á sveppanámskeiðum hjá mér, en eftir að Sveppahandbókin kom út þá er þetta auðvitað orðinn mun breiðari hópur. Það er bara skemmtilegt.“
 
Almenningur hefur ekki óskoraðan rétt
 
Bjarni segir að varðandi rétt almennings til tínslu í skógum og á jörðum gildi í raun það sama um sveppatínslu og berjatínslu. „Með öðrum orðum þá hefur almenningur ekki óskorðaðan rétt til að tína meira en til nýtingar á staðnum í ógirtum einkalöndum samkvæmt lagabókstafnum. Varðandi berjatínsluna hafa skapast ákveðnar hefðir, sem eru meðal annars dálítið mismunandi milli landshluta hversu miklar skorður landeigendur setja á berjatínslu almennings á ógirtri útjörð. Það ber því miður talsvert á því að þeir sem stunda sveppatínslu þekki ekki þær reglur sem gilda um almannarétt og nýtingu á einkalöndum – og þetta getur valdið árekstrum. Í þessu sambandi er um að gera að benda fólki á þjóðskógana, en það eru skóglendi á ríkislandi í umsjón Skógræktarinnar. Þeir eru opnir almenningi til útivistar, berja- og sveppatínslu og þeir finnast um allt land.
 
Varðandi hversu mikið má tína þá er það svo að hattar sveppanna eru eins og ber berjalyngsins. Þeir eru einungis fjölgunarlíffæri og sveppnum er því ekki hætta búin þó að þeir séu tíndir. 
 
Sjálfur lifir sveppurinn neðan­jaðar og flestar tegundir geta orðið mjög gamlar í landinu. Þegar um er að ræða sjaldgæfar sveppategundir, eins og til dæmis kantarellu, þá ætti fólk samt ekki að tína alla hatta sem það sér, svo að líkurnar séu sem bestar að tegundin dreifi sér á ný svæði og nái að endurnýja sig þegar sveppþræðirnir deyja úr elli eða þegar tréð sem þeir eru tengdir fellur.“ 
 
Edda Björnsdóttir í Miðhúsum á Fljótsdalshéraði er skógarbóndi og nytjar hér gjöfulan lerkiskóginn sinn. Mynd / smh
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...