Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Botnahrossin voru afskaplega róleg og gæf, auk þess að vera litfögur, en flest eru jarpskjótt.
Botnahrossin voru afskaplega róleg og gæf, auk þess að vera litfögur, en flest eru jarpskjótt.
Mynd / ghp
Fréttir 18. nóvember 2021

Einangruð í sjötíu ár

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Hópur bænda, áhuga- og vísindamanna hélt að Botnum í Meðallandi í byrjun mánaðarins að sækja átta hross. Væri það varla í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að um einstakan hrossahóp er að ræða, stofn sem hefur verið einangraður frá öðrum hrossum í landinu í sjötíu ár. 
Botnahrossin svokölluðu eru bæði menningarleg heimild um íslenska hestinn og hrossarækt en einnig eru þau erfðafræðileg auðlind að mati doktors í erfðafræði og einum af hinum nýju eigendum hrossanna.
Hrossin átta eru, eftir því sem næst verður komist, út af tveimur hryssum sem komu folöld að Botnum í kringum 1950. Önnur þeirra var jarpskjótt frá Bakkakoti í Meðallandi og hin rauð frá Langholti í Meðallandi. Þær fyljuðust síðan við fola frá sömu slóðum og eignuðust folöld og lögðu þannig grundvöll að núverandi hópi, en samgangur við önnur hross hefur ekki átt sér stað, að því best er vitað. Hafa hrossin því fjölgað sér og gengið frjáls um í aflokuðu landi Botna, sem er vin í Skaftáreldahrauni. 
Hrossin hafa hafa gengið sjálfala í eingangruðu Botnalandi kynslóðum saman. Þrátt fyrir það tóku þau meðhöndlun og flutningum í Árbæjarhjáleigu með stökustu ró og una sér nú vel í beitarhólfi við Rangá, þar sem Kristinn getur fylgst með þeim út um stofugluggann hjá sér.
Því er um að ræða erfðafræðilega einangraðan hóp, sem í dag eru sjö hryssur og einn stóðhestur. Hópurinn er einsleitur, stóðhesturinn og sex hryssanna eru jarptoppskjótt og ein hryssan rauð.
„Ég hef vitað af þessum hrossum lengi, fór þangað fyrst fyrir um 12-14 árum síðan, en aldrei gert neitt í þessu. Páll og Freyja Imsland hafa einnig haft mikinn áhuga á þeim og skoðað þau öðru hvoru. En Kjartani Ólafssyni bónda fannst nú kominn tími á að losa sig við hrossin og var tilbúinn til að selja okkur þau,“ segir Kristinn Guðnason frá Skarði, bóndi í Árbæjarhjáleigu.
Kristinn Guðnason (t.v) og Páll Imsland (t.h) voru meðal föruneytis sem sótti Botnahrossin í Meðallandið á dögunum. Mynd/Ásmundur Friðriksson
Hrossin voru því sótt á dögunum en með í för voru Halldór að Ytri Ásum, Vilhjálmur Svansson dýralæknir ásamt aðstoðarfólki, þeim Páli Imsland og Kristni og aðstoðarfólki hans, auk Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns.
Skapljúf en smá
 
Þrátt fyrir að hafa aldrei verið tamin eru hrossin mannvön og meðfærileg. „Það er greinilegt að Kjartan bóndi hefur farið vel að þeim, þau eru alveg óhrædd og afskaplega yfirveguð,“ segir Kristinn.
Það kom enda verulega á óvart hve smölun og flutningur á hrossunum reyndist auðveldur. Hrossin, sem hafa aldrei verið snert nema af Kjartani bónda, tóku því með stóískri ró að vera meðhöndluð af dýralækni og öðru aðkomufólki og sett á hestakerru og keyrð að Árbæjarhjáleigu. 
Botnahrossin geta reynst erfðaauðlegð fyrir íslenska hrossa stofninn. Hægt væri að gera áhugaverðar rannsóknir á genum þeirra í samanburði við meginræktunarstofninn. Mynd/ghp
„Þau voru ekki einu sinni sveitt eftir flutning,“ segir Kristinn. Þau una sér vel í beitarhólfi við Rangá, þar sem Kristinn getur fylgst með þeim út um stofugluggann hjá sér. 
Hrossin eru, eins og gefur að skilja, erfðafræðilega einsleit. Sennilega eru þau á aldrinum 4-18 vetra. Þau halda sig þétt saman og stóðhesturinn gengur venjulega fremstur eða aftastur þegar þau færa sig. Þau eru yfirmáta róleg. Kristinn segir að miðað við hjarðhegðunina sé rauða merin líklegast elsti einstaklingurinn í hópnum, því hún virðist tortryggnust. Yngri hryssurnar fara enn undir eldri hryssur og sjúga og mátti þannig sjá fullorðið hross sjúga þá rauðu þegar tíðindakona skoðaði hópinn. Flest voru þau forvitin en sjálfsörugg, leyfðu nálgun og voru gæf.
Rauða hryssan virðist vera aldursforseti hópsins, önnur hryssa, líklega 7-10 vetra, fær enn sopa frá henni. Mynd/ghp
Hrossin eru fótstutt og lágvaxin, það stærsta varla meira en 120 cm á herðakamb. Til samanburðar er meðalhæð íslenskra hrossa í dag 142 cm á herðakamb. Þau samsvara sér þó vel, hófar og fætur sterkir, hárafarið gott, öll með fax og tagl í ríflegu meðallagi og ekki að sjá annað en en þau séu heilbrigð. 
„Þau eru álíka í útliti eins og hross voru í gamla daga. Þau eru þykk, ekki stór og kannski ekki falleg miðað við ræktunarstaðla,“ segir Kristinn.
Toppa frá Botnum. Mynd/Páll Imsland
Hann segir næstu skref með hrossin sé að leyfa þeim að vera í rólegheitum í bili. Athuga þurfi hvort breytt umhverfi gæti haft áhrif á heilbrigði þeirra, til að mynda sé ekki vitað hvort þau séu útsett fyrir hrossasjúkdómum. Til framtíðar segir hann áhugavert að vita hvernig yngstu hrossin temjast. 
Þá sé stefnan að athuga hvort hryssurnar fyljist við óskyldum stóðhesti og hvort stóðhesturinn fylji aðrar hryssur og sjá hvað kemur út úr blendingsrækt við hross af öðrum meiði. Ef svo reynist geta Botnahrossin reynst erfðaauðlegð fyrir íslenska hrossastofninn.
 
Ómenguð erfðaauðlind
Ef hrossin reynast erfðamengislega eins einangruð og saga þeirra gæti bent til geta rannsóknir á hrossunum í samanburði við hross í meginræktunarstofninum reynst merkileg sagnfræðileg heimild. Hrossin gætu til að mynda búið yfir erfðafræðilegum eiginleikum og fjölbreytileika sem við höfum glatað úr stofninum í dag, að sögn Freyju Imsland, doktors í erfðafræði.
 
Toppur frá Botnum er stóðhesturinn í hópnum. Mynd/Ásmundur Friðriksson
„Það má segja að hópurinn sé erfðafræðileg heimild um fyrri tíma, en að sama skapi erfðaauðlind. Ég hef kannski aðra sýn á erfðafræðina en kynbótafræðingar, en það er augljóst að eftir að skipulögð ræktun hófst höfum við glatað erfðafjölbreytileika úr íslenska hrossastofninum,“ segir Freyja.
„Ef við skoðum virka ræktunarstofninn frá sjónarhóli kynbóta- og keppnisræktunar og berum hann saman við þann hrossastofn sem við höfðum fyrir 70 árum, þá er erfðafjölbreytileikinn mun minni í dag. Stofninn í heild er miklu skyldari innbyrðis en hann var. Það eykur hættu á að víkjandi erfðagallar verði að vanda í ræktun.
Árþúsundum saman, allt frá því hesturinn var fyrst taminn, hefur maðurinn verið að draga úr óséðum erfðafjölbreytileika hrossa. Það að hraða því ferli með sterku úrvali og fábreytni í vali á ræktunargripum felur í sér hættu fyrir erfðafræðilegt heilbrigði. Með tíð og tíma færum við að sjá verra stofnheilbrigði, frjósemisvanda, aukningu á erfðatengdum sjúkdómum og svo þar fram eftir götunum. Það að finna hross eins og þessi sem eru ósnert af áhrifum skipulagðrar ræktunar er því frábært. Þetta eru mikilvægar menningarminjar, ómengaðar af skoðunum hrossaspekúlanta og ræktunarmenningar. Með því að blanda þeim við meginræktunarstofninn þá stuðlum við að heilbrigði hans í heild. Við getum vonast eftir því að það auki á blendingsþrótt, bæti fjölbreytileika stofnsins og efli erfðaauðlegð hans.“
Blesa frá Botnum. Mynd/ghp
Freyja segir mikilvægt að varðveita hross sem eru óskyld virka ræktunarstofninum. „Við vitum kannski ekki upp á hár hvað við höfum í höndunum, en framtíðin á það inni hjá okkur að við varðveitum íslenska hestinn fyrir hana. Okkar hlutverk er að sjá til þess að komandi kynslóðir búi ekki við snauðari veröld. Þessi hross gera veröldina vissulega auðugri að fjölbreytileika. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ segir Freyja.
Rauðka frá Botnum. Mynd/Páll Imsland
Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...